Ný handbók um snemmtæka íhlutun í málörvunarstarfi

Fréttir

Leikskólinn Norðurberg hefur gefið út handbók um snemmtæka íhlutun í málörvunarstarfi leikskóla. Handbókin var kynnt nýlega á sérstökum kynningarfundi í skólanum að viðstöddum fjölda gesta. Handbókin, Snemmtæk íhlutun í málörvun leikskólabarna – undirbúningur fyrir lestur, er afrakstur þróunarverkefnis í leikskólanum sem átt hefur sér stað síðustu ár.

Leikskólinn Norðurberg
hefur gefið út handbók um snemmtæka íhlutun í málörvun leikskólabarna og
undirbúning fyrir lestur. Handbókin var kynnt nýlega á sérstökum kynningarfundi
í skólanum að viðstöddum fjölda gesta. Handbókin, Snemmtæk íhlutun í málörvun
leikskólabarna – undirbúningur fyrir lestur, er afrakstur þróunarverkefnis í
leikskólanum sem átt hefur sér stað síðustu tvö ár.

Handbókin kynnir m.a. verkferla, málörvun, flokkun á bókum
og málörvunarefni eftir málþáttum. Einnig er kynnt verklag í námi allra barna í
leikskólanum og tekur handbókin m.a. á því að skima fyrir hugsanlegum
lestrarvanda barna. Leikurinn er í brennidepli og í bókinni eru kynntar
skemmtilegar hugmyndir til þess að vinna með mál og læsi í leikaðstæðum bæði
úti og inni.  Markmiðið er að leita allra
leiða til að finna snemma þau börn sem mögulega munu eiga í lestrarvanda síðar
meir, greina vandann og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða þar sem unnið er
markvisst með íhlutun í kjölfar skimana og prófana. Hér er um að ræða
hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar, skipulagða málörvun í leikskóla sem hefst
snemma og þar með er lagður mikilvægur grunnur að lestrarundirbúningi barna.

Handbók sem samhæfir
fagvinnu og festir ákveðin vinnubrögð í sessi

Handbókin er góð handbók fyrir starfsfólk Norðurbergs og
gefur þeim aukin tækifæri til að samhæfa fagvinnu og festa ákveðin vinnubrögð í
sessi.  Á sama tíma er handbókin góð
fyrirmynd í snemmtækri íhlutun varðandi málörvun og lestrarnám barna fyrir aðra
skóla. Í handbókinni er kynntur ákveðinn grunnur sem hægt er að nýta og vinna
með út frá sérstöðu hvers leikskóla. Handbókin og þróunarverkefnið var unnið í
nánu samstarfi við Ásthildi Bj. Snorradóttur, talmeinafræðing hjá
Hafnarfjarðarbæ. Verkstjórn var í höndum Huldu P. Haraldsdóttur,
leikskólakennara og deildarstjóra á Álfasteinsdeild á Norðurbergi. Aðrir í
þróunarteymi verkefnis voru Gunnhildur Grímsdóttir aðstoðarleikskólastjóri og
deildarstjórarnir Lóa Björk Hallsdóttir, Sigríður Jenný Halldórsdóttir og
Jóhanna Berentsdóttir. Leikskólastjóri á Norðurbergi er Anna Borg Harðardóttir.
Sambærileg vinna við sérsniðna og aðlagaða handbók er þegar farin af stað í
nýjasta leikskóla Hafnarfjarðar, Bjarkalundi.

Nánari upplýsingar veitir Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur hjá
Hafnarfjarðarbæ, í 585-5817 eða asthildurs@hafnarfjordur.is

Ábendingagátt