Lækkun fasteignagjalda í Hafnarfirði

Fréttir

Eigendur íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði munu á næstunni fá sérstaka viðbótarlækkun á fasteignagjöldum miðað við áður útgefna álagningu. Verður álagningarprósenta fasteignaskatts á þessu ári lækkuð úr 0,246% í 0,223% til þess að koma til móts við hækkun fasteignamats.

Álagningarprósenta lækkar úr 0,246% í 0,223%

Eigendur íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði munu á næstunni fá sérstaka viðbótarlækkun á fasteignagjöldum miðað við áður útgefna álagningu. Verður álagningarprósenta fasteignaskatts á þessu ári lækkuð úr 0,246% í 0,223% til þess að koma til móts við hækkun fasteignamats. Þetta er í samræmi við fyrri ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar um að lækka fasteignagjöld að meðaltali í bænum til mótvægis við hækkun fasteignamats, að teknu tilliti til verðlagsþróunar.

Markmið með lækkun fasteignagjalda skilaði sér ekki að fullu

Þegar hafa vatnsveitugjöld og fráveitgjöld verið lækkuð á milli ára til þess að koma til móts við hækkun fasteignamats. Í framhaldi af útsendingu álagningar fasteignagjalda í byrjun árs kom í ljós að útreikningar reyndustu ekki réttir, þannig að markmið með lækkun fasteignagjalda skilaði sér ekki að fullu til íbúa. Þetta verður nú leiðrétt og eigendur íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði fá að fullu að njóta lægri fasteignagjalda á þessu ári í samræmi við loforð meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar.

„Við ákváðum að lækka álagningu fasteignagjalda í Hafnarfirði verulega til þess að koma til móts við umtalsverða hækkun fasteignamats,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. „Í ljós hefur komið að lækkunin skilaði sér ekki að fullu við útreikning fasteignagjalda um áramót en það hefur nú verið leiðrétt svo Hafnfirðingar fái að njóta þessarar skattalækkunar eins og til stóð.“

Upphæð fasteignagjalda breytist frá og með apríl 2023

Breytingin á fasteignasköttum var tekin fyrir á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í dag og máli vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar miðvikudaginn 1. mars. Gert er ráð fyrir að lækkun skili sér til eigenda íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði frá og með apríl 2023. Þeir íbúðarhúsaeigendur sem greiddu fasteignagjöldin með eingreiðslu í upphafi árs fá endurgreiðslu og er unnið að tæknilegri útfærslu.

Ábendingagátt