LÆK á leiðinni: Vika í stærsta útgáfupartý landsins

Fréttir

Aðeins vika er í stærsta partý sem haldið hefur verið vegna útgáfu bókar hér á landi. Bókin LÆK eftir rithöfundana Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og Gunnar Helgason samanstendur af 18 smásögum úr hugmyndum 2.600 nemenda grunnskóla Hafnarfjarðar. Foreldrar fá þessa dagana bréf frá skólunum um markmið bókaútgáfunnar en LÆK á að efla lestur og lesskilning.

LÆK kemur út og bræðurnir í VÆB skemmta

Aðeins vika er í stærsta partý sem haldið hefur verið vegna útgáfu bókar hér á landi. Bókin LÆK eftir rithöfundana Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og Gunnar Helgason samanstendur af 18 smásögum sem byggðar eru á tillögum frá hátt í 2.600 nemendum úr grunnskólum Hafnarfjarðar.

Bergrún og Gunni mæta í útgáfuhófið og spjalla um bókina, bræðurnir í VÆB mæta og bókakassar verða afhentir skólastjórnendum og formönnum nemendaráða skólanna. Það verður stuð. Miðstigið mætir kl. 9 og unglingastigið 10.15 á Thorsplan.

Foreldrar fá bréf frá skólanum um bókina

Foreldrar fá þessa dagana bréf frá skólunum um markmið bókaútgáfunnar en LÆK er samstarfsverkefni milli Mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar og rithöfundanna. Bókinni er ætlað að efla lesskilning, orðaforða, læsi og lestraráhuga nemenda á mið- og unglingastigi í grunnskólum Hafnarfjarðar, á öllum getustigum. Smásögurnar tengjast hverjum skóla og voru tvær sögur samdar í hverjum þeirra.

Við útgáfu á LÆK var áherslan sett á vandaða uppsetningu texta, góða leturgerð og leturstærð sem hentar nemendum í lestrarvanda. Bókin kemur samtímis út sem hljóðbók hjá Hljóðbókasafninu. Auk smásagnanna er stutt umfjöllun í bókinni ætluð foreldrum og kennurum um hvernig dýpka má lesskilning nemenda.

Öll á Thorsplan síðasta vetrardag

Útgáfuhófið stóra verður síðasta vetrardag, 24. apríl, á Thorsplani í Hafnarfirði. Börnin fá bókina afhenta þann dag og verður unnið með hana í öllum skólum Hafnarfjarðar í maí. Bókin er þó ekki aðeins fyrir Hafnfirðinga heldur mun einnig fást í bókaverslunum. En verður bókin örugglega lesin?

„Já, ég efast ekki um það, því núna fer keppni í gang,“ segir Gunni Helga. „Veitt verða verðlaun fyrir áhugaverðustu söguna á unglinga- og miðstigi og öll verða að kjósa uppáhalds söguna sína. Bannað að kjósa sinn skóla. Þannig að það kemur í ljós í lok maí hvaða skóli fær verðlaunin. Skólaheiðurinn er að veði.“

Útgáfuhófið: Síðasta vetrardag, 24. apríl, verður stærsta útgáfuhóf landsins þar sem útgáfu á LÆK bókinni verður fagnað á Thorsplani.

  • Kl. 9:00 mæta allir nemendur af miðstigi
  • Kl. 10:15 mæta allir nemendur af unglingastigi
  • Kl. 14:00 – 16:00:  Bókasafn Hafnarfjarðar – Bergrún Íris og Gunni Helga taka á móti nemendum á bókasafninu og árita bækurnar fyrir þá sem vilja.
Ábendingagátt