Hvað á að flokka og í hvaða tunnu?

Fréttir

Í sérstökum glugga á vef Sorpu er með auðveldum hætti hægt að slá inn algengustu úrgangstegundir og fá upplýsingar um hvernig á að flokka þær. Svör við ýmsum vangaveltum gætu komið á óvart og er að finna á vef Sorpu.

Leitargluggi fyrir úrgangstegundir á vef Sorpu

Í sérstökum glugga á vef Sorpu er með auðveldum hætti hægt að slá inn algengustu úrgangstegundir og fá upplýsingar um hvernig á að flokka þær. Fjöldi fólks veltir fyrir sér meðal annars flokkun á tannkremstúpunni, afskornum blómum, eggjaskurn, bökunarpappír, eyrnapinnum, bleyjum og ryksugupokum.  Svörin við þessum vangaveltum gætu komið á óvart og er að finna á vef Sorpu

Fjórir úrgangsflokkar við heimili

Nýtt flokkunarkerfi á höfuðborgarsvæðinu öllu felur í sér að nú er fjórum úrgangsflokkum safnað við hvert heimili bæjarins lögum samkvæmt. Öðrum flokkum þarf að skila beint í viðeigandi gáma á Sorpu eða í grenndargáma. Til viðbótar við fjögurra flokka kerfi við heimili er unnið að fjölgun grenndargáma. Gleri, málmum, textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum verður safnað á grenndarstöðvum sem verða staðsettar um 500 metra frá hverju heimili. Stærri grenndarstöðvar verða í um kílómetra fjarlægð frá hverju heimili og þar bætast við gámar fyrir pappír og pappa og plast.

Matarleifar – í tunnuna fer meðal annars:

  • Eggjaskurn
  • Matarleifar með beini
  • Kaffikorgur
  • Fiskiúrgangur

Plastumbúðir – í tunnuna fer meðal annars:

  • Snakkpokar
  • Plastfilma
  • Plastpokar
  • Sjampóbrúsar

Pappír og pappi – í tunnuna fer meðal annars:

  • Dagblöð
  • Bréfpokar
  • Pítsakassar
  • Pappírsumbúðir

Blandaður úrgangur – í tunnuna fer meðal annars:

  • Dömubindi
  • Blautklútar
  • Bleyjur
  • Ryksugupokar

Temjum okkur strax rétta flokkun – röng flokkun hindrar tæmingu

Samhliða dreifingu á nýjum sorpílátum í hverju hverfi er sorp losað, eldri ílát endurmerkt og aðlögunartími gefinn fram að næstu losun. Þar með er formleg innleiðing á flokkun hafin. Sérstök athygli er vakin á því að ef ekki er rétt flokkað í sorpílát í annarri losnun eftir að ný ílát og endurmerking hefur átt sér stað er sett tilkynning um að ekki hafi verið losað. Íbúar þurfa þá sjálfir að endurflokka og tunnan losuð í næstu losun. Íbúar eru hvattir til að hefja rétta flokkun um leið og ný ílát eru afhent.

Vefur Sorpu

Almennar upplýsingar um samræmt fyrirkomulag

Sértækar upplýsingar fyrir Hafnarfjörð

Ábendingagátt