Hornfirðingar í heimsókn

Fréttir

Ungmennaráð Hornafjarðar heimsótti Ungmennaráð Hafnarfjarðar í apríl.  Heimsóknir sem þessar eru til þess fallnar að auka persónulegan, félagslegan og faglegan þroska.

Á síðasta ári kom upp sú hugmynd hjá fulltrúum í Ungmennaráði
Hafnarfjarðar að bjóða öðru ungmennaráði í heimsókn. Fyrst voru uppi umræður um
að bjóða ungmennaráði í nærliggjandi sveitarfélagi í heimsókn með það fyrir augum að kynnast störfum og starfsaðferðum hjá öðru ungmennaráði. Á meðan á þessum
hugleiðingum stóð leitaði Ungmennaráð Hornafjarðar til Ungmennaráðs Hafnarfjarðar. Hornfirðingarnir mættu á svæðið í apríl og gistu í Húsinu, Staðarbergi 6. Saman fór hópurinn á námskeið UMFÍ – ,,Sýndu hvað í þér býr“, í hópeflisleiki, kynningu á Hinu húsinu, sundferð, jafningjafræðslu auk þess sem hópurinn eldaði saman.  Heimsóknir sem þessar skapa tækifæri til þess að ungmennaráðin og þar með ungmennin sjálf læri hvert af öðru og deili reynslu og þekkingu. Slíkt óformlegt nám er til þess fallið að auka persónulegan, félagslegan og faglegan þroska
einstaklinganna í verkefninu ásamt því að efla samfélagslega vitund þátttakenda.

Þjálfun í því að koma fram

Fimmtán fulltrúar frá Ungmennaráði Hafnar í Hornafirði og Ungmennaráði Hafnarfjarðar sátu saman námskeiðið „Sýndu hvað í þér býr“. Ungmennin gerðu æfingar og fengu þjálfun hjá Sabínu Steinunni Halldórsdóttur, landsfulltrúa UMFÍ, í því að koma fram, halda ræður og vinna með fundarsköp. Sabína hefur mikla reynslu af því að vinna með unglingum og ungu fólki að fræðslu- og forvarnarmálum en hún skipulagði meðal annars ungmennaráðstefnu UMFÍ, Ungt fólk og lýðræði, sem haldin var á Selfossi um miðjan mars. Námskeiðið var hluti af sameiginlegum starfsdegi ungmennaráðanna og fóru þau víðar þennan dag.

Sýndu hvað í þér býr!

Námskeiðið „Sýndu hvað í þér býr“ er félagsmálafræðsla sem UMFÍ býður öllum sem vilja upp á. Á námskeiðinu er farið yfir ýmsa þætti sem tengjast ræðumennsku, s.s. að taka til máls, framkomu, ræðuflutning, raddbeitingu, skipan ræðu og fleiru. Á námskeiði er einnig farið yfir ýmislegt sem viðkemur fundasköpum, m.a. fundareglur, boðun funda, fundaskipan, dagskrá funda, umræður, meðferð tillagna, kosningar og fleira. Þátttakendur vinna einföld verkefni og fara í leiki til þess að brjóta upp námskeiðið.

Ábendingagátt