Órofin velferðarþjónusta mikilvæg

Fréttir

Á tímum Covid19 og samkomubanns reynir á nærþjónustu við íbúa sem eru í höndum sveitarfélaga og á þjónustu við eldri borgara, fatlað fólk og barnavernd svo eitthvað sé nefnt. Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðar, segir miklu máli skipta að halda þjónustunni órofinni eins og kostur er.

Á tímum Covid19 og samkomubanns reynir á nærþjónustu við íbúa sem eru í höndum sveitarfélaga og á þjónustu við eldri borgara, fatlað fólk og barnavernd svo eitthvað sé nefnt. Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðar, segir miklu máli skipta að halda þjónustunni órofinni eins og kostur er.

Bæjarblaðið Hafnfirðingur spjallaði við Rannveigu.

Hjá sveitarfélögum landsins starfar stór hópur fólks að umönnun og stuðningi, bæði í dag- og sólarhringsþjónustu. „Þetta er fólkið sem við reiðum okkur á nú á neyðartímum. Hjá Hafnarfjarðarbæ, eins og í öðrum sveitarfélögum, hefur verið farið í uppstokkun og endurskipulagningu þjónustunnar í því skyni það koma til móts við breyttar aðstæður. Seint verður fullþakkað hvernig tekið hefur verið á málum. Jákvæðni, sveigjanleiki, ábyrgð og fagmennska hafa algjörlega ráðið ferðinni,“ segir Rannveig. Auk þess sé verið að fara nýjar leiðir í þjónustunni, nýta tæknilegar lausnir, ný úrræði spretti fram og nýsköpun og frumkvæði starfsmanna séu aðdáunarverð.

Covid19Heimathjonusta

Frænkurnar Sjöfn Jónasdóttir, íbúi við Sólvangsveg 1 og Sara Björnsdóttir, heimaliði í stoðþjónustu. Mynd/OBÞ

Bærinn með eigin bakvarðasveit

Félagsmálaráðuneyti, Landlæknir og Samband sveitarfélaga hafa staðið saman að stofnun bakvarðarsveitar velferðarþjónustu, þar sem 1300 einstaklingar hafa skráð sig. Rannveig segir að auk þess hafi Hafnarfjarðarbær stofnað sína eigin bakvarðasveit sem getur leyst af í velferðarþjónustu sveitarfélagsins, komi til forfalla og aukins álags vegna afleiðinga heimsfaraldurs Covid19. „Þar er að skrá sig starfsfólk af öðrum sviðum og stofnunum sveitarfélagsins. Samstaða er um að leggja þjónustunni lið, allir eru í sama liðinu og samhugur ríkir.“

Endurreisnarstarf bíður í kjölfar Covid19

Rannveig lýsir ástandinu á þá leið að þjóðin sé í miðri á en haldi ótrauð áfram. „Það þarf að huga að endurreisnarstarfi eftir Covid. Það má leiða líkur að því að barnaverndarmálum fjölgi þegar líður á og í kjölfar ástandsins. Það hefur verið sýnt fram á að hætta er á fjölgun heimilisofbeldismála og því mikilvægt að hafa góðar gætur þar á. Mikil aukning atvinnuleysis er nú þegar orðin staðreynd og gera má ráð fyrir fjölgun umsókna um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögunum,“ segir Rannveig. Auk þess valdi samfélagslegt álag ófyrirséðum verkefnum. „Mörg mikilvæg verkefni eru framundan í velferðarþjónustu sveitarfélaga. Þar starfar öflugt og reynslumikið starfsfólk sem við treystum vel til þeirra verka.“

Viðtal við Rannveigu birtist í Hafnfirðingi 28. apríl 2020.

Ábendingagátt