Miklar framfarir í lestri

Fréttir

Niðurstöður mælinga á lestrargetu nemenda í 5.-10. bekkjum í grunnskólum Hafnarfjarðar skólaárið 2015-2016 sýna að fjöldi getumikilla nemenda í lestri tvöfaldast og fjöldi nemenda sem þarf að efla lestrargetu sína minnkar verulega eða um 50%. 

Miklar framfarir í lestri meðal hafnfirskra grunnskólanemenda

Niðurstöður mælinga á
lestrargetu nemenda í 5.-10. bekkjum í grunnskólum Hafnarfjarðar skólaárið
2015-2016 sýna að fjöldi getumikilla nemenda í lestri tvöfaldast og fjöldi
nemenda sem þarf að efla lestrargetu sína minnkar verulega eða um 50%. Þetta
eru niðurstöður sem sýna sig í mælingum á lestrargetu um 2.200 nemenda í
grunnskólunum bæjarins á síðasta skólaári.

Mælingar voru gerðar á lestrargetu nemenda með lestrarprófum
sem lögð voru fyrir umrædda nemendur í september, janúar og maí. Þar er lagt
fyrir sama lestrarprófið fyrir sömu nemendur öll þrjú skiptin – en ekki sömu
prófin fyrir nemendur eftir bekkjum því þau þyngjast með auknum aldri nemenda.
Lestrargetu nemenda er skipt í þrennt eftir ákveðnum viðmiðum sem hækka með
auknum aldri. Lægsta viðmiðið metur að nemendur hafi þörf fyrir meiri
lestrargetu, miðjuviðmiðið að lestrargeta nemenda sé viðunandi og hæsta
viðmiðið að nemendur hafi (mjög) góða lestrargetu. Umrædd lestrargeta snýr að
mælingum á lestrarhraða nemenda sem gefur ágætis forspá um lestrarhæfni þeirra.
Í septemberprófum 2015 voru 16% nemenda með mestu lestrargetuna, 22% nemenda í
þörf fyrir meiri lestrargetu og 62% með fullnægjandi lestrargetu. Í maí var
hópurinn með mestu lestrargetuna orðinn 34%, sá í þörf fyrir meiri lestrargetu 12%
og hópurinn með fullnægjandi getu 54% nemenda.

Mynd1Nidurstodur

Lestur er lífsins
leikur

Mælingar á lestrargetu nemenda marka eftirlit og eftirfylgni
við aukna lestraráherslu í Hafnarfirði. Verkefnið Lestur er lífsins leikur var
keyrt af stað í grunnskólum Hafnarfjarðar skólaárið 2015-2016 með það að
markmiði að auka lestrarhæfni nemenda, bæði lestrarhraða og lesskilning, sem
endurspeglar þá getu þeirra í lestri á hverjum tíma. Í leik- og grunnskólum
bæjarins er markviss kennsla í að efla málnotkun og lestrarhæfni nemenda og
niðurstöður frá þessu fyrsta ári sýna að miklar framfarir hafi orðið. Þær veita
sömuleiðis hvatningu til að halda áfram á þessari braut þar sem mikilvægt er að
skólar og heimili vinni saman að enn betri árangri. Lestrarnám er stöðugt
verkefni og lýkur ekki á neinum tímapunkti. Áfram verður unnið að því að efla
lestrarhæfni hafnfirskra barna svo allir fái nægan stuðning og tækifæri til að
ná hámarksárangri í námi.

Ábendingagátt