Jákvæð afkoma og mikil uppbygging

Fréttir

Tillaga að fjárhagsáætlun 2022 verður lögð fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar í dag miðvikudaginn 10. nóvember. Áætlaður rekstrarafgangur A- og B-hluta sveitarfélagsins nemur 842 milljón króna á árinu 2022. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 2,5% af heildartekjum eða 886 milljónir króna. Áætlun gerir ráð fyrir að rekstur A-hluta verði jákvæður fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 1,1 milljarð króna og afkoma A-hluta jákvæð um 106 milljónir króna.

Skuldaviðmið undir 100% í fyrsta sinn í áratugi

Tillaga að fjárhagsáætlun 2022 verður lögð
fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar í dag miðvikudaginn 10. nóvember. Áætlaður
rekstrarafgangur A- og B-hluta sveitarfélagsins nemur 842 milljón króna á árinu
2022. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 2,5% af heildartekjum eða 886
milljónir króna. Áætlun gerir ráð fyrir að rekstur A-hluta verði jákvæður fyrir
afskriftir og fjármagnsliði um 1,1 milljarð króna og afkoma A-hluta jákvæð um 106
milljónir króna.

Uppbygging innviða og nýrra hverfa sem leiða munu til verulegrar fjölgunar íbúa 

Undanfarin misseri hefur verið lögð áhersla
á að lágmarka áhrif Covid-19 faraldursins á íbúa Hafnarfjarðar og hindra að efnahagsáfallið
leggi klafa á bæjarfélagið til frambúðar. Samtímis hefur verið unnið að
uppbyggingu innviða og nýrra hverfa sem leiða munu til verulegrar fjölgunar
íbúa á komandi árum. Hafnarfjarðarbær, eins og önnur sveitarfélög, sér fram á
áframhaldandi hækkun kjarasamningsbundinna launa og ört vaxandi útgjöld vegna félagslegrar
þjónustu sem vegur æ þyngra í rekstri bæjarins. Stefnt er að því að afborganir eldri lána verði umfram nýjar lántökur í
A-hluta og að skuldaviðmið Hafnarfjarðarbæjar verði komið niður í 97% í árslok
2022 og hefur það ekki verið lægra í áratugi. 

„Fjárhagsáætlun næsta árs ber með sér að aðhald
í rekstri og varnarviðbrögð bæjaryfirvalda við efnahagslegum áhrifum Covid-faraldursins
hafa skilað árangri. Áhersla hefur verið lögð á að verja hagsmuni íbúa án þess
að skuldsetja bæjarfélagið, en bæjarsjóður Hafnarfjarðar tók engin lán á
yfirstandandi fjárhagsári,“
segir
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri. „Framundan er mikil uppbygging í nýjum
hverfum og þéttingarreitum. Reikna má með umtalsverðri íbúafjölgun í
Hafnarfirði á næstu árum. Við stefnum að því að fjárfesta fyrir rúmlega 5 milljarða
króna á árinu 2022, en eins og hjá öðrum sveitarfélögum hefur aukinn
launakostnaður haft mikil áhrif á rekstur bæjarins. Þrátt fyrir það er áætlað
að skuldaviðmið Hafnarfjarðarbæjar fari undir 100% fyrir lok ársins 2022 og
markar það tímamót í rekstri bæjarins.“

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2022

  • Rekstrarniðurstaða
    A- og B-hluta jákvæð um 842 milljónir króna
  • Rekstrarniðurstaða
    A-hluta jákvæð um 106 milljónir króna
  • Skuldaviðmið
    áætlað um 97% í árslok 2022
  • Áætlað veltufé frá
    rekstri A- og B-hluta 886 milljónir króna eða 2,5% af heildartekjum.
  • Útsvarsprósenta
    óbreytt eða 14,48%
  • Fasteignaskattar á
    íbúðarhúsnæði lækkaðir um tæplega 5% til þess að koma til móts við hækkun
    fasteignamats
  • Lækkun vatns- og fráveitugjalda á
    atvinnuhúsnæði sem lækkar álögur á fyrirtæki um 145 milljónir króna 
  • Almennt gert ráð fyrir að
    gjaldskrá fyrir árið 2022 haldist óbreytt eða hækki um 2,5%, sem er innan væntra
    verðlagshækkana
  • Áætlaðar
    fjárfestingar nema liðlega 5 milljörðum króna
  • Kaup á
    félagslegum íbúðum áætluð fyrir um 500 milljónir króna
  • Útgjöld vegna málefna
    fatlaðra aukast um 13% og nema liðlega 4 milljörðum króna
  • Sérstök innspýting til
    leikskóla Hafnarfjarðar í formi aukinna hlunninda starfsfólks, hækkunar á
    fastri yfirvinnu, styrkja og námskeiða nemur um 82 milljónum króna
  • Samkvæmt áætlun mun íbúum
    fjölga að meðaltali um 1.500-2000 manns á ári næstu fjögur árin

Helstu
framkvæmdir árið 2022

Fjárheimild til framkvæmda er um 5
milljarðar króna árið 2022. Í áætlun er lögð áhersla á forgangsröðun í
grunnþjónustu, svo sem umhverfismálum, samgöngum, íþróttaaðstöðu, húsnæði og
fráveitumálum.

Áfram verður unnið að gatnagerð í
íbúðarhverfi í Hamranesi sem nú er að byggjast upp og hafin gatnagerð í nýju
íbúðahverfi í Áslandi. Frágangi á nýbyggingarsvæðum víðsvegar um bæinn verður
haldið áfram, svo sem lok malbikunar, gerð stétta, stíga, leiksvæða og almennri
grænkun svæða. Endurgerð gangstétta og gönguleiða í bænum heldur áfram og sérstöku
fjármagni verður varið í að efla hjólreiðaleiðir í sveitarfélaginu. Þá má nefna að við Hvaleyrarvatn mun hefjast
vinna við framkvæmdir í samræmi við deiliskipulag og er sérstaklega horft til
þess að bæta aðgengismál, áningarsvæði, stíga og bílastæði. Sérstöku fjármagni er
ráðstafað til að fegra Hellisgerði sem verður 100 ára árið 2023. Endurnýjun gatnalýsingar með LED-væðingu
mun ljúka að mestu á næsta ári. Hafinn verður undirbúningur að nýjum leik- og
grunnskóla í Hamranesi. Þá verður lokið við endurnýjun grasvalla á félagssvæðum
FH og Hauka á næsta ári, auk fjölmargra annarra framkvæmda.

Afborganir
umfram lántökur í A-hluta

Áætlun gerir ráð fyrir að tekið verði lán í
A-hluta fyrir um 850 milljónir króna en þar sem afborganir eldri lána vega
þyngra er gert ráð fyrir að fjármögnun lánastofnana lækki um rúmar 200
milljónir króna á árinu 2022 í heildina. Gert er ráð fyrir að 500 milljón króna
lántöku vegna fjárfestinga húsnæðisskrifstofu en leigugreiðslur standa undir
afborgunum og vöxtum af þeim lánum. Þannig
er gert ráð fyrir að skuldaviðmið verði um 97% í árslok 2022 en til samanburðar
var hlutfallið 112% í árslok 2019, áður en Covid-19 faraldurinn skall á.

Afgreiðsla
fjárhagsáætlunar

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar er lögð
fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 10. nóvember 2021.
Fjárhagsáætlun nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2023-2025.
Gert er ráð fyrir að síðari umræða og afgreiðsla fjárhagsáætlunar í bæjarstjórn
verði miðvikudaginn 8. desember 2021.

Ábendingagátt