Innleiðing á nýju sorpflokkunarkerfi er lokið 

Fréttir

Dreifingu á nýjum sorpílátum í Hafnarfirði lauk í fyrradag, í öllum 8 sorphirðuhverfum bæjarins.

Innleiðing á nýju sorpflokkunarkerfi er lokið 

Dreifingu á nýjum sorpílátum í Hafnarfirði er lokið í öllum 8 sorphirðuhverfum bæjarins. Allir bæjarbúar sem greiða sorphirðugjald ættu að vera búin að fá afhent nýtt sorpílát, sérbýli (ein-, tví- og þríbýli) fengu 240L tvískipt ílát fyrir matarleifar og blandaðan úrgang og fjölbýli 240L ílát fyrir matarleifar. Eldri tunnur voru endurmerktar og ættu því allir að vera með ílát fyrir fjórflokkun sorps; matarleifar, blandaður úrgangur, plast og pappír. Einnig fengu öll heimili afhent plastkörfu og bréfpokabúnt til þess að flokka matarleifar í eldhúsinu. 

 

Síðasta nýja sorpílátið var í vikunni afhent Hafnfirðingnum Skarphéðni Orra Björnssyni, bæjarráðsmanni og forstjóra líftæknifyrirtækisins Algalíf, við heimili hans í Hafnarfirði þegar innleiðingarteymið lauk dreifingu nýrra sorpíláta í síðustu götunni á Völlunum. 

Öflugt innleiðingarteymið hefur síðustu 10 vikurnar sett saman um 6500 ílát og dreift þeim á um 10.500 heimili í 8 sorphirðuhverfum Hafnarfjarðarbæjar ásamt plastkörfum og bréfpokabúntum. Tæplega 16000 endurmerkingar á eldri sorpílátum hafa einnig verið gerðar samhliða dreifingunni. 

Ef bæjarbúar telja að eitthvað hafi misfarist í dreifingunni þá eru þeir hvattir til að senda póst á netfangið: sorpflokkun@hafnarfjordur.is og láta vita. Starfsfólk bæjarins reynir að bregðast við hratt og örugglega. 

Almennar upplýsingar um samræmt fyrirkomulag  Nýtt flokkunarkerfi (sorpa.is)

Sértækar upplýsingar fyrir Hafnarfjörð Nýtt sorpflokkunarkerfi | Hafnarfjörður (hafnarfjordur.is)

Ábendingagátt