Nýtt eimbað tekið í notkun í Suðurbæjarlaug

Fréttir

Glænýtt eimbað hefur verið opnað í Suðurbæjarlaug. Laugin hefur aldrei verið betri en nú eftir framkvæmdir sem þar hafa staðið yfir. Síðustu misseri hafa einnig snákalaug og kaldir pottar bæst við. Sjón er sögu ríkari.

 

Suðurbæjarlaug orðin enn betri!

Glænýtt eimbað prýðir nú Suðurbæjarlaug. Eimbaðið var tekið í notkun um síðustu helgi. Sundlaugin er orðin enn fjölskylduvænni en síðustu misseri hafa orðið breytingar á lauginni, ný vaðlaug og vatnsspúandi snákur bæst við sem heilla þau yngstu.

„Hluti af því að fara í sund er að njóta, þetta eru heilsulindir,“ segir Aðalsteinn Hrafnkelsson, sem hefur verið forstöðumaður sundlauga Hafnarfjarðar frá 2011. „Breytt Suðurbæjarlaug er stærsta verkefni sem við höfum ráðist í við sundlaugarnar í Hafnarfirði í háa herrans tíð.“ Hann er afar ánægður með útkomuna. Næst á dagskrá sé uppfærsla á búningsklefunum.

Þrjár sundlaugar í Hafnarfirði

Sundlaugarnar í Hafnarfirði eru þrjár. Auk Suðurbæjarlaugarinnar, Ásvallalaug og Sundhöll Hafnarfjarðar. Þær eru ólíkar og hafa sína menningu. „Suðurbæjarlaugin er útisundlaug með heitum pottum. Sundhöllin er innilaug með pottum úti. Þar er rólegt, andrúmsloftið afslappað og lokað um helgar. Ásvallalaug er svo stórt ævintýri fyrir barnafjölskyldur, innilaug með pottum bæði úti og inni. Við viljum gjarnan að hver laug hafi sín sérkenni og höldum fast í það,“ segir hann.

Suðurbæjarlaug er ein perla Hafnarfjarðar. Hún var byggð 1988. „Þá var ekkert sem hét sundlaugarvörður sem fylgdist öllum stundum með lauginni.“ Búið hafi verið til rými fyrir hann eftirá en með framkvæmdunum nú sé búið að bæta úr því og koma eimbaðinu fyrir á nýjum á nýjum stað.

Köldu pottarnir komnir til að vera

Sundlaugar í landinu hafa tekið breytingum síðustu ár, þá sérstaklega með köldum pottum. Nú eru þeir orðnir hluti af sundlaugunum og þannig er það einnig í Suðurbæjarlaug. Tveir nýir miskaldir pottar standa við hlið þeirra heitu. Aðalsteinn segir að nú séu sána og gufuböð einnig að verða enn vinsælli. „Við höfum svarað því kalli,“ segir hann.

Í Suðurbæjarlaug er 12,5 x 25 metra útisundlaug. Innandyra er einnig sérhönnuð kennslulaug sem einnig er góð barnalaug. Vinsæll göngustígur liggur um sundlaugargarðinn. Í kjallara Suðurbæjarlaugar er Gym Heilsa heilsuræktarstöð með aðstöðu. Í sundlauginni er hefðbundið skólasund, sundæfingar SH, ungbarnasundstímar, vatnsleikfimi og tímar í jóga. Í húsnæði laugarinnar starfar jafnframt nuddari.

Já, Suðurbæjarlaug er sannkölluð heilsulind.

Ekki hika. Komdu í sund. Hér nánar um Suðurbæjarlaug

Ábendingagátt