Ráðgjöf sem hefur bein áhrif á lífsgæði

Fréttir

Hafnarfjarðarbær býður upp á skilnaðarráðgjöf frá og með 1. júní nk, en um er að ræða samstarf Hafnarfjarðarbæjar og félagsmálaráðuneytisins sem ber yfirskriftina Samvinna eftir skilnað (SES). 

Á Íslandi eru skv. Hagstofu Íslands um 1100-1200 skilnaðir á ári að meðaltali og má áætla að í Hafnarfirði séu rúmlega 100 skilnaðir á ári. Hafnarfjarðarbær býður upp á skilnaðarráðgjöf frá og með 1. júní 2020, en um er að ræða samstarf Hafnarfjarðarbæjar og félagsmálaráðuneytisins sem ber yfirskriftina Samvinna eftir skilnað (SES)

Bæjarblaðið Hafnfirðingur ræddi við Soffíu Ólafsdóttur, deildarstjóra á fjölskyldu- og barnamálasviði.

Mikilvægur liður í að efla þjónustu við bæjarbúa

„Við erum að renna nokkuð blint í sjóinn varðandi fjölda þeirra sem koma til með að leita eftir þjónustunni og erum í góðu samstarfi við sýslumannsembætti. Verkefnið verður kynnt prestum o.fl. sem tengjast málefninu og einnig hefur verið lögð áhersla á að kynna og fræða starfsfólk sveitarfélagsins um þetta nýja verkefni,“ segir Soffía og bætir við aðspurð að þátttaka sveitarfélagsins sé mikilvæg sem liður í að efla þjónustu við bæjarbúa. „Markmið verkefnisins er að veita ráðgjöf til foreldra, til að koma í veg fyrir og/eða til að draga úr ágreiningi foreldra sem standa í skilnaði/sambúðarslitum og stuðla að samvinnu, sem getur haft bein áhrif á lífsgæði barnanna.“

HluiafSESteymiHFJ2Hluti af SES teyminu ásamt sviðsstjóra: Kolbrún Sigþórsdóttir, Ásgerður Arna Sófusdóttir (fyrir aftan) Rannveig Einarsdóttir sviðsstjóri,  Arnbjörg Jónsdóttir, Erla Rós Heiðarsdóttir og Hulda Björk Finnsdóttir (fyrir framan).

Einnig fyrir foreldra sem skildu fyrir einhverju síðan

Skilnaðarráðgjöfin er einnig ætluð fyrir foreldra sem hafa gengið í gegnum skilnað fyrir einhverju síðan og vilja stuðla að betri foreldrasamvinnu með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. „Samvinna eftir skilnað fellur vel að verkefnum fjölskyldu- og barnamálasviðs þar sem í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga eru ákvæði um réttindi til félagsþjónustu og skal aðstoðin og þjónustan vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf,“ segir Soffía.

Snemmtæk íhlutun og fyrirbyggjandi áherslur

Fagfólk á skrifstofu fjölskyldu- og barnamálasviðs hefur sótt námskeið nú á vormánuðum varðandi það hvernig hægt er að nota námsefnið Samvinna eftir skilnað í ráðgjöf og stuðningi til fólks sem er að skilja. Soffía segir að unnið hafi verið að því að móta verklag og undirbúa verkefnið þannig að vel takist til. „Þessi nálgun fellur afar vel að þeim áherslum sem Hafnarfjarðarbær hefur verið að þróa í þjónustu við börn og fjölskyldur. Megin stefið í þeim áherslum er snemmtæk íhlutun og er Samvinna eftir skilnað skýrt dæmi um fyrirbyggjandi áherslur í starfi með fjölskyldur í sveitarfélaginu.“

Rafræn skyldunámskeið í Danmörku

Spurð um tengingu við annað svipað sem hefur reynst vel í þessum málaflokki segir Soffía að t.a.m. hafi skilnaðarlögunum í Danmörku verið breytt á síðasta ári og sé öllum foreldrum þar í landi skylt að taka rafrænt skyldunámskeið um áhrif skilnaðar á börn. „Rannsóknir hafa sýnt marktækan mun á líðan þeirra sem taka þátt í verkefninu og þeirra sem ekki gera það. Það er því til mikils að vinna og væntum við þess að árangur verði sambærilegur og er í Danmörku.“

Samvinna eftir skilnað er tilraunaverkefni og verður fylgst vel með framgangi og árangri.

Sótt er um ráðgjöf í gegnum MÍNAR SÍÐUR  og www.samvinnaeftirskilnad.is . Einnig er hægt að hafa samband símleiðis við ráðgjafa fjölskyldu- og barnamálasviðs.

HlutiafSESteymiHFJ1Soffía Ólafsdóttir er hér með þeim Særúnu Ómarsdóttur og Hlín Pétursdóttur, sem einnig eru í SES teyminu.

Viðtal við Soffíu birtist í Hafnfirðingi 8. júní 2020

Ábendingagátt