Sandur, salt og mörgæsaganga

Fréttir

Mikil hálka er á götum, göngustígum og bílaplönum út um allan bæ. Dagurinn var tekinn mjög snemma hjá þjónustumiðstöð Hafnarfjarðarbæjar sem er á vakt við söltun og söndun þegar svona viðrar. Nú þegar vetur konungur er allsráðandi er mikilvægt að gæta að sér í hálkunni. Förum varlega og sýnum tillitsemi í umferðinni.

Mörgæsagangur er gæfuspor í hálkunni

Mikil hálka er á götum, göngustígum og bílaplönum út um allan bæ. Dagurinn var tekinn mjög snemma hjá þjónustumiðstöð Hafnarfjarðarbæjar sem er á vakt við söltun og söndun þegar svona viðrar. Nú þegar vetur konungur er allsráðandi er mikilvægt að gæta að sér í hálkunni. Förum varlega og sýnum tillitsemi í umferðinni.

Saltkistur og sandur

Salt og sandur geta komið sér vel eins og spáin er næstu daga. Íbúar geta nálgast hvorutveggja sand og salt hjá þjónustumiðstöðinni að Norðurhellu 2. Íbúar eru hvattir til að hafa með sér ílát en einnig er mögulegt að fá poka á staðnum og þar eru skóflur sem íbúar geta haft afnot af. Körin eru alltaf fyllt í lok dags. Saltkistur eru einnig staðsettar víða í bænum þannig að íbúar sjálfir geti bætt öryggið enn frekar á gönguleiðum og í heimkeyrslum í sínu nærumhverfi.

Saltkistur eru staðsettar á eftirfarandi stöðum:

  • Dalshlíð/Efstahlíð
  • Smárahvammur
  • Kirkjuvegur/Hellisgata
  • Krosseyrarvegi
  • Öldugata
  • Lindarberg
  • Klukkuberg
  • Kríuás
  • Framan við Fjörð

Galdurinn að líkja eftir göngulagi mörgæsarinnar

Broddar gera sitt gagn í hálkunni en sumir segja að galdurinn í hálkunni sé að líkja eftir göngulagi mörgæsarinnar. Mörgæsin er notuð víða um heim til að útskýra rétta göngulagið í hálku og þá er gott að hafa eftirfarandi í huga:

  • Halla sér fram og hafa hnén örlítið bogin
  • Taka stutt skref í einu niður á flatan fót
  • Láta líkamsþungann hvíla allan á fremri fæti í hverju skrefi
  • Hafa hendur slakar en aðeins út frá síðum til að hjálpa jafnvæginu
  • Stíga niður en ekki fram af gangstéttabrúnum

Nánari upplýsingar um snjóhreinsun og hálkuvarnir

Ábendingagátt