Innritun í grunnskóla stafræn alla leið

Verkefnasögur

Hafnarfjarðarbær leggur áherslu á stafræna þróun þjónustunnar og markmið fyrir innritun í grunnskóla á þessu ári var að gera ferlið stafrænt alla leið.

Í ársbyrjun og til 1. febrúar sendu foreldrar inn umsóknir um skólavist í grunnskóla Hafnarfjarðarbæjar. Eins og síðastliðin ár var eingöngu hægt að sækja um á Mínum síðum bæjarins. Ferlið sem tekur við eftir móttöku umsóknar hefur hins vegar ekki verið stafrænt heldur hafa tekið við samskipti við foreldra í gegnum tölvupósta, símtöl og bréfaskrif.

Innritunarferli í grunnskóla á Mínum síðum er núna í tveimur megin skrefum og skólinn fær allar nauðsynlegar upplýsingar rafrænt um barnið áður en skólaganga hefst.

  • Í fyrra skrefinu er óskað eftir því að foreldrar / forráðamenn sæki um skólavist og velji einn af níu grunnskólum bæjarins. Aðeins er farið fram á grunnupplýsingar í þessari umsókn. Skólastjórnendur fá yfirlit yfir umsóknir í gegnum málakerfi bæjarins, fara yfir umsóknir og samþykkja eða hafna umsókn.
  • Í seinna skrefinu tekur við innritunarferli á Mínum síðum þar sem óskað er eftir ítarlegri upplýsingum svo sem um ofnæmi, óþol, sjúkdóma o.þ.h.  Í þessu skrefi er ennfremur óskað eftir leyfi eða höfnun foreldra gagnvart myndbirtingum af barni á miðlum skólans. Þessi samskipti voru áður í tölvupóstum, símtölum eða bréfaskrifum en fara alfarið núna í gegnum Mínar síður.

Umsókn um skólavist og innritunareyðublað er í boði á tveimur tungumálum, þ.e. á íslensku og ensku.

Með því að fá gögnin um þessum hætti vistast þau beint í málakerfi bæjarins og öll umsýsla er mun einfaldari, minni handavinna, aukið öryggi við skráningu upplýsinga og mikið hagræði fyrir foreldra að geta gengið frá innritun og átt samskipti við skólayfirvöld í gegnum örugg samskipti á Mínum síðum.

Þetta nýja ferli er mikilvægt skref í að einfalda þjónustuna við íbúa bæjarins og von okkar er að foreldrar taki þessari nýjung fagnandi. Fyrir starfsfólk skólanna er hagræðið mikið.

„Nýtt umsóknar- og innritunarkerfi fyrir grunnskóla Hafnarfjarðar eykur öryggi í upplýsingamiðlun milli skóla og heimilis, minnkar líkur á mistökum í skráningum og tryggir betur en áður gagnaöryggi í skólastarfinu,” segir Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla.

Ábendingagátt