Hvatning til útivistar í upplandi Hafnarfjarðar

Fréttir

Eitt af meginmarkmiðum Heilsubæjarins Hafnarfjarðar er að hvetja bæjarbúa að stunda útivist í upplandi Hafnarfjarðar. Í gær var undirritaður formlegur samningur við Guðna Gíslason, eiganda Ratleiks Hafnarfjarðar og Hönnunarhússins, sem hefur haft veg og vanda af skipulagi og framkvæmd á Ratleik Hafnarfjarðar síðustu 12 árin.

Eitt af meginmarkmiðum Heilsubæjarins Hafnarfjarðar er að
hvetja bæjarbúa að stunda útivist í upplandi Hafnarfjarðar. Í gær var
undirritaður formlegur samningur við Guðna Gíslason, eiganda Ratleiks Hafnarfjarðar
og Hönnunarhússins, sem hefur haft veg og vanda af skipulagi og framkvæmd á
Ratleik Hafnarfjarðar síðustu 12 árin.

Ratleikur er góð leið til þess auk þess að ýta undir
hreyfingu og skemmtilega samverustund fjölskyldna og vina. Markmið með Ratleik
Hafnarfjarðar er að bjóða bæjarbúum og vinum Hafnarfjarðar á öllum aldri upp á
skemmtilegan leik í upplandi Hafnarfjarðar þar sem náttúra og umhverfi eru
kynnt með áhugaverðum hætti. Ratleikurinn hefst ár hvert í byrjun júní og lýkur
um miðjan september. Þátttakendur, sem farnir eru að telja á hundruðum ár
hvert, hafa þennan tíma til að safna 27 ratleiksmerkjum sem staðsett eru
víðsvegar um uppland bæjarins. Kortin fást frítt m.a. í ráðhúsi Hafnarfjarðar, Fjarðarkaupum,
Bókasafni Hafnarfjarðar, á sundstöðum, í íþróttahúsum, Músik og sport, Altis, á
bensínstöðvum og víðar.

20190709_141411Það þótti tilvalið að skrifa undir samstarfssamning um Ratleik Hafnarfjarðar á Hamrinum en þaðan er gott útsýni til allra átta. Fanney D. Halldórsdóttir fræðslustjóri, Guðni Gíslason og Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar undirrituðu og handsöluðu samkomulag um Ratleik Hafnarfjarðar. 

Ratleikur
Hafnarfjarðar 2019 – tilvalinn fjölskylduleikur

Þema Ratleiks Hafnarfjarðar er mismunandi á milli ára og í
ár er áhersla lögð á „jarðmyndanir“. Fjölmargt hefur áhrif á útlit landsins og
áhrifavaldarnir geta verið eldgos, jarðhræringar, veður og vatn en leikurinn
leiðir þátttakendur að ýmsum áhugaverðum stöðum. Allir þátttakendur fá frítt
vandað ratleikskort og leita að 27 ratleiksmerkjum sem staðsett eru víðs vegar
um uppland bæjarins. Sum merkjanna eru stutt frá bænum, t.d. við Hvaleyrarvatn
og Stórhöfða en önnur eru lengra, í Helgadal, á Helgafelli, í Litlu-borgum, í
Sauðabrekkugjá, Fjallgjá, Réttarklettum, Óttastaðaseli og víðar og sum jafnvel
rétt út fyrir bæjarmörkin eins og á Fjallinu eina og hinu merkilega fyrirbrigði
Urðarás. Guðni Gíslason leggur leikinn í 12. sinn en það er Hönnunarhúsið ehf.
sem gefur út leikinn í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ. Ómar Smári Ármannsson
hefur um árabil aðstoðað við val á ratleiksstöðum ásamt því að rita fróðleiksmola
en hann er manna kunnugastur á Reykjanesskaganum og heldur úti
fróðleikssíðunni: www.ferlir.is

Nánar má sjá um leikin á ratleikur.blog.is og á
www.facebook.com/ratleikur
Þátttakendur eru hvattir til að deila myndum úr leiknum og
merkja #ratleikur2019

Metnaðarfull heilsustefna fyrir heilsubæinn Hafnarfjörð

Hafnarfjarðarbær gekk til samninga við Embætti landlæknis í mars 2015 um þátttöku í verkefninu Heilsueflandi samfélag og hefur sveitarfélagið í samstarfi við íbúa, starfsmenn og aðra hagsmunaaðila mótað heilsustefnu Hafnarfjarðarbæjar og lagt fram aðgerðaáætlun sem talar beint saman við stefnuna. Í heilsustefnu Hafnarfjarðar er eitt aðalmarkmiðið að hlúa að almennri vellíðan íbúa, andlegri og líkamlegri, á öllum aldri og styrkja og efla sjálfsmynd og góða líðan. Heilsustefnan styður við þá sýn Hafnarfjarðarbæjar til framtíðar að auka vellíðan íbúa bæjarins með fyrirbyggjandi aðgerðum.

Sjá heilsustefnu Hafnarfjarðarbæjar HÉR

Ábendingagátt