Hingað kemur yndislegt og áhugavert fólk

Fréttir

Lækur, athvarf fyrir einstaklinga með geðrænan vanda, flutti nýlega í Staðarberg 6. Þar er glæsilegt, hentugt og stórt húsnæði á einni hæð og því með betra aðgengi, líka fyrir hjólastóla og næg bílastæði fyrir framan.

Lækur, athvarf fyrir einstaklinga með geðrænan vanda, flutti nýlega í Staðarberg 6. Þar er glæsilegt, hentugt og stórt húsnæði á einni hæð og því með betra aðgengi, líka fyrir hjólastóla og næg bílastæði fyrir framan. Bæjarblaðið Hafnfirðingur kíkti í heimsókn skömmu áður en von var á daglegum gestum og spjallaði við Brynju Rut Vilhjálmsdóttur, forstöðumann Lækjar, um starfið og mikilvægi þess.  

Laekurinn1

Húsakynnin eru verulega hlýleg

„Við erum afar ánægð hér í hentugra húsnæði fyrir alla sem þurfa á svona þjónustu að halda. Hér er t.d. baðherbergi fyrir fólk í hjólastól sem það getur nýtt sjálft og það hefur einmitt verið vel nýtt á meðan sundlaugarnar voru lokaðar og hér er þvottavél sem má nota að vild,“ segir Brynja. Fólk komi þegar því hentar og flæði sé yfir allan daginn. „Ég hef tekið eftir því að eftir að við fluttum hingað staldrar fólk lengur við og fleiri en við bjuggumst við. Fólki líður vel í húsnæðinu og við finnum það. Það er gaman að sjá að hingað hafa komið nokkrir forvitnir og orðið tíðari gestir eftir það. Það var mjög mikið að gera hérna fyrstu vikurnar sem er mjög ánægjulegt.“ 

Laejurinn2Tónlistar- og kósýhorn

Laekurinn3Stofan er vinsælasta samverurýmið

Laekurinn4Í þessum sal fer fram fræðsla, jóga og ýmislegt annað

Laekurinn5

Gestir hafa aðgang að baðherbergi, snyrtiaðstöðu og þvottavél

Góður andi og yndislegt samstarfsfólk

Í Læk er boðið upp á morgunmat, hádegismat og kaffi gegn vægu gjaldi. „Það er oft aðsókn í matinn því gjarnan er þetta eina heita máltíð dagsins hjá gestum okkar og Lækur er fyrir marga eini félagslegi vettvangurinn. Hér hittir fólk annað fólk og þegar Hafnarfjarðarbær tók við rekstri Lækjar af Rauða krossinum 2018 var ákveðið að leggja ríka áherslu á virkni og fjölbreytta dagskrá,“ segir Brynja, en hún er menntuð félagsráðgjafi og starfaði áður á bráðageðdeild Landspítalans. „Svo er ég með almennan áhuga á geðheilbrigði og fyrstu æviárum barna og tengslamyndun. Ég hef verið að nýta mína krafta og þekkingu í mótun dagskrár og halda ýmis námskeið. Það er mjög gefandi að gera starfið lifandi og skemmtilegt. Það ríkir svo góður andi hér, við erum góð saman og samstarfsfólkið yndislegt. Við erum líka með gæfar hænur sem eru í umsjá gesta og þær gleðja.“

Laelkurinn6Í bakgarðinum er flottur pallur með húsgögnum sem mikið eru notuð og þarna eru hænur sem hafa slegið í gegn

Laekurinn6Tvær hænanna

Ný dagskrá með eitthvað við allra hæfi

Aldur gesta er frá 18 ára til sjötugs, en meginaldur er frá 20 til 60 ára sem sækir Læk núna. Oftast er um að ræða einstæðinga eða að makinn er heima. „Það er næring gesta okkar að koma hingað og er þeim að kostnaðarlausu nema fyrrgreindar veitingar og svo einhverjir hundraðkallar fyrir efni á sum námskeið. Við opnum kl. 9 og erum með skipulagða starfsemi. Fólk kemur líka með eigið efni og verkefni og situr í hjarta hússins í stofunni að prjóna, spila og föndra og spjalla um daginn og veginn. Það kemur ný dagskrá í þessari viku þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Auk þess er væntanlegt í dagskrána snyrtivöru-, brjóstsykurs- og sápugerð, matreiðslunámskeið, dansleikfimi, myndlist, jóga og slökun, bókaklúbbur, bíókvöld, fræðsla, spil, púsl og það sem hverjum dettur í hug.“

Laekurinn7Allir með merktan bolla

Laekurinn8Jólakortagerð í desember

Laekurinn9Kertagerð
Laekurinn10Brjóstsykursgerð

Myndir/OBÞ og starfsfólk Lækjar. Forsíðumynd. F.v. Brynja Rut Vilhjálmsdóttir, Valur Páll Viborg og Guðbjörg Þórðardóttir, starfsfólk Lækjar.

Viðtal við Brynju Rut var birt í Hafnfirðingi 18. janúar 2021. 

Ábendingagátt