Nemarnir í nýsköpunarstofunni

Fréttir

Störfum fyrir námsfólk og frumkvöðla fjölgaði í Hafnarfirði þetta sumarið, sérstaklega í hópi 18 ára og eldri. Hluti hópsins hreiðraði um sig í nýsköpunarstofu í Menntasetrinu við Lækinn og sinnti þar fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum. 

Sumarstörfum fyrir námsfólk og frumkvöðla fjölgaði í Hafnarfirði á milli vor- og haustmisseris, sérstaklega í hópi 18 ára og eldri. Um er að ræða sumaratvinnuátak Hafnarfjarðarbæjar vegna atvinnuástandsins í þjóðfélaginu, í samvinnu við Vinnumálastofnun. Hluti þess hóps hreiðraði um sig í nýsköpunarstofu í Menntasetrinu við lækinn og sinnti þar fjölbreyttum og skemmtilegum sumarstörfum, s.s. á sviði umhverfis- og framkvæmdamála, upplýsingatækni, fræðslumála, fjölskyldumála, menningarmála og heilsueflandi samfélags, á vettvangi eða í öðru húsnæði sveitarfélagsins. Nokkur ungmenni sögðu frá því sem þau fengust við.

Bæjarblaðið Hafnfirðingur vann efni um nokkur lýsandi og skemmtileg verkefni í samstarfi við sumarstarfsfólk í nýsköpunarstofu.  

StarkadurPetursson

Starkaður Pétursson

Starkaður Pétursson, einnig kallaður Starki, er fjörugur og skemmtilegur, mikið leiklistarefni sem sinnir námi við Listaháskóla Íslands. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann vinnur hjá bænum, en hann hefur m.a. sinnt sumarstarfi á Byggðasafni Hafnarfjarðar þar sem hann fór á kostum á samfélagsmiðlum safnsins. Starki vann við það í sumar að flokka rúmlega 30 þúsund ljósmyndir á vegum bæjarins, merkja þær rétt og auðvelda aðgengi og leit að þeim eftir ákveðnum efnisorðum. „Starfið var bæði skemmtilegt og krefjandi en það er auðvitað mikil ábyrgð að vera með svona ljósmyndir í höndunum. Sumar myndanna eru eldri en 20 ára og því mikill fjársjóður. Við fórum í gegnum og flokkuðum fleiri hundruð myndir á dag og við slíka vinnu er gott að vera með gott podcast í eyrunum.“

SnaedisMariaAsgeirsdottir

Snædís María Ásgeirsdóttir

Snædís María Ásgeirsdóttir verður 23 ára á þessu ári, en hún er í námi í fjármálahagfræði við Háskóla Íslands og á þar eitt ár eftir. Snædís er glaðlynd, hress og metnaðarfull. Þegar hún er ekki að vinna hörðum höndum fyrir bæinn sinn þá er hana að finna í eldhúsinu hjá sér eða hlaupandi um Vífilsstaðavatn. „Starfið mitt fólst í því að hringja í lánadrottna bæjarins. Ég auðveldaði þeim að senda rafræna reikninga til bæjarins. Starfið var rosalega fínt, sjálfstæði í starfi og sveigjanleiki á vinnustað.“

SvalaBirnaThorisdottir

Svala Birna Þórisdóttir

Svala Birna Þórisdóttir er mikil íþróttakona. Hún hefur æft handbolta í mörg ár og finnst fátt skemmtilegra en að fara í sund í Suðurbæjarlaug á sólríkum degi. „Þótt mér finnist hundleiðinlegt að synda, þá eru það eru heitu pottarnir sem ég sækist í.“ Svala er 20 ára og stundar nám við Háskóla Íslands á tölfræði- og gagnavinnslukjörsviði sem fellur undir hagnýta stærðfræði. Hún starfaði með mannauðsteymi bæjarins og sá um gerð fræðsluefnis, ásamt fleirum. Um var að ræða m.a. fræðsluefni um ráðningarferli, nýliðafræðslu og leiðbeiningar á Workplace og Office 365. „Starfið var skemmtilegt en á sama tíma rosalega krefjandi. Það krafðist sjálfstæði í vinnubrögðum og skapandi hugsunar.“ Hún hefur starfað áður hjá bænum hjá Siglingaklúbbnum Þyt og á róluvelli. 

HlynurJohannsson

Hlynur Jóhannsson

Hlynur Jóhannsson er 23 ára, mjög hugmyndaríkur sumarstarfsmaður sem stundar nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Starfið hans fólst m.a. í að koma með skapandi hugmyndir fyrir heilsueflingu Hafnarfjarðarbæjar. Hlynur flokkaði einnig rúmlega 30 þúsund ljósmyndir á vegum bæjarins með Starkaði Péturssyni, merkti þær rétt og auðveldaði aðgengi og leit að þeim. „Starfið var krefjandi og fjölbreytt. Ég elska störf sem fá mig til að reyna á sköpunarhæfni mína og var því himinlifandi með þetta starf. Samstarfsfólkið var skemmtilegt og vinnan krefjandi. Hafnarfjarðarbær er ómetanlega fallegur og skemmtilegur bær. Fólkið er vingjarnlegt og opið“. Í frítíma sínum finnst Hlyni gaman að spila á gítar og skella sér út á sparkvöll með góðum vinum. Einnig finnst honum gaman að rölta í gegnum Hellisgerði þar sem hann upplifir ákveðna ró. Hann var áður vaktstjóri yfir gestamóttökunni á Hótel Sögu.

RagnarMarJonssonRett

Ragnar Már Jónsson

Ragnar Már Jónsson verður 23 ára á þessu ári og var að klára Ferðamálafræði frá Háskóla Íslands. Í haust ætlar hann að hefja meistaranám í nýsköpun og viðskiptaþróun. Einnig stundar hann nám hjá Tónlistarskóla FÍH á saxófón. Draumur hans er að ferðast til Nýja Sjálands og á Carnival í Rio De Jainero í Brasilíu, en einnig að fá að spila fyrir Bó [Björgvin Halldórsson]. Ragnar er hress og glaðlyndur og starfið hans fólst í að vinna við ferðamál Hafnarfjarðar, gera markaðsgreiningu á framtíðarmöguleikum og tækifærum Hafnarfjarðar sem áfangastað ferðamanna. „Ég gerði viðhorfskannanir, greindi gögn og vann síðan við að uppfæra ýmislegt, m.a. þjónustuupplýsingar hjá upplýsingamiðstöðinni og upplýsingar á Visit Hafnarfjörður, Visit Reykjavík og Visit Reykjanes. Starfið var mjög skemmtilegt og sveigjanlegt. Þetta er góður vettvangur fyrir ungt fólk til að öðlast þekkingu og reynslu á sínu sviði og starfið hefur hagnýtt gildi fyrir Hafnarfjarðarbæ sem er frábært.“

MariaBjorkAsgeirsdottirMaría Björk Ásgeirsdóttir
María Björk Ásgeirsdóttir er 35 ára gömul og stundar fjarnám í kennarafræðum við Háskólann á Akureyri. Hún er mikil íþróttakona, með mikinn áhuga á körfubolta, sem hún æfði í meira en 25 ár. María vinnur á tveimur stöðum sem snúa að eldri borgurum, bæði fyrir félag eldri borgara og að Hjallabraut sem er íbúðakjarni fyrir eldri borgara. Þar sá hún um hópastarf eldri borgara og þá sérstaklega fyrir þau sem eru búin að vera í dagdvöl á Sólvangi. Vegna framkvæmda og Covid19 hefur ekkert hópastarf verið í langan tíma. Það sem María og samstarfsmenn hennar veita íbúunum er ánægjan að vera meðal fólks og einnig til að hvetja þá til þess að fara út úr húsi, þar sem mörg höfðu þurft að dvelja lengi inni. „Ég hef unnið nokkrum sinnum áður hjá Hafnarfjarðarbæ og hef alltaf haft gaman af því. Eldri borgarar eru duglegir að spjalla um hina og þessa hluti og samræðurnar fjölbreyttar. Ég hef unnið með breiðum aldurshóp og að vinna með eldri borgurum er ákveðin gleði og mikil saga kringum þau. Þau hafa öll upplifað svo víða tíma og það er svo skemmtilegt og áhugavert að heyra þeirra sögur“. 

PatrekurSigfusson

Patrekur Ingi Sigfússon

Patrekur Ingi Sigfússon er tvítugur háskólanemi við Háskólann í Reykjavík í tölvunarfræði. Námið var því fullkomið fyrir starfið hjá Hafnarfjarðarbæ, sem var vefmiðlun. Í því fólst að mestu forritun. Þetta er fyrsta starfið hans sem forritari og hefur hann staðið sig mjög vel. „Það er búið að vera skemmtilegt en krefjandi og verkefnin áhugaverð. Mér finnst æði að geta nýtt mér það sem ég er að læra í vinnunni. Ég myndi mæla með starfinu. Bæði vinnuaðstaðan og starfsandinn eru mjög góð“. Þegar Patrekur var ekki á fullu að forrita fyrir Hafnarfjarðarbæ þá var hann með nefið í skólabókum að læra, vegna þess að hann stundaði á sama tíma nám í sumarskóla. Patrekur er mikill íþróttamaður og hefur mikinn áhuga á því að vera úti, fara í göngur, vera við Hvaleyrarvatn og fleira. Framtíðarplönin hans er fyrst og fremst að klára skólann. „Eftir það verða eflaust margir möguleikar opnir og því ómögulegt að vita hvernig og hvar það endar“.

Umfjöllun um nokkur verkefni sumarstarfsfólks birtist í Hafnfirðingi 16. ágúst 2020.  

Ábendingagátt