Hlýja og fegurð í Tíru á Strandgötu

Fréttir Jólabærinn

Síðasta Jólaþorps-helgin er nú hafin. Fjölmargt að sjá og gera. Yndislegt er að stækka enn upplifunina með því að kíkja í frábærar verslanir á Strandgötunni. Alice Clarke rekur Tíru svo eftir er tekið.

Íslensk hönnun í Strandgötunni

Síðasta Jólaþorps-helgin er nú hafin. Fjölmargt að sjá og gera. Yndislegt er að stækka enn upplifunina með því að kíkja í frábærar verslanir á Strandgötunni.

Tíra hefur staðið við Strandgötu frá því í febrúar. Þar ræður Alice Olivia Clarke ríkjum. Hún hannar og framleiðir vörur sínar, sem hún selur einnig meðal annars í Epal og í verslun Þjóðminjasafnsins. Endurskin einkennir vörurnar og þær ljóma. Tíra ber nafnið frá ljóstýru.

Endurskin í íslensku ullinni

„Ég hef hannað undir merkjum Tíru frá árinu 2008. Endurskin er í öllu og því blandað í íslenska upp.“ Ullin er handgerð á Íslandi og hún nýtir einnig tvít frá Kormáki og Skyldi í slá sem hún hannar listilega og blandar íslenskri og merino-ull. Sjón er sögu ríkari. Vettlingar með endurskini, húfur sem lýsa upp við ljós, skóreimar, endurskinsmerki og svo margt fleira.

„Ég hanna bæði ein og í samvinnu við aðra, því það er svo skemmtilegt að fá annað sjónarhorn á verk sín,“ segir Alice sem selur einnig frá öðrum hönnuðum.

Lengi í bransanum

„Ég hef verið svo lengi í þessum bransa og kynnst skemmtilegum fólki á sýningum og ´viðar. Það fréttist út að ég sé með búð og það kemur til mín,“ segir Alice og nefnir að samstarfið við aðrar hönnunarverslanir í Strandgötu sé gott. Þau bendi á hver aðra þegar hönnuðir komi og vörur þeirra henti öðrum verslunum betur.

„Það er frábært,“ segir hún. Það styrki hönnunarverslanirnar að vera fleiri í Hafnarfirði.

Alice býr stutt frá búðinni og tók því fagnandi þegar rýmið opnaði. „Ég bý aðeins 100 skrefum frá,“ segir hún. „Þetta er mjög, mjög þægilegt,“ segir hún og hlær. Hún er frá Kanada en hefur búið rúm 30 ár á Íslandi.

„Ég kom fyrst í heimsókn 22 ára en flutti ári síðar.“ Spurð hvað heillaði við Ísland hlær hún og svarar: „Þú meinar: Hvað heitir hann?“

Flutti á eftir ástinni

Ástin dró hana til Íslands en hún kynntist Kára Einarssyni arkitekt þegar hann var í námi í Ottawa í Kanada. „Akkúrat á fimmtudag voru 34 ár síðan við hittumst.“ Ísland er orðið heim fyrir Alice.

„Og svo kemur fólkið mitt í heimsókn,“ segir Alice. „Þetta er ekki eins erfitt og fyrir þrjátíu árum. Það er svo auðvelt að halda tengslum í dag, tala við fólkið og sjá það þegar það talar við mann. Nú sendi ég ekkert fax,“ segir hún og hlær.

Já, það er yndislegt að kíkja í verslanirnar á Strandgötu.

  • Lestu um Kakí og Kailash í Jólablaðinu hér
  • Lestu um Strand 49 hér

Opnunartími Tíru fylgir Jólaþorpinu.

Ábendingagátt