Samfélag heilsu og sköpunar í Lífsgæðasetri St. Jó

Fréttir

Lífsgæðasetur St.Jó nálgast óðfluga þau sögulegu og merku tímamót að fylla allar hæðir og öll rými í gamla St. Jósefsspítala af starfsemi sem tengja má heilsu, lífsgæðum og sköpun. Nú hafa 16 fyrirtæki og félagasamtök komið sér fyrir í setrinu og eru þegar farin að bjóða þjónustu sem er til þess fallin að efla líðan og heilsu fólks á öllum aldri. Á sumardaginn fyrsta var blásið til hátíðar og húsið opnað sérstaklega í tilefni af opnun nýrrar hæðar og móttöku nýrra fyrirtækja og samtaka í húsið. Unnið er að framkvæmdum í kjallara og í kapellu. Að öðru leyti er húsið fullbúið og öll rými þegar þéttsetin.

St. Jósefsspítali blómstrar í nýju hlutverki

 

Lífsgæðasetur St.Jó nálgast óðfluga þau sögulegu og merku tímamót að fylla allar hæðir og öll rými í gamla St. Jósefsspítala af starfsemi sem tengja má heilsu, lífsgæðum og sköpun. Nú hafa 16 fyrirtæki og félagasamtök komið sér fyrir í setrinu og eru þegar farin að bjóða þjónustu sem er til þess fallin að efla líðan og heilsu fólks á öllum aldri. Fleiri bætast við á næstu dögum og vikum. Á sumardaginn fyrsta var blásið til hátíðar og húsið opnað sérstaklega í tilefni af opnun nýrrar hæðar og móttöku nýrra fyrirtækja og samtaka í húsið. Unnið er að framkvæmdum í kjallara og í kapellu. Að öðru leyti er húsið fullbúið og öll rými þegar þéttsetin.

IMG_3306

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri sagði nokkur vel valin orð í upphafi hátíðar í Lífsgæðasetri St. Jó á sumardaginn fyrsta.   

„Um leið og bærinn eignaðist St. Jósefsspítala fyrir rétt um fimm árum þá fór af stað hugmyndavinna og í framhaldinu framkvæmdir sem í dag eru að skila Hafnarfirði lífsgæðasetri og samfélagi fyrirtækja sem veita fjölbreytta heilsutengda þjónustu fyrir alla aldurshópa. Þetta fallega og sögufræga hús okkar Hafnfirðinga hefur öðlast fyrri reisn og virðingu og fyllst lífi og góðri starfsemi á nýjan leik,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Fjöldi gesta sótti setrið heim á sumardaginn fyrsta. Húsið hefur verið fært sem næst sinni upprunalegu mynd með frönskum gluggum og fallegum viðarhurðum.

IMG_3293

Fjöldi gesta sótti setrið heim á sumardaginn fyrsta og fékk kynningu á þjónustu þeirra sem aðsetur hafa í húsinu. 

Bærinn eignaðist spítalann sumarið 2017

Hafnarfjarðarbær eignaðist St. Jósefsspítala sumarið 2017 og skuldbatt sig samhliða til að reka almannaþjónustu í fasteigninni að lágmarki í 15 ár frá undirritun samnings og hefja rekstur í eigninni innan 3 ára frá undirritun samnings. Tveimur árum frá undirritun samnings, á 92 ára vígsluafmæli hússins þann 5. september 2019, var húsið opnað formlega sem lífsgæðasetur og samhliða fluttu inn fimmtán fyrirtæki. Nú rétt tæpum fimm árum síðar eru allar hæðir, að undanskildum kjallara og kapellu, komnar í fulla notkun. 

St.-Josefsspitali-21-04-22-6

Húsnæði St. Jó hefur gengið í endurnýjun lífdaga eins og sjá má. 

Gamla húsnæði St. Jósefsspítala er reisulegt hús í hjarta Hafnarfjarðar, fyrrum sjúkrahús á fjórum hæðum ásamt kapellu. Stærð hússins er 2.829 m² og er húsið byggt á árunum 1926, 1973 og 2006. Byggingin stendur á 4.467,2 m² eignarlóð sem skilgreind er sem lóð undir samfélagsþjónustu. Kaupverð var 100 milljónir króna og fór afhending á eign fram 15. ágúst 2017. Þetta fallega og sögufræga hús hefur á þessum tæpum fimm árum farið í gegnum miklar endurbætur og nú iðar húsið af lífi þar sem samtök, fyrirtæki og einstaklingar sinna fjölbreyttri starfsemi sem öll hefur það að markmiði að bæta lífsgæði fólks. Nýverið afhenti Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowreglunnar á Íslandi Alzheimersamtökunum og Parkinsonsamtökunum 530 fermetra húsnæði til afnota fyrir starfsemi samtakanna á 3ju hæð.

Tímalína St. Jó í stuttu máli

 

 

 

Sögu St. Jó er að finna á vef Lífsgæðaseturs St. Jó

Þjónustuaðilar í Lífsgæðasetri St. Jó

 

Eftirtaldin fyrirtæki og félagasamtök hafa nú aðstöðu í Lífsgæðasetri St. Jó og bjóða upp á margvíslega þjónustu og meðferðir sem auka lífsgæði sinna skjólstæðinga. Þjónustuaðilar sem bjóða upp á hefðbundnar og óhefðbundnar meðferðir í Lífsgæðasetri St. Jó eru með viðurkennda menntun og starfsleyfi, ef við á. Á næstu vikum og mánuðum munu bætast enn fleiri aðilar í hópinn. Gert er ráð fyrir að starfsemi hefjist á 1. hæð í byrjun ágúst 2022.

 

  • Alzheimersamtökin: vinna að hagsmunamálum fólks með heilabilunarsjúkdóma með stuðningi, ráðgjöf og fræðslu.
  • Eldmóður fræðasetur: býður upp á markþjálfun fyrir alla, kynlífsmarkþjálfun og forvarnarfyrirlestra.
  • Fótaflækja: fótaaðgerðarstofa rekin af Guðríði Harðardóttur fótaaðgerðarfræðingi.
  • Hönd í hönd: sinni alhliða fjölskylduráðgjöf og meðferð með áherslu á samskipti innan parasambandsins og fjölskyldunnar. Sérhæfir sig í að vinna með pörum og foreldrum sem eiga von á barni út frá tengslameðferð og í parameðferð.
  • Iðjuþjálfun Heimastyrkur: býður upp á ráðgjöf, þjálfun og fræðslu fyrir einstaklinga á öllum aldri, fyrirtæki, félagasamtök, sveitarfélög og stofnanir. Þar starfar Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir iðjuþjálfi sem hefur víðtæka þekkingu og reynslu innan félags- og heilbrigðisþjónustu.
  • Janus heilsuefling: Janus heilsuefling er ráðgjafa- og þjónustufyrirtæki sem vinnur að bættri heilsu og betri lífsgæðum eldri borgara.
  • Lex familia: fjölskyldumeðferð til að takast á við margvíslegan vanda sem upp geta komið i fjölskyldum eða hjá einstaklingum ásamt lögfræðiaðstoð sem lítur að fjölskyldurétti þegar tekist er á um ýmis álitarefni sem upp geta komið í samskiptum fólks.
  • Málstöðin: Málstöðin er talþjálfunarstofa þar sem boðið er upp á greiningu, ráðgjöf og þjálfun vegna tal- og málmeina. Ragnheiður Dagný Bjarnadóttir talmeinafræðingur er eigandi Málstöðvarinnar.
  • Míró markþjálfun og ráðgjöf: sinnir ADHD,- einhverfurófs,- og fjölskyldu markþjálfun ásamt þroskaþjálfun,ráðgjöf og fræðslu fyrir sveitafélög og fyrirtæki.
  • Parkinsonsamtökin á Íslandi: hlutverk Parkinsonsamtakanna er að aðstoða sjúklinga og aðstandendur við að leysa úr þeim vanda og erfiðleikum sem sjúkdómnum fylgja.
  • Sen ráðgjöf: sérhæfir sig í ráðgjöf, skólaforðun, markþjálfun og fræðslu fyrir börn, ungmenni, fullorðna, fjölskyldur og hópa, ásamt sáttamiðlun í forsjár- og umgengismálum, skilnaðarmálum og öðrum ágreining sem kann að koma upp innan fjölskyldna.
  • Sorgarmiðstöð: Sorgarmiðstöð sinnir fræðslu og ráðgjöf til syrgjenda og þeirra sem vinna að velferð þeirra.
  • Skógarhjarta: heildræn meðferðarstofa þar sem boðið er upp á líkamsmiðaða sál og -áfallameðferð ásamt höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð.
  • Tengslamat: Hjá Tengslamati starfar Ragnheiður Björg Guðmundsdóttir félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur og PhD. nemi við Háskóla Íslands. Hún heldur m.a. námskeið fyrir fagfólk sem starfar með börnum.
  • Yogahúsið: býður upp á Kundalini jóga, Jóga Nidri, stök námskeið í hugleiðslu, jóga gegn kvíða, streitu og kulnun ásamt einkatímum í jóga og slökun.
  • Örmælir: frumkvöðlafyrirtæki sem þróar tæki fyrir vísindamenn í heilbrigðisrannsóknum.

 

Ábendingagátt