Jólabærinn Hafnarfjörður þakkar fyrir sig!

Fréttir

Nú á Þrettándanum – þrettánda og síðasta degi jóla – vill starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar nota tækifærið og þakka innilega fyrir hlýlega og ánægjulega samveru á aðventunni og yfir jólahátíðina. Hafnarfjörður hefur sjaldan verið eins hátíðlegur og fallegur og það fyrir samstillt átak allra; íbúa, fyrirtækja og starfsfólks. Ljósadýrðin í Hellisgerði mun lifa eitthvað áfram. 

Nú á Þrettándanum – þrettánda og síðasta degi jóla – vill starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar nota tækifærið og þakka innilega fyrir hlýlega og ánægjulega samveru á aðventunni og yfir jólahátíðina. Hafnarfjörður hefur sjaldan verið eins hátíðlegur og fallegur og það fyrir samstillt átak allra; íbúa, fyrirtækja og starfsfólks.

Ljósadýrðin í Hellisgerði mun lifa eitthvað áfram

Ljósadýrðin í Hellisgerði mun lifa eitthvað áfram og á það sama við um rauða hjartað sem tekur á móti gestum og gangandi við inngang í Hellisgerði frá Reykjavíkurvegi. Þessi leynda perla og lystigarður Hafnfirðinga hefur nú á aðventunni stimplað sig rækilega inn meðal landsmanna sem aðlaðandi garður til útivistar, samveru og upplifunar með fjölskyldu og vinum. Þessi gullfallegi garður, sem hefur til þessa verið mikið notaður af Hafnfirðingum og þá sér í lagi yfir vor- og sumartímann fyrir leik og nestisferðir, hefur að geyma margar sögurnar og minningarnar fyrir Hafnfirðinga og vini Hafnarfjarðar og hefur án efa skapað nýjar og góðar minningar þessa aðventuna bæði fyrir þá sem þekktu garðinn fyrir og þeirra sem voru að upplifa garðinn í fyrsta sinn.

Ein á jóladagskvöld – sagan af Grýlu og Áróru litlu

Mikið af skemmtilegu efni var tekið upp í garðinum á aðventunni. Þar á meðal myndband við jólalagið Ein á jóladagskvöld – sagan af Grýlu og Áróru litlu sem frumsýnt var í Jólastundinni okkar að kvöldi jóladags 2020. Lagið segir fallega jólasögu sem höfðar sérstaklega til barna þó boðskapur lagsins, að taka frá tíma og kærleik fyrir þá sem eru einmana á jólunum, eigi sannarlega erindi til allra. Lagið er samið af Leifi Geir Hafsteinssyni, Hafnfirðingi til 16 ára sem ættaður úr Vestmannaeyjum, og sungið af Birgittu Haukdal ásamt Þórólfi Guðnasyni, kór Vina og vandamanna og hafnfirskum börnum. Saga lagsins segir frá Grýlu sem situr ein í hellinum sínum og er döpur og einmana á jóladagskvöld því jólasveinarnir eru allir farnir til byggða. Kvenhetja sögunnar, hún Áróra litla, finnur til með Grýlu og ákveður að grípa til sinna ráða. Hún arkar að hellinum, staldrar við þegar hún heyrir Grýlu kveina, en hleypir í sig kjarki, kallar til hennar, Grýla bregst glöð við, þær gangast í systralag og syngja kátar saman í jólafögnuði. Hin eina sanna hafnfirska Grýla sem glatt hefur gesti Jólaþorpsins í Hafnarfirði síðustu árin er hér í aðalhlutverki og í hlutverki Áróru litlu Brynhildur Ívarsdóttir nemandi í Áslandsskóla í Hafnarfirði.

Það er vel viðeigandi að kveðja jólahátíðina þetta árið með birtingu á þessu fallega lagi sem alfarið var tekið upp í Hellisgerði. 

Vinningshafar í laufléttum og snjöllum ratleik í Hellisgerði 

Í desember var settur upp laufléttur og snjall ratleikur um Hellisgerði sem Hafnfirðingar og vinir Hafnarfjarðar á öllum aldri gátu tekið þátt í. Nú hefur Grýla gruggað í pottinum sínum og dregið út fjóra vinningshafa og þar af eitt sett af systrum! Vinningshafarnir fá að launum bókagjafir eftir aldri, en þeir eru á bilinu 5 til 14 ára og þegar hefur verið haft samband við vinningshafana. Grýla er ægilega glöð með þátttökuna í ratleiknum um Hellisgerði og þakkar öllum krakkaormum og fjölskyldum þeirra innilega fyrir þátttökuna.

Garðurinn okkar allra

Hellisgerði er garður og sameign allra Hafnfirðinga og vonir standa til þess að allir taki virkan þátt í að vernda og passa upp á þessa fallegu náttúruperlu og þá líka þá ljósadýrð sem opin er öllum næstu daga og vikur á meðan sól tekur að hækka á lofti. Njótum! 

Ábendingagátt