Heilsuefling er eftirsóknarverð

Fréttir

Í dag er markmiðið að allir skólar í Hafnarfirði verði heilsueflandi. Hulda Sólveig Jóhannsdóttir, kennari í Hvaleyrarskóla, er í stýrihópi hjá Hafnarfjarðarbæ sem hefur látið til sín taka í þessum málum í bænum. 

Fyrir fimm árum varð Hafnarfjarðarbær heilsueflandi samfélag. Í aðalnámskrá sem kom út 2011 eru heilsa og heilbrigði meðal grunnþátta menntunar. Með henni fengu skólarnir aðgang að fulltrúa Embætti landlæknis sem veitir ráðgjöf og jafnvel endurgjöf og einnig tækifæri til vinna markvisst að því að nýta þau verkfæri til að þetta auðvelda þeim ferlið. Í dag er markmiðið að allir skólar í Hafnarfirði verði heilsueflandi. Hulda Sólveig Jóhannsdóttir, kennari í Hvaleyrarskóla, er í stýrihópi hjá Hafnarfjarðarbæ sem hefur látið til sín taka í þessum málum í bænum. 

Bæjarblaðið Hafnfirðingur ræddi við Huldu

Í stýrihópi bæjarins, sem Hulda eru hluti af, eru fulltrúar frá flestum sviðum sveitarfélagsins og segir Hulda að reynt sé að klukka flest svið og starfseiningar til að þekkingin verði víðari. „Hugmyndirnar koma m.a. frá starfsfólki og íbúum sveitarfélagsins og er framkvæmt þannig að sem flestir finni til sín og séu hluti af ákvörðunum. Heilsustefna Hafnarfjarðarbæjar hefur að geyma heilsumarkmið sem við reynum að framfylgja á ólíkan hátt fyrir ólíka hópa. Á Covid-tímum höfum við hvatt fólk til að nota öruggar leiðir sér til heilsueflingar. Þannig höfum við t.d. verið að kynna fríar gönguleiðir í Wappinu, sett fram heilt stafróf með heilsueflandi hugmyndum og hvatt fólk til að fara í heilsubótar- og menningargöngur en passa á sama tíma vel upp á 2ja metra regluna. Þessar göngur hafa verið vikulega í sumar. Okkur finnst mikilvægt að íbúum finnist eftirsóknarvert að njóta alls sem bærinn hefur upp á að bjóða og að heilsuvæni kosturinn sé auðveldara valið. Það er grunnstefið í allri vinnu stýrihópsins.“ 

Hulda2
Hulda var ekki í vandræðum með að hlaða í eina handstöðu á hreystibrautinni, enda mikil íþróttakona sjálf. Mynd/OBÞ

Leiðbeinandi verkfærakista frá starfsmanni landlæknis

Heilsueflandi grunnskólar er annar áhersluþáttur að frumkvæði Embættis landlæknis til að tengja heilsueflingu inn í leik- og grunnskóla og láta hana vera grunnmenninguna í skólastarfinu. „Með því fengum við, starfsfólk skólanna, leiðbeinandi verkfærakistu til að horfa á allt skólastarfið með gleraugum heilsueflingar. Hjá embættinu fáum við aðstoð og stuðning þannig að hver og einn skóli skrifar undir plagg þess efnis að hann taki þessa ákvörðun og framfylgi henni á sinn hátt. Fulltrúar skólanna fá möppu með leiðbeinandi efni og ráðleggingum. Síðan er útfærð stöðukönnun til að staðsetja skólann í vegferðinni,“ segir Hulda. Stýrihópar séu svo í hverjum skóla sem vinni sem teymi við taka út hvernig áherslur verða og hversu lengi. Meðal áherslna sem hægt er að velja úr eru mataræði, tannheilsa, lífsleikni, heimili, nærsamfélag, öryggi og geðrækt.

Virk þátttaka starfsfólks skiptir máli

Hulda leggur áherslu á að það þurfi alls ekki að bæta þetta allt á sama tíma og eftir innri skoðun komi oft í ljós að það er þegar verið að gera margt heilsueflandi. „Þegar við hófum að leggja áherslu á heilsueflingu í Hvaleyrarskóla árið 2008 var til dæmis geðrækt tekin fyrir og við létum nemendur gera verkefni út frá geðorðunum 10. Þau hanga uppi á stóru skilti fyrir ofan matsalinn.“ Þau hafi einnig nýtt ýmislegt sem bærinn bauð upp á, s.s jafningjafræðslu og innleiddu verkefnið Vinaliðar í frímínútum. „Svo hvetjum við að sjálfsögðu til virkrar þátttöku starfsfólks.“

Vilja hafa alla skólana með

Hulda segir að 5 grunnskólar af 8 og 2 leikskólar af 17 séu orðnir hluti af þessum markvissu heilsueflandi skólum. Þessir skólar séu að gera frábæra hluti og gaman er að fylgjast með jákvæðninni og orkunni frá þeim sem leiða skólana í því. „Við viljum endilega að allir skólarnir verði með og viljum sýna þeim fram á að þetta er einfaldara en fólk heldur og algjörlega þess virði. Það þarf alltaf einhver áhugasamur og drífandi að draga vagninn á hverjum stað og við höfum verið með fyrirlestra og vinnustofur og næst mun stýrihópurinn styrkja Útilífsmiðstöð Hafnarfjarðar sem hvatningu til að nota útikennslu án mikillar fyrirhafnar. Við leitum allra leiða til þess að fólk sjái ljósið,“ segir Hulda brosandi að endingu.

Viðtal við Huldu birtist í Hafnfirðingi 30. ágúst 2020.

Ábendingagátt