Í bæjarfréttum er þetta helst

Fréttir

Bæjarstjóri hefur ákveðið að hafa það sem fastan lið að setja saman nokkur orð um mánaðarmót og segja frá áhugaverðum verkefnum sem í gangi eru innan sveitarfélagsins og upp og ofan af áskorunum, hugmyndum, heimsóknum og fundum mánaðarins. Af mörgu er að taka en með þessu vill bæjarstjóri upplýsa bæjarbúa og aðra hagsmunaaðila betur um gang mála og fyrirætlanir innan sveitarfélagsins.

Orð frá bæjarstjóra eftir mánaðarmót

Ég hef ákveðið að hafa það sem fastan lið að setja saman nokkur orð um mánaðamót til að segja frá áhugaverðum verkefnum sem í gangi eru innan sveitarfélagsins og upp og ofan af áskorunum, hugmyndum, heimsóknum og fundum mánaðarins. Af mörgu er að taka en með þessu vil ég upplýsa bæjarbúa og aðra hagsmunaaðila betur um gang mála og fyrirætlanir innan sveitarfélagsins.  

Fyrsti mánuður ársins fer vel af stað. Ég hef átt góða fundi og samtal við helstu stjórnendur Hafnarfjarðarbæjar og eru fleiri slíkir fundir eru fyrirhugaðir á næstunni. Ég ætla mér að eiga slíkt samtal við sem flesta starfsmenn bæjarins og mun gefa mér tíma í það á komandi mánuðum. Ég tel brýnt að við starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar stillum enn betur saman strengi og búum þannig til gangverk sem virkar eins vel og mögulegt er og að við séum öll að stefna í sömu átt. Sú átt er að gera Hafnarfjarðarbæ að sveitarfélagi sem er til fyrirmyndar í öllu tilliti þar sem veitt er þjónusta sem er bænum til sóma. Við erum að gera góða hluti á flestum ef ekki öllum sviðum en vitum vel að lengi má gott bæta. Samhliða þessum heimsóknum er ég að hitta bæjarbúa og starfsmenn og stjórnendur fyrirtækja til að fá þeirra sýn og hugmyndir um það sem betur má fara og nýtt má gera.

Til að gera yfirlitið sem aðgengilegast og skýrast hef ég ákveðið að birta það undir því stjórnkerfisskipulagi sem við störfum eftir innan sveitarfélagsins.

Stjórnsýsla

  • Fjárhagsáætlun – áætlun liggur fyrir og var samþykkt af bæjarstjórn í lok nýliðins árs. Ég er fullur bjartsýni á það að áætlunin standist enda er hún byggð á ítarlegri úttekt sem skilaði góðri sýn og skilningi á stöðu og rekstri sveitarfélagsins. Við erum að ná að losa um fjármagn hjá sveitarfélaginu sem nýtt verður bæði til framkvæmda og uppgreiðslu lána.
  • Útboðssamningar – búið er að undirrita sex útboðssamninga sem skila hagræðingu í rekstri upp á um 100 milljónir króna. Hér er um að ræða þætti eins og að tryggingar, skólaakstur, endurskoðun, prentlausnir, ræstingu og framleiðslu á mat. Til stendur að bjóða út fleiri þjónustuþætti á árinu. Ég hef lengi verið þeirra skoðunar að endurmeta eigi og hagræða í rekstri hins opinbera frekar en að auka álögur á íbúa og vil sjá þessa skoðun og sýn endurspeglast í helst öllum aðgerðum okkar og framkvæmdum.
  • Gjaldskrá – óhjákvæmileg hækkun varð á gjaldskrám hjá okkur, breyting sem endurspeglar þá hækkun sem orðið hefur í rekstri þeirra þjónustuþátta sem um ræðir. Þetta á þó ekki við vistunargjald leikskóla sem er óbreytt annað árið í röð. Hér þarf líka að halda til haga að gjaldskrá hélst óbreytt milli 2014 til 2015. Í flestum tilvikum stendur Hafnarfjörður vel í samanburði við önnur sveitarfélög og á stundum nokkuð undir meðallagi hvað þessi gjöld varðar. Árangur þeirra aðgerða sem ráðist hefur verið í er orðinn sýnilegur og því fagna ég. Við munum halda áfram á þessari braut.
  • St. Jósefsspítali – mér hefur verið falið að ganga til samninga við ríkið um kaup á húsnæðinu. Í dag eigum við 15% af eignunum og vill bærinn með þessu tryggja forræði yfir þeim og að þær komist í virka notkun í þágu nærsamfélagsins. Gangi þetta eftir er gert ráð fyrir að sérstök nefnd verði skipuð í kringum framtíð bygginganna og óskað eftir tillögur að starfsemi þar út frá gildandi aðalskipulagi.
  • Nýtt hjúkrunarheimili – ákveðið hefur verið að byggja nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili á Sólvangsreitnum. Hugmyndir eru um að nýta núverandi Sólvangshús að hluta sem þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara og að þar verði tuttugu hjúkrunarrými . Er þessi ákvörðun í samræmi við stefnumótun í málefnum eldri borgara í Hafnarfirði. Á Sólvangi er nú þegar fyrir hendi ýmis stoðþjónusta sem mikilvægt er að sé til staðar í nærumhverfi nýs hjúkrunarheimilis.

Fræðslu- og frístundaþjónusta

  • Frístundastyrkir – breyting hefur orðið á fyrirkomulagi frístundastyrkja og nú geta hafnfirsk börn sem stunda íþrótt sína fyrir utan sveitarfélagið einnig fengið styrk vegna þess. Bærinn niðurgreiddi íþrótta- og tómstundastarf um 64,5 milljónir króna á árinu 2015 til 3.050 barna. Þarf af voru rúmlega 2.500 börn sem fengu niðurgreiðslu fyrir fleiri en eitt námskeið.
  • Heilahristingur – heimaaðstoð við heimanám grunnskólanemenda í 4. – 10. bekk hófst nú í mánuðinum. Aðstoðin er einkum hugsuð fyrir nemendur sem eru af erlendu bergi brotnir og er hún í boði einu sinni í viku í fjölnotasal Bókasafns Hafnarfjarðar. Hér er um að ræða samstarfsverkefni Bókasafns Hafnarfjarðar og Rauða krossins í Hafnarfirði og Garðabæ.
  • Landsleikur í lestri – lestrarátak sem fór af stað á bóndadaginn og endar á konudaginn. Átakið fellur vel að öðrum lestrarverkefnum bæjarins sem í gangi eru allt árið um kring. Bæjarstjórn tekur virkan þátt í landsleiknum ásamt fjölda hópa á fleiri vinnustöðum. Lestur er lífsins leikur.
  • Fleiri bækur á bókasöfn – tekin var ákvörðun um að verða við áskorun bókasafns- og upplýsingafræðinga í grunnskólum Hafnarfjarðar og auka fjárveitingu til bókakaupa í skólum bæjarins. Fjárveitingin var aukin um 50% til þess að styðja þannig enn betur við bætt læsi barnanna okkar.

Fjölskylduþjónusta

  • Aukin þjónusta við fatlað fólk – fjölmörg skapandi og skemmtileg verkefni eru í gangi á þessu sviði. Geitungarnir vaxa og dafna og hafa fengið aðstoð við að komast út á almennan vinnumarkað. Tekið verður á móti fleiri einstaklingum í hópinn nú í upphafi nýs árs. Til viðbótar hefur nýr samningur líka verið gerður við Specialisterne sem tekið hafa að sér faglega þjónustu til fatlaða atvinnuleitendur.
  • Málefni eldri borgara – ég hef átt gott samtal við marga eldri borgara nú í janúar, fólk sem á það sammerkt að vera jákvætt, lífsglatt og þakklátt fyrir veitta þjónustu. Kröfur þeirra eru ekki óraunhæfar heldur sanngjarnar, eins og að fá tækifæri til að njóta efri áranna og fá tækifæri til samveru og skemmtunar.
  • Hafnfirsku flóttafjölskyldurnar – fjölskyldurnar sem koma til okkar eru væntanlegar í byrjun mars. Þær áttu að koma í janúar en breytingar á aðstæðum og ákvörðunum þeirra urðu til þess að það dróst. Mikill undirbúningur hefur átt sér stað og við tilbúin til að taka vel á móti þeim fjölskyldum sem eru að verða hafnfirskar.

Umhverfis- og skipulagsþjónusta

  • Mokstur á götum og hálkuvarnir – hafa farið nokkuð vel af stað á nýju ári. Hér er um að ræða það mál sem flestar ábendingar berast um og reglubundið er unnið að því að bæta ferla og bæta vinnulagið. Samhliða er reynt að finna sem hagkvæmastar leiðir þannig að nýta megi það fjármagn sem varið er til þessa verkefnis sem best
  • Hirðing jólatrjáa – gekk ágætlega eftir. Snjókoma og hálka á sama tíma seinkaði hirðingu um nokkra daga enda um að ræða sama kröftuga mannskapinn sem sinnir hvoru tveggja.
  • Sorphirða – hefur gengið nokkuð vel það sem af er nýju ári. Einhverjir íbúar nýttu sér þjónustu bæjarins að boðið var upp á auka poka til sölu á völdum stöðum. Sérmerktir pokar sem voru hirtir samhliða annarri reglubundinni tæmingu. Einhver seinkun varð á sorphirðu vegna bilunar á bílum hjá verktaka en það var unnið upp í upphafi ársins.
  • Eftirspurn eftir lóðum – fyrir atvinnu- og íbúðarhúsnæði. Mikil uppbygging er að eiga sér stað á Völlunum í auk þess sem áhugi er fyrir að koma að þéttingu byggðar á spennandi svæðum, svæðum sem kalla á endurskipulagningu og þarfnast viðhalds og breytinga. Fjöldi fyrirspurna eru nú að berast um atvinnulóðir og á vormánuðum verða lóðir auglýstar. Stefnt er að því að hefja úthlutun fjölbýlislóða í Skarðshlíð í mars/apríl n.k.
  • Þétting byggðar – ný skýrsla komin út. Í skýrslunni er að finna tvær tillögur sem báðar fela í sér breytingar á gildandi skipulagi Hafnarfjarðar. Mikil vinna og umræða á eftir að eiga sér stað varðandi tillögur faghópsins sem vann skýrsluna og verða hugmyndirnar kynntar í Hafnarborg í mars.
  • Umferðaröryggi og aðgerðir – þrýstingur á stjórnvöld. T-gatnamót við Krýsuvíkurveg/Reykjanesbraut eru löngu orðin barns síns tíma og hættan sem skapast þar vegna umferðar á háannatímum verður sífellt meiri. Fyrirtæki á svæðinu vilja sjá mislæg gatnamót rísa sem fyrst og hafa skorað á innanríkisráðuneytið að framkvæmdir verði hafnar á árinu. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði taka undir áskorunina um að bæta umferðaröryggi og tryggja greiðari samgöngur á svæðinu. Hafnarfjörður hefur orðið mjög útundan hvað varðar gerð mislægra gatnamóta við Reykjanesbrautina í samanburði við nágrannasveitarfélög. Þessu þarf að breyta. Við áttum fund með innanríkisráðherra um málið ásamt fulltrúa fyrirtækja.

Ég vona að mánaðarleg skrif mín komi til með að varpa einhverju ljósi á hluta þess fjölbreytta starfs sem unnið er að í þágu sveitarfélagsins og þeirra sem þar búa. Ég minni íbúa og fyrirtæki á vikulega viðtalstíma mína á þriðjudagsmorgnum þar sem ég tek glaður á móti þeim sem vilja eiga samtal við mig. Viðtalsbókanir eru í síma 585-5506.

Með góðri kveðju

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri

Ábendingagátt