Núvitund í skólastarfi: Meiri samkennd – minni streita

Fréttir

Hafinn er annar vetur verkefnis þar sem innleidd er núvitund í starf leikskólans Smáralundar. Fyrsta árið var eingöngu unnið með starfsfólkið þar sem það fann á eigin skinni hvernig er að nýta sér núvitund í dagsins önn. Verið er að gefa börnunum ákveðin verkfæri til að hafa betri stjórn á sjálfum sér og lengja viðbragðstímann við áreiti.

Núvitund innleidd í starf Smáralundar

Hafinn er annar vetur verkefnis þar sem innleidd er núvitund í starf leikskólans Smáralundar. Fyrsta árið var eingöngu unnið með starfsfólkið þar sem það fann á eigin skinni hvernig er að nýta sér núvitund í dagsins önn. Að sögn Ingu Fríðu Tryggvadóttur skólastjóra finnur starfsfólk skólans nú þegar að verið sé að gefa börnunum ákveðin verkfæri til að hafa betri stjórn á sjálfum sér og lengja viðbragðstímann við áreiti. Bæjarblaðið Hafnfirðingur leit í heimsókn. 

NuvitundSmaralundur2

Inga Fríða segist hafa fyrir tveimur árum fengið vinkonu sína á starfsmannafund í leikskólanum til að fjalla um jákvæða sálfræði, jóga og hennar upplifun á núvitund. „Eftir að hafa hlustað á hana var starfsfólkið mjög áhugasamt um að vinna með þetta og í kjölfarið sóttum við um styrk til Lýðheilsusjóðs, sem við fengum. Eftir það fór boltinn að rúlla og fyrsta árið fór eingöngu í að vinna með starfsfólkið. Núna í haust fór svo allt starfsfólkið á kennaranámskeið með námsefnið Gjöfin í núinu og þennan vetur innleiðum við með börnunum það námsefni.“ Bæði foreldrar og kennarar elstu barnanna svöruðu spurningalistum í september sl. og munu aftur svara slíkum í vor. „Þá sjáum við hvort það sé marktækur munur á líðan og hegðun barnanna. En við upplifum samt strax að við séum að gefa börnunum ákveðin verkfæri til að hafa betur stjórn á sér og lengja tímann í viðbrögðum við áreiti. Við erum því virkilega spennt fyrir að fara inn í þennan annan vetur í verkefninu.

Töluverð jákvæð breyting

Fyrsta árið var eingöngu unnið með starfsfólkið, þar sem það fann á eigin skinni hvernig það er að nýta sér núvitund í dagsins önn. Það svaraði spurningalistum fyrir og eftir innlögn. Milli mælinga var töluverð jákvæð breyting á þremur matsþáttum; samkennd í eigin garð, almennri stýrifærni og þrautseigju sem hækkuðu töluvert. Streita og depurð vor þættir sem lækkuðu nokkuð milli mælinga. Meðaltal á svokallaðri hamingjuspurningu hækkaði líka töluvert, úr 7,3 í 8,6,“ segir Inga Fríða. Í vor fór svo starfsfólk leikskólans í námsferð til Tossa De Mar þar sem það tók þátt í núvitundarnámskeiði hjá Bryndísi Jónu Jónsdóttur. Þar var farið í hvernig vinnu er viðhaldið með núvitund, unnið með starfsmannahópinn og hann tengdur vel saman.

NuvitundSmaralundur3

Markvissar núvitundarstundir

Síðastliðið haust fór starfsmannahópurinn svo á kennaranámskeið þar sem kennt var að vinna með námsefni fyrir börn sem heitir Gjöfin í Núinu – núvitundar- og vellíðunarnámsefni fyrir leik- og grunnskóla, eftir höfundinn Söru Silverton. „Við lærðum um ákveðin þemu í námsefninu og eins skoðuðum við dagsskipulagið, hvernig við getum nýtt stundir í núvitund, s.s. hvort við gætum breytt og gefið ákveðnum þáttum betra rými. Við erum núna byrjuð með markvissar núvitundarstundir inni á deildum þar sem farið er í þemu í námsefninu. Eins eru öll tækifæri í daglegu starfi nýtt til núvitundar. Eftir veturinn verður spurningalistunum aftur svarað og spennandi að sjá hvort marktækur munur verður á líðan og hegðun barnanna,“ segir Inga Fríða bjartsýn og yfirveguð.

 

Ábendingagátt