Hraun vestur að taka á sig mynd: Tillaga að framtíðarsýn kynnt

Fréttir

Fjölmennt var á kynningarfundi um þróunaráætlun Hraun vestur-svæðisins sem haldinn var í Bæjarbíói síðdegis 23. maí. Stefnt er að því að svæðið breytist úr því að vera einna helst atvinnusvæði í að verða blönduð byggð miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. 

 

Uppbygging Hraun vestur í Hafnarfirði

Fjölmennt var á kynningarfundi um þróunaráætlun Hraun vestur-svæðisins sem haldinn var í Bæjarbíói síðdegis 23. maí. Lögð var fram tillaga um að svæðið breytist úr því að vera einna helst atvinnusvæði í að þar rísi um 2500- 3000 íbúðir á næstu 25 árum.  

Kristján Örn Kjartansson frá KRADS og Jóhann Einar Jónssyni frá Teiknistofunni arkitektar kynntu tillögu að framtíðarsýn fyrir svæðið. Hún er að það fái að þróast og byggjast upp á grunni núverandi byggðar og forsendna úr þróunaráætluninni að frumkvæði einstakra lóðarhafa og hugmynda þeirra. Horft er til að íbúðir nýti 71% byggingarmagns á móti 29% fyrir atvinnustarfsemi; fyrir skrifstofur, iðnað, verslu, þjónustu og veitingar. Það eru alger umskipti hlutfals nýtingar frá því sem nú er.  

Byggingarmagn á svæðinu öllu verður samkvæmt fullbyggðri tillögu 382.500 m2, þar af 272.325 m2 fyrir íbúðir/gistingu. Nú eru vel yfir 100 fyrirtæki í ýmiskonar atvinnustarfsemi á svæðinu og um 100 íbúðir. Stefnt er að því að lóðahafar og eigendur húsnæðisins nýti núverandi byggingar eins og kostur er þegar hverfið tekur breytingum.   

Kristján lagði áherslu á að þróunaráætlunin sé leiðarvísir að samvinnu skipulagsyfirvalda og lóðarhafa. Á fundinum var farið yfir tímalínu aðalskipagsbreytinga svæðisins. 

Tímalína:  
  • Maí-júní: Unnið að skipulagslýsingu og breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025   
  • Júní-júlí: Lýsingin auglýst, opinberlega/lögformlega  
  •  Júlí-september: Tillaga kynnt og metin af Skipulagsstofnun  
  • Október-nóvember: Tillaga auglýst, opinberlega/lögformlega   
  • Janúar-febrúar: Tillaga að breytingu á Aðalskipulagi öðlast gildi 

Fram kom hjá þeim Kristjáni og Jóhanni að mikilvægt væri að uppbyggingin tæki mið af fyrirliggjandi byggðamynstri og atvinnustarfsemi. Markmiðið væri einnig að gefa kost á uppbyggingarmöguleikum og blandaðri notkun. Gefa eigi hverfinu færi á að umbreytast hægfara í þétta, blandaða byggð; en í blandaðri byggð er bæði að finna íbúðir og atvinnustarfsemi þannig að innviðir nýtist betur og mannlífið styrkist.   

Markmiðið er einnig að styðja við atvinnustarfsemi, meðal annars þannig að svipaður fjöldi fermetra sé nýttur fyrir hana í framtíðinni og nú, þó hún verði ekki endilega sú sama og nú.   

Vistvænt 5 mínútna hverfi 

Stefnt er að því að hverfið verði svonefnt 5 mínútna hverfi. Það er að um fimm mínútna göngufjarlægð verður frá miðju þess í alla þjónustu. Staðsetningar helstu grunnþjónustu samfélagsins, eins og skóla, leikskóla, matvöruverslana, bílastæðahúsa, bílastæðakjallara og helstu tenginga við almenningssamgöngur eru með um einnar mínútu millibili. 

Leggja á áherslu á vistvænar byggingarleiðir, efnisnotkun og framkvæmdaferla. Tillagan gerir ráð fyrir ramma utan um núverandi byggð meðal annars að bætt verði við hæðum á hluta núverandi bygginga eða byggt við/á milli þeirra þar sem standa auð eða vannýtt svæði. Styðja á við atvinnustarfsemi og auka fjölbreytni atvinnutækifæra innan hverfisins. 

 

 

Breyting á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 – Hraun vestur.

 

Að kynningu lokinni sátu hönnuðir skipulagsins og skipulagsfulltrúi Lilja Grétarsdóttir fyrir svörum. Fram fóru uppbyggilegar umræður þar sem fram komu ýmsar skoðanir á málinu og voru ræddar. Fundurinn var tekinn upp og verður hægt að horfa á hann á netinu. Upptakan verður aðgengileg næstu daga. 

Kynning frá kynningarfundi fimmtudaginn 23. maí 2024  

Já, þetta er afar metnaðarfull framtíðarsýn sem gerir Hafnarfjörð enn betri! 

 

 

Ábendingagátt