Örugg búseta fyrir alla

Fréttir

Í dag fór af stað samstarfsverkefni um kortlagningu á fjölda einstaklinga sem búa í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var falið að leiða verkefnið í nánu samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), Alþýðusamband Íslands og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Áætlað er að kortlagningin muni taka um þrjá mánuði. 

Í dag fór af stað samstarfsverkefni um kortlagningu á fjölda einstaklinga sem búa í
atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hefur verið falið falið að leiða verkefnið í nánu samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), Alþýðusamband Íslands og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Áætlað er að kortlagningin muni taka um þrjá mánuði. Í því felst að hópur eftirlitsfulltrúa heimsækir atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og ræðir við einstaklinga sem þar eru búsettir um ástand brunavarna og félagslegar aðstæður þeirra. Upplýsingar verða ópersónugreinanlegar.

Verkefnið er ein tillagna um úrbætur á brunavörnum í búsetuhúsnæði  

Í kjölfar brunans við Bræðraborgarstíg í fyrra þar sem þrjú létust var Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) að beiðni félags- og barnamálaráðherra falið að vinna að tillögum til úrbóta á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu. Í því skyni stofnaði HMS samráðsvettvang sem lagði fram þrettán úrbótatillögur, þar á meðal að kortleggja hversu margir einstaklingar búa í atvinnuhúsnæði, ásamt því að safna upplýsingum um ástand brunavarna og félagslegar aðstæður íbúa sem nú er verið að setja í framkvæmd. Ákveðið var að hefja þessa vinnu á höfuðborgarsvæðinu og þróa aðferðarfræði sem mun nýtast á landsbyggðinni. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og
stjórnarformaður SHS, Halla Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ASÍ og Anna Guðmunda
Ingvarsdóttir aðstoðarforstjóri HMS, kynntu verkefnið á blaðamannafundi í morgun.  

„Í þessum áfanga er markmiðið að ná utan um umfangið og fjölda einstaklinga sem
býr í atvinnuhúsnæði. Í kjölfarið á þeirri vinnu verður svo skoðað hvaða úrbætur þarf
að ráðast í til að skapa öruggari húsnæðisaðstæður fyrir íbúa. Kortlagningin skapar
grundvöll fyrir stjórnvöld til að ráðast í nauðsynlegar úrbætur og koma í veg fyrir
hörmulega atburði eins og áttu sér stað á Bræðraborgarstíg“
segir Jón Viðar
Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. 

Vefurinn www.homesafety.is hefur verið sett í loftið sem hluti af kynningarefni þessa
verkefnis og þar er hægt að nálgast upplýsingar á sex tungumálum.

Ábendingagátt