Músik og mótor sameina ungmenni

Fréttir

Mótorhúsið er félagsmiðstöð fyrir 13-20 ára ungmenni með aðstöðu fyrir viðgerðir og viðhald á ýmsum farartækjum. Í sama húsnæði er einnig tónlistarsmiðjan Músikheimar, þar sem sett hafa verið upp stúdíó til æfinga og upptöku fyrir ungt og efnilegt tónlistarfólk. 

Mótorhúsið var stofnað árið 1996 og er staðsett að Dalshrauni 10 sem er þekktast er sem gamla lakkrísgerðin. Mótorhúsið er félagsmiðstöð fyrir 13-20 ára ungmenni með aðstöðu fyrir viðgerðir og viðhald á ýmsum farartækjum. Í sama húsnæði er einnig tónlistarsmiðjan Músikheimar , þar sem sett hafa verið upp stúdíó til æfinga og upptöku fyrir ungt og efnilegt tónlistarfólk. Í félagsmiðstöðinni starfa þeir Birgir Þór Halldórsson, Askur Máni Stefánsson, Starri Steindórsson og Guðmundur Frímann Kristinsson. 

Bæjarblaðið Hafnfirðingur kíkti í spjall til strákanna.  

MogM2Starri, Askur og Birgir verkstæðis-megin í húsnæðinu. Mynd/OBÞ

Starri og Askur segjast sjálfir hafa sótt í Mótorhúsið þegar þeir voru skólafélagar á sínum tíma í 8. eða 9. bekk. „Við vorum samt ekki í sama vinahópi en sameiginleg áhugamál tengdi okkur saman hér og vináttan hefur staðið síðan. Við vorum í bílabraski og slíku grúski og þetta var staðurinn til að hittast. Sá elsti í hópnum sem kom á þeim tíma er í dag 29 ára.“ Þeir segja starfið afar skemmtilegt og það komi aðallega strákar í mótorhlutann í starfseminni, oftast einir en reyndar stundum með kærusturnar með sér. „Þeir koma líka úr öllum hverfum Hafnarfjarðar, sem er góð þróun frá því sem áður var. Krakkar sem finna sig ekki endilega í starfseminni í félagsmiðstöðvum skólanna í bænum eða í Ungmennahúsinu, finnast þeir vera í öruggu umhverfi hér. Oft krakkar á jaðrinum sem eiga áhugamál sem þau tengja við þennan stað.“ 

MogM3Hluti af upptökustúdíóinu. Mynd/OBÞ

MogM4Búið er að útbúa góða aðstöðu fyrir tónlistarfólk til að æfa sig. Mynd/OBÞ

MogM5Búið er að safna saman mikilvægum græjum. Mynd/OBÞ

Þurfa ekki að vera hluti af hljómsveit

Birgir Þór stýrir tónlistarhlutanum Músikheimum og segir margt hafnfirskt tónlistarfólk hafa frá stofnun félagsmiðstöðvarinnar stigið sín fyrstu skref eða mikilvæg skref þar. „Til að mynda Ingi Bauer, sem kemur úr poppmenningunni og svo rokkhljómsveitin Sign. Þá hétu böndin líka kannski eitthvað annað en í dag. Ég kynntist t.d. trommaranum í mínu bandi, Alchemia, hér þegar ég var 18 ára. Hljómsveitin Blóðmör, sem fór með sigur af hólmi í Músíktilraunum í fyrra, æfði hér og tók hér einnig upp sína fyrstu plötu. Fleiri bönd sem hafa tekið þátt í þeirri keppni hafa æft hér og tekið upp demó.“

MogM7Hljómsveitin Blóðmör, sem sigraði ú Músíktilraunum í fyrra, æfði í húsnæðinu. Mynd/Facebook síða hljómsveitarinnar

Fyrir rúmum tveimur árum gaf Arnar Þór Gíslason, trommari í m.a. Pollapönk, Músíkheimum hálfa milljón í þakklætisskyni og segir Birgir að sú fjárhæð hafi aldeilis komið að góðum notum. Í tónlistardeildinni kennir Birgir unga fólkinu hvernig stúdíóvinna fer fram og hún kostar þau ekkert. „Þegar ég var hér á sínum tíma var stúdíóið ekki notað svona. Þau eru svo spennt að þau koma með öll hljóðfæri með strax en það er sniðugast að taka upp eitt hljóðfæri í einu. Svo er líka hægt að koma bara og prófa að taka upp söng, trommu-cover eða eitthvað svoleiðis. Það þarf ekki að vera hluti af hljómsveit. Allir velkomnir í stúdíóin, meira að segja upp í 25 ára.“

MogM8Addi trommari, þegar hann afhenti fjárstyrkinn fyrir 2 árum. Með honum á myndinni eru Birgir og Stína Mæja. Mynd/OBÞ
MogM9Hluti af aðstöðunni. Þarna er borðtennisborð og sófasett. Mynd/OBÞ

MogM10

Bolir með nöfnum hljómsveitanna sem hafa æft í húsnæðinu eru uppi á vegg. Mynd/OBÞ

Eldflaugar hafa verið smíðaðar

Starri og Askur segja að í Mótorhúsið komi oft ungmenni til að gera við bilaðan mótor eða hjól. Það sé oft aðdráttaraflið. „En svo koma þau örar og kynnast okkur, hver öðrum og starfseminni í heild. Þeir sem sóttu hingað fyrir kannski 10 árum koma enn hérna við því þeir hafa myndað tengsl.“ Askur bætir við: „Oft eru þetta strákar sem er nýkomnir með bílpróf og það má alveg koma til að þrífa bílinn, ekkert endilega að gera við hann. Einnig til að bara vera hérna. Þetta er opið hús fyrir alla og það þarf ekki að vera verkefni í gangi, enda mótast starfsemin af þeim sem hingað koma. Við erum ekki með neina dagskrá eða verkefnalista.“ Starri tekur undir það: „Það er svo mikilvægt að allir skilji og viti að þetta er fyrst og fremst aðstaða fyrir alls kyns starfsemi og félagslegs eðlis. Meira að segja trésmíði. Hér fá allir tilsagnir og leiðsagnir sem þarf. Við kunnum ýmislegt.“ Birgir bætir þá við: „Hér hafa t.d. verið smíðaðar eldflaugar!“

Viðtal við þá Starra, Ask og Birgi birtist í Hafnfirðingi 27. september 2020

Ábendingagátt