Landsleikur í lestri

Fréttir

Landsleikur í lestri er eitt þeirra metnaðarfullu og skemmtilegu verkefna sem í gangi hafa verið síðustu misseri og hafa það að markmiði að efla læsi, virkni og námsáhuga. Nýr landsleikur fer af stað 22. janúar.

Grunnskólar í Hafnarfirði setja sér sín markmið í lestri fyrir hvert skólaár til ársins 2020 sem tala saman við árangursmarkmið sveitarfélagsins í heild sinni. Markmiðasetningin er liður í því að  bæta námsárangur innan sveitarfélagsins og efla þannig læsi, virkni og námsáhuga á öllum námssviðum og námsgreinum. Unnið er að margþættum verkefnum bæði aðlöguðum verkefnum innan skóla og öðrum verkefnum sem fleiri skólar á landsvísu taka þátt í.  Allir læra – landsleikur í lestri – er eitt þeirra metnaðarfullu og skemmtilegu verkefna sem í gangi hafa verið. Landsleikurinn fór fyrst fram í október og nóvember 2014 og hefst að nýju nú 22. janúar.

Enn á ný er blásið í lestrarlúðra

Allir lesa – landsleikur í lestri – gengur út á að skrá lestur á einfaldan hátt og halda þannig lestrardagbók. Blásið hefur verið til landsleiks í lestri frá bóndadegi þann 22. janúar til konudags 21. febrúar 2016. Keppt er í liðum og mældur sá tími sem liðin verja í lestur. Í lokin eru sigurlið heiðruð með viðurkenningum og verðlaunum. Allar tegundir bóka sem innihalda skáldskap og fræði eru gjaldgengar en dagblöð og tímarit gilda ekki. Ekki skiptir máli hvernig bækur eru lesnar eða hvort lesinn er prentaður texti, rafbók eða hljóðbók. Allir lesa – landsleikur í lestri fór fram í fyrsta sinn í október og nóvember 2014 og lauk á degi íslenskrar tungu. Á milli landsleikja er tilvalið að nýta vefinn sem lestrardagbók og taka þannig þátt í lestrarsamfélaginu allan ársins hring.

Fyrir hvern er leikurinn?

Allir geta myndað lið, til dæmis á vinnustaðnum, í saumaklúbbnum, vinahópnum eða með fjölskyldunni. Foreldrar sem lesa fyrir ung börn sín eru sérstaklega hvattir til að mynda lið með börnunum og skrá lesturinn. Leikurinn fer þannig fram að lið eru stofnuð og skráð á vefnum. Hvert lið velur liðsstjóra sem heldur utan um liðið og getur annað hvort skráð lestur liðsins eða þá að hver liðsmaður sér um eigin lestrarskráningu. Þau lið sem verja mestum tíma í lestur standa uppi sem sigurvegarar. 

Fleiri bækur í bókasöfn skólanna

Í læsisverkefni sem þessu er mikilvægt að allir hlekkir keðjunnar falli vel saman. Fræðsluráð samþykkti á fundi sínum í vikunni að leggja fram tillögu til bæjarstjórnar þess efnis að fjárveiting til bókakaupa í skólum bæjarins og kaupa á föndurvörum verði aukin um 50% auk þess að veita 700.000.- krónum í Bíó- og bókahátíð barnanna sem fram fer nú í febrúar. Þetta er gert gagngert til að styðja frekar við læsisverkefnið sem í gangi er innan skóla Hafnarfjarðarbæjar. Tillagan verður lögð fyrir bæjarstjórn á fundi í næstu viku.

Ábendingagátt