Microbit smátölvur til nemenda í 6. – 7. bekkjum grunnskóla

Fréttir

Síðustu vikur hafa nemendur í 6. – 7. bekkjum grunnskóla í Hafnarfirði fengið afhentar Microbit forritanlegar smátölvur sem hannaðar eru með það í huga að vekja áhuga barna á forritun og kenna þeim á einfaldan máta að forrita. Verkefnið hefur það að markmiði að efla kunnáttu, auka vitund um mikilvægi forritunar, efla rökhugsun og stuðla að auknum áhuga á tækni- og iðngreinum.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samtök iðnaðarins, Menntamálastofnun og  RÚV tóku fyrir nokkru síðan höndum saman um átaksverkefni til þess að vekja áhuga barna á forritun og kenna þeim á einfaldan og skemmtilegan máta að forrita. Verkefnið hefur það markmið að efla forritunarkunnáttu íslenskra barna, auka vitund um mikilvægi forritunar í daglegum störfum, efla rökhugsun og stuðla að auknum áhuga á tækni- og iðngreinum. 

Verkefnið felst í því að Microbit, forritanleg smátölva er gefin öllum grunnskólabörnum í 6. og 7. bekk. Samhliða eru kynnt fjölþætt verkefni, fræðsluefni og leiðir sem nemendur, kennarar og foreldrar geta nýtt sér til að kynnast heimi forritunar m.a. með notkun Microbit tölvunnar. Nemendur í 6. – 7. bekk grunnskóla í Hafnarfirði hafa á síðustu vikum fengið tölvurnar afhentar og hefur gjöfin vakið mikla ánægju og gleði. 

Microbit er forritanleg tölva sem er hönnuð af BBC og fjölda samstarfsaðila til að vekja áhuga barna á forritun og kenna þeim forritun. Microbit er einskonar byrjendaútgáfa af Raspberry Pi eða Arduino tölvunum en verkefnið var upphaflega sett í gang í Bretlandi þar sem mikill skortur er á kennurum sem geta kennt forritun og því vantar að fleiri nemendur skili sér inn í heim tækni og forritunar.

Samtök iðnaðarins telja það mikið hagsmunamál að efla íslenskt menntakerfi með forritunarkennslu enda mikilvægt fyrir íslensk hugverkafyrirtæki og íslenskan iðnað. Menntamálastofnun hefur umsjón með dreifingu tölvanna til þeirra skóla sem vilja taka þátt,  RÚV tekur þátt í verkefninu með því að vinna þætti, fræðsluefni og myndbönd fyrir krakka sem vilja vita meira um forritun en líka fyrir foreldra og kennara.  Forritunarleikar sem RÚV stendur fyrir er verkefni sem börn geta tekið þátt í, annað hvort eins síns liðs, með bekknum sínum eða skóla. 

Ábendingagátt