Húrra fyrir nemendafélögum grunnskólanna

Fréttir

Árlega er haldin sameiginleg nemendafræðsla fyrir öll nemendafélög í grunnskólum Hafnarfjarðar. Fræðslan var haldin á Ásvöllum í vikunni og komu þar saman stjórnir allra nemendafélaganna auk deildarstjóra tómstundamiðstöðvanna í hverjum skóla. Alls um 110 nemendur sem skemmtu sér, sköpuðu og skipulögðu starf vetrarins undir dyggri handleiðslu reynslubolta í faginu. Nemendafræðslan er í senn liður í því að efla ungmennin til virkrar þátttöku og hvetja þau til dáða í verkefnum sínum.

Um 110 nemendur hittast á Ásvöllum

Árlega er haldin sameiginleg nemendaráðsfræðsla fyrir öll nemendafélög í grunnskólum Hafnarfjarðar. Fræðslan var haldin á Ásvöllum í vikunni og komu þar saman stjórnir allra nemendafélaganna auk deildarstjóra tómstundamiðstöðvanna í hverjum skóla. Alls um 110 nemendur sem skemmtu sér, sköpuðu og skipulögðu starf vetrarins undir dyggri handleiðslu reynslubolta í faginu. Nemendafræðslan er í senn liður í því að efla ungmennin til virkrar þátttöku og hvetja þau til dáða í verkefnum sínum.

„Fræðslan tengist beint innleiðingu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og er hluti af vegferð Hafnarfjarðarbæjar að hljóta titil UNICEF á Íslandi sem barnvænt sveitarfélag,“ segir Þórunn Þórarinsdóttir verkefnastjóri Barnvæns sveitarfélags hjá Hafnarfjarðarbæ.

„Hér hittast áhugasöm ungmenni, hér kvikna hugmyndir og hér gerast hlutirnir. Hér deilum við hugmyndum og reynslu og leggjum við línurnar fyrir skemmtun og sameiginlega viðburði skólanna fyrir skólaárið. Samhliða fræðumst við um alls konar,“ segir Stella B. Kristinsdóttir fagstjóri frístundastarfs og forvarna hjá Hafnarfjarðarbæ.

Fræðslan í ár hófst með ísbrjóti og svo tók við réttindafræðsla frá Unicef auk erinda um samskipti, barnvænt sveitarfélag og hlutverk nemendaráðanna. Nemendur voru til fyrirmyndar og virkilega áhugasöm og starfsfólkið frábært.

Reynsla í félagslegri hæfni og skipulagningu

Nemendafélögin hafa þann tilgang að hvetja nemendur til þátttöku í félagsstörfum, miðla upplýsingum til samnemenda sinna og koma hugmyndum og áskorunum samnemenda sinna á framfæri eða einfaldlega í framkvæmd. Árlega er kosið í stjórn nemendafélagsins og eru þau sem eru í stjórn nemendafélags fyrirmynd annarra nemenda og tenging annarra nemenda við stjórnendur og starfsfólk skólans. Tveir fulltrúar nemendafélags sitja í skólaráði.

Kynnið ykkur starf félagsmiðstöðvanna 

Félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavikan 2024 stendur yfir dagana 14. – 18. október. Foreldrar, forsjáraðilar, systkini og önnur áhugasöm eru hvött til að kynna sér starfsemi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa í Hafnarfirði og hvetja börn sín og ungmenni til virkrar þátttöku. 

Ábendingagátt