Menning og listir eru heilsueflandi

Fréttir

Verkefnið Heilsueflandi samfélag hefur staðið yfir í Hafnarfirði í fimm ár með ýmsum áherslum. Oft er talað um að menning skipti máli og Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar, kynnti sér verkefni í tengslum við heilsueflandi menningu. 

Verkefnið Heilsueflandi samfélag hefur staðið yfir í Hafnarfirði í fimm ár með ýmsum áherslum. Oft er talað um að menning skipti máli og Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar, kynnti sér verkefni í tengslum við heilsueflandi menningu. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hafði gefið út skýrslu þar sem tíundað er hvaða heilsufarslegu kosti menning hefur í för með sér. Fyrsti viðburðurinn þessu tengdur verður 1. apríl.  Bæjarblaðið Hafnfirðingur hitti Ágústu á dögunum.  

HafnarborgI

Gestir á öllum aldri hafa ánægju af sýningum í Hafnarborg

„Við hjá Hafnarborg tökum þátt í Slow Art Day, 4. apríl að erlendri fyrirmynd. Við vinnum með þetta út frá hugmyndum um núvitund. Þá er meiningin að slaka á og gefa sér stund til að njóta myndlistar. Í þeim undirbúningi rakst ég á skýrslu á vegum WHO sem fjallar um hvaða heilsufarslega kosti menning hefur í för með sér. 900 rannsóknir voru lesnar og fundnar niðurstöður um hvað menningarneysla getur haft góð líkamleg og andleg áhrif,“ segir Ágústa, en þetta hefur lengi vakið áhuga hennar. „Menningarneysla er ódýr og í henni felst lítil áhætta. Eina neikvæða er að fólki gæti mögulega leiðst, en þá gefst einmitt tækifæri til sköpunar. Okkur er meira og minna hætt að leiðast, því við erum alltaf með athygli á einhverju. Það er því kostur að leiðast.“ 


Minni einsemd og meiri félagshæfni

Ágústa bætir við að skv. sömu skýrslu virki menningarneysla skynfærin, auki snertingu, félagsleg samskipti og hreyfingu og sé vitsmunaleg örvun. „Sálræn áhrif eru bætt sjálfsvitund og betri tilfinningastjórnun og lífeðlisfræðilegu áhrifin eru lækkun stresshormóna, bætt ónæmiskerfi og sterkara hjarta- og æðakerfi. Hvað varðar félagslega virkni stuðlar hún að minni einsemd, eykur félagslegan stuðning og bætir félagshæfni. Við tökum eftir að margir sem koma hingað eiga samskipti við starfsfólkið og því skiptir máli að það hafi gaman af samvistum með fólki á öllum aldri.“

Í Hafnarfirði er mikið framboð af listviðburðum og víða eru m.a. útilistaverk og vinsælar skipulagðar menningargöngur. „Svo er margt sem við sýslum við hér í Hafnarborg, óháð tungumálum. T.d. hefur áhugi á hádegistónleikum hennar Antoniu Hevesi aukist mikið, ár frá ári, en þetta er 17. árið sem boðið er upp á þá. Ástæðurnar eru að þetta er fastur punktur í lífi margra, ókeypis er inn á þá, þeir eru stuttir, skemmtilegir og á háum standard,“ segir Ágústa, en fjöldi eldri borgara kemur, sem og gestir frá stofnunum víða á höfuðborgarsvæðinu.

Ágústa nefnir að lokum að menningarneysla geti ofan á allt bætt lífshætti og oftar ekki þróað hæfileika. „Hún gerir það að verkum og við áttum okkur oft á hvað okkur langar að gera. Það búa allir yfir skapandi mætti til að fá útrás fyrir. Það er því engu að tapa!“

Viðtal við Ágústu birtist í bæjarblaðinu Hafnfirðingi 20. febrúar 2020.

Ábendingagátt