Samningur um kaup á St. Jósefsspítala undirritaður

Fréttir

Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar og Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra skrifuðu í dag undir samning um kaup Hafnarfjarðarbæjar á 85% eignarhlut ríkisins í aðalbyggingu St. Jósefsspítala. Fyrir átti Hafnarfjarðarbær 15%.

  • Hafnarfjarðarbær kaupir aðalbyggingu St. Jósefsspítala af ríkinu
  • Almannaþjónusta verður aftur starfrækt í húsinu
  • Starfshópur um framtíð hússins stofnaður á vegum bæjarins

Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar og Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra skrifuðu í dag undir samning um kaup Hafnarfjarðarbæjar á 85% eignarhlut ríkisins í aðalbyggingu St. Jósefsspítala. Fyrir átti Hafnarfjarðarbær 15%.

Við kaupin skuldbindur Hafnarfjarðarbær sig til að reka almannaþjónustu í húsinu að lágmarki í 15 ár frá undirritun samnings. Með almannaþjónustu er átt við starfsemi í félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, menningar- eða fræðslustarfsemi eða annarri sambærilega þjónustu sem almenningur sækir í sveitarfélaginu. Hafnarfjarðarbær skuldbindur sig jafnframt til að hefja rekstur í fasteigninni innan 3 ára frá undirritun samnings. Kaupverð er 100 milljónir króna og húsið verður afhent 15. ágúst 2017. Verðið endurspeglar fyrirhugaða nýtingu hússins í almannaþágu. Þá er í samningnum ákvæði um hærra verð verði horfið frá þeim áformum.

Starfshópur um framtíð St. Jósefsspítala var skipaður á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar  í gær 29. júní og mun hann kortleggja möguleika og leggja fram tillögu að framtíðarnýtingu húsnæðisins fyrir 10. október n.k. Starfshópinn skipa þau Guðrún Berta Daníelsdóttir, Sigríður Björk Jónsdóttir, Karl Guðmundsson og Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir. Starfsmaður og verkefnastjóri hópsins er Sigríður Kristinsdóttir, sviðsstjóri Stjórnsýslusviðs Hafnarfjarðarbæjar og bæjarlögmaður.

Hópmynd fyrir utan Bungalow - undirritun kaupsamnings St.JóBæjarfulltrúar Hafnarfjarðarbæjar og fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis hér með ráðherra og bæjarstjóra fyrir utan Bookless Bungalow eftir undirritun kaupsamnings.

„St. Jósefsspítali hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir íbúa og aðra velunnara Hafnarfjarðarbæjar. Mikill vilji er fyrir því að koma húsnæði í gott lag og í notkun sem fyrst. Fjölmargir aðilar hafa þegar sýnt húsnæðinu áhuga bæði til tímabundinna verkefna og til framtíðar litið. Nýskipaður starfshópur mun fá allar hugmyndir og fyrirspurnir inn á borð til sín og marka línurnar,“ segir Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri.

„Við fögnum því að þessu sögufræga húsi verði sýndur fullur sómi og fundið nýtt hlutverk og að ríkið og Hafnarfjarðarbær hafi náð samkomulagi um fyrirkomulag sem tekur tillit til hagsmuna beggja,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra.

Engin starfsemi hefur verið í St. Jósefsspítala frá því að honum var lokað við árslok 2011. Viðræður við sveitarfélagið hafa staðið yfir síðan með hléum. Ítarlegar kannanir hafa farið fram á möguleikum til nýtingar á eignunum á vegum ríkisins, en án árangurs. Fjármála- og efnahagsráðuneytið tók yfir umsjón með spítalanum árið 2014 frá velferðarráðuneytinu. Heimild hefur verið í fjárlögum síðan árið 2013 fyrir sölunni.

Ábendingagátt