Ný nálgun í kynfræðslu í Hafnarfirði

Fréttir

Hafnarfjarðarbær mun frá og með haustinu 2023 efla kynfræðslu og kynjafræði í grunnskólum Hafnarfjarðar. Alhliða kynfræðsla og kynjafræðikennsla verður innleidd í alla 8. – 10. bekki auk sköpunar á námsskrá sem felur í sér hæfniviðmið fyrir 1. – 10. bekk í kynfræðslu og kynjafræði.

Áhersla lögð á þætti eins og kynheilbrigði, virðingu, mörk, samskipti og samþykki

Hafnarfjarðarbær mun frá og með haustinu 2023 efla kynfræðslu og kynjafræði í grunnskólum Hafnarfjarðar. Verkefnið, sem leitt er af Kristínu Blöndal Ragnarsdóttur kynjafræðingi og kennara, er meðal annars tilkomið vegna áskorunar ungmennaráðs Hafnarfjarðar, foreldraráðs, Kennarasambands Íslands og mikillar umræðu um mikilvægi aukinnar kynfræðslu og jafnréttisfræðslu hjá börnum og ungmennum ásamt því sem framtakið uppfyllir markmið lögbundinna forvarnarteyma í skólum. Alhliða kynfræðsla og kynjafræðikennsla verður innleidd í alla 8. – 10. bekki í grunnskólum Hafnarfjarðar auk sköpunar á námsskrá sem felur í sér hæfniviðmið fyrir 1. – 10. bekk í kynfræðslu og kynjafræði.

Ýtir undir jákvætt viðhorf til kynheilbrigðis og jafnréttis í sinni víðustu mynd

Tilgangur og markmið nýrrar nálgunar og aukinnar kennslu er að auka þekkingu og færni ungs fólks á kynheilbrigði, virðingu, mörkum, samskiptum, samþykki og öðrum grunnþáttum. Þar vegur þungt að ungt fólk þekki sjálft réttindi sín og mikilvægi þess að virða réttindi og mörk annarra auk þess að þekkja muninn á heilbrigðum og óheilbrigðum samböndum og samskiptum. Andlegt og líkamlegt ofbeldi meðal ungs fólks virðist fara vaxandi og mikilvægt að bregðast við og nálgast börn og ungmenni sem fyrst með uppbyggjandi fræðslu og samtali. „Við erum að stíga mikilvægt og stórt skref fyrir unga fólkið okkar í samfélagi sem breytist ört og kallar á það að við séum á tánum og tilbúin til að fara nýjar og ótroðnar slóðir í fræðslu til þeirra,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar. „Góð líðan barna og ungmenna er ein mikilvægasta forsenda þess að þau nái að vaxa og dafna innan og utan skóla. Heimur barna hefur færst mikið yfir í samfélagsmiðlana með tilheyrandi áhrifum á sjálfsmynd og hugmyndir um hegðun. Það er mikilvægt að bæði heimili og skóli veiti fræðslu um áhrifaþætti sem geta haft mikil áhrif á líðan og samskipti.“

Jafnrétti og fjölbreytileiki út frá öllum sjónarhornum í skóla margbreytileikans

Á skólaþingi í árslok 2022 sendi Kennarasamband Íslands frá sér ályktun með áskorun til stjórnenda allra skólastiga og menntamálayfirvalda að tryggja nemendum allra skólastiga alhliða kynfræðslu. Allir skólar í Hafnarfirði taka þátt í innleiðingunni og gera ráð fyrir fræðslunni í stundatöflum nemenda. Þessi virka þátttaka allra er forsenda þess að innleiðingin verði farsæl og fræðslan nái fótfestu í hafnfirsku skólasamfélagi. Kynjafræði og kynfræðsla eru ekki skyldufög í grunnnámi kennara en hluti af innleiðingarverkefni Hafnarfjarðarbæjar snýr að fræðslu og undirbúningi fyrir kennara í öllum grunnskólum. Fræðsla fyrir haustið 2023 hefur þegar átt sér stað og var hún í höndum innleiðingarstýru, Kristínar Blöndal kynjafræðings og kennara við Lækjarskóla í Hafnarfirði, sem jafnframt mun sjá um kynningu til áhugasamra foreldra og veita áframhaldandi stuðning og fræðslu til skólasamfélagsins í Hafnarfirði í gegnum kennarasmiðjur og reglubundna fundi. Með verkefninu er Hafnarfjarðarbær að svara ákalli barna og ungmenna með fræðslu til nemenda um jafnrétti og fjölbreytileika út frá öllum sjónarhornum og gefa þeim tækifæri til að geta sett sig í spor annarra með það að leiðarljósi að draga úr fordómum og jaðarsetningu í samfélagi margbreytileikans. Starfshópur á bak við verkefnið er skipaður fulltrúum frá öllum skólum Hafnarfjarðarbæjar sem hafa þekkingu og/eða áhuga á viðfangsefninu.

Reiknaðu með mér! Rabb um kynheilbrigði og jafnrétti

Heilsubærinn Hafnarfjörður hélt fræðslukvöld fyrir öll áhugasöm um kynheilbrigði og jafnrétti í mars 2023. Stýring kvöldstundarinnar var í höndum Kristínar Blöndal og var stundin meðal annars hugsuð sem liður í kynningu á verkefninu og þeirri innleiðingu sem framundan var frá og með hausti.

Viðburðurinn var vel sóttur og fram komu, auk Kristínar sjálfrar, Rósa Björg Ómarsdóttir teymisstjóri transteymis BUGL og hjúkrunarfræðingur, Eygló Árnadóttir sérfræðingur í ábyrgð skóla varðandi kynbundið ofbeldi og Sigmar Ingi Sigurgeirsson og Dagný Kára Magnúsdóttir starfsfólk félagsmiðstöðvar HHH – Hinsegin hittinga í Hafnarfirði. Guðbjörg Kolbeins deildi reynslusögu sinni sem hinsegin ungmenni. Upplýst og opið samfélag ýtir undir markmið Hafnarfjarðarbæjar um að vera bær fjölmenningar og fjölbreytileika þar sem öll upplifa sig örugg, velkomin og fá tækifæri til að blómstra í sínu. Nánar um viðburðinn í mars 2023.

Ábendingagátt