Ný heildarmynd fyrir miðbæ Hafnarfjarðar

Fréttir

Ný heildarmynd fyrir miðbæ Hafnarfjarðar var kynnt á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í morgun. Samkvæmt nýjum tillögum er Thorsplan áfram hugsað sem aðaltorgið í hjarta Hafnarfjarðar og Ráðhústorg, sem í dag hýsir bílastæði m.a. fyrir Bókasafn Hafnarfjarðar, kynnt sem grænt torg með áherslu á gróður, vatn og minni samkomur og viðburði. Litið er á Ráðhústorg og svæðið í kring sem eitt heildstætt og heillandi svæði sem flæðir saman og tengist litlum og stórum stígum og götum í allar áttir.

Ráðhústorg verði ,,grænt“ torg með áherslu á gróður, vatn og minni samkomur

Heildarmynd fyrir miðbæ Hafnarfjarðar var kynnt á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í lok síðustu viku. Samkvæmt nýjum tillögum er Thorsplan áfram hugsað sem aðaltorgið í hjarta Hafnarfjarðar og Ráðhústorg, sem í dag er lagt undir bílastæði m.a. fyrir Bókasafn Hafnarfjarðar, kynnt sem grænt torg með áherslu á gróður, vatn og minni samkomur og viðburði. Litið er á Ráðhústorg og svæðið í kring sem eitt heildstætt og aðlaðandi svæði sem flæðir saman og tengist litlum og stórum stígum og götum í allar áttir til annarra hverfa. Áhersla er lögð á götulist og tengingar við starfsemi á jarðhæðum. Á torginu verður góð aðstaða fyrir minni samkomur og vatnsskúlptúr á miðju torgsins er ætlað að hvetja til leikja og samveru hvort sem er á hlýjum sumardegi eða þegar vatnið er þakið klakaböndum um hávetur.

18-Reitur-1-Hafnarfjordur-210706-ASK-arkitektar-YfirlitTilSudursBilar

Ráðhústorg og reiturinn í heild sinni séð úr lofti.  Teikningarnar sýna vel fyrirhugaða uppbyggingu á reitnum, flæðið á torginu og tengingu í allar áttir til annarra hverfa.

12-Reitur-1-Hafnarfjordur-210706-ASK-arkitektar-YfirlitTilNordurs

„Þessar nýju hugmyndir eru mjög spennandi. Það er mikilvægt að nýjar hönnunartillögur í miðbænum tali vel saman við hugmyndir um þróun annarra svæða í hjarta Hafnarfjarðar. Hafnarfjörður er þekktur fyrir hlýleika og einstakan bæjarbrag og öll hönnun og hugmyndir eiga að miða að því að viðhalda þessum mikla og góða styrkleika okkar. Nú þegar bærinn blómstrar, vex og eflist á svo margvíslegan máta þurfum við alltaf að hafa hugfast að halda í sérkenni hans,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

8-Reitur-1-Hafnarfjordur-210706-ASK-arkitektar-RadhustorgAustur

Gömlu húsin á svæðinu munu njóta sín í nýrri götumynd

Kaffihúsið Súfistinn ásamt fyrirhugaðri viðbyggingu mun verða þungamiðjan á Ráðhústorginu og mun viðbygging Súfistans, samkvæmt hugmyndum, verða í anda gamla Hafnarfjarðar en með nútímalegum brag. Gert er ráð fyrir að viðbyggingin muni hýsa stækkun á veitingarými á jarðhæð með þaksvalir sem snúa að Strandgötu. Gamla hús Súfistans mun áfram njóta sín í götumyndinni. Á 2. og 3. hæð viðbyggingar auk rishæðar núverandi húss er gert ráð fyrir fjórum smáíbúðum. Nýjar hugmyndir gera jafnframt ráð fyrir að Beggubúð, sem byggð var 1906 og hýsir í dag verslunarminjasafn Byggðasafns Hafnarfjarðar, verði aftur flutt á upprunalega stað sinn á Strandgötunni gegnt Bæjarbíói til að ná enn frekari skírskotun til gamla Hafnarfjarðar. Lagt er til að byggt verði við Austurgötu 4a í sama stíl. Inngangur inn á Ráðhústorgið með breiðum tröppum sem snúa vel við sólu mun tengjast Austurgötu 8, sem hugsuð er undir þjónustustarfsemi með sólríkri verönd. Veröndin er jafnframt hugsuð sem aðstaða fyrir minni viðburði og mannfagnaði.

10-Reitur-1-Hafnarfjordur-210706-ASK-arkitektar-RadhustorgLoftmynd

Verslunar- og þjónustustarfsemi sem þjónar bænum öllum

Á fundi bæjarráðs í liðinni viku var lögð fram ný tillaga ASK arkitekta að breyttu deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar. Breytingin nær til reits sem er 7.400 fermetrar að flatarmáli og afmarkast af Strandgötu, Reykjavíkurvegi, Austurgötu og Linnetsstíg. Á miðsvæðum er fyrst og fremst gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi s.s. verslunum, skrifstofum, þjónustustofnunum, veitinga- og gistihúsum og menningarstofnunum. Þar sem aðstæður leyfa má gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, sérstaklega á efri hæðum bygginga. Engin hús verða rifin á svæðinu og gert ráð fyrir að ný hús eða viðbyggingar verði reist að Austurgötu 6, Austurgötu 10b, Austurgötu 14-16, Austurgötu 18, Strandgötu 9 og Strandgötu 13. Bæjarráð Hafnarfjarðar staðfesti á fundi sínum samþykkt skipulags- og byggingarráðs á framlagðri tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Rík áhersla er lögð á að deiliskipulagstillagan verði vel kynnt íbúum þegar þar að kemur. 

Ítarlegri gögn er að finna undir fundargerð bæjarráðs – sjá lið nr. 10  

Ábendingagátt