Sjósund og sauna á Langeyrarmölum á áramótunum

Fréttir Jólabærinn

Sjósundsunnendur geta kvatt gamla árið og fagnað nýju á nýstárlegan hátt þetta árið. Sauna-klefi verður við Langeyrarmalir á gamlárs- og nýársdag.

Sauna eftir sjósundið um áramótin

Sjósundsunnendur geta kvatt gamla árið og fagnað nýju á nýstárlegan hátt þetta árið. „Við setjum upp sauna-klefa á Herjólfsgötunni við Langeyrarmalir svo fólk geti hlýjað
sér eftir sjóbaðið, allt í samstarfi við heilsubæinn Hafnarfjörð,“ segir Freyja Auðunsdóttir, markaðs– og kynningarstjóri rótgróna hafnfirska fyrirtækisins Trefja. „Þetta verður einstök upplifun.“

Fyrirtækið Trefjar er þekktast fyrir bátasmíði sína og heitu pottana. Finna má Cleópötru-hraðfiskibátana þeirra víða í höfnum. Ekki vita þó allir að fjögur systkini reka fyrirtækið sem stofnað var af foreldrum þeirra Auðuni N. Óskarssyni og Önnu Margréti Ellertsdóttur.

Freyja Auðunsdóttir, markaðsstjóri Trefja.

 

„Það er auðvelt að ímynda sér hvað rætt hefur verið um við matarborðið alla tíð,“ segir Freyja og hlær. Þetta nærri fimmtuga fyrirtæki hefur alltaf verið staðsett í Hafnarfirði og hefur samhliða bátunum einnig smíðað heita potta af öllum stærðum og gerðum.

„Það kemur fólki alltaf jafn mikið á óvart að pottarnir séu framleiddir hér í Hafnarfirði en ekki utan landsteinanna. En þannig hefur það verið í næstum fjörutíu ár,“ segir
Freyja og bætir við að nú selji þau einnig saunur af ýmsum gerðum enda æ fleiri að uppgötva góð áhrif þeirra á heilsuna.

„Sjór og sauna, eða bara sauna… Við bíðum spennt eftir viðtökunum. Með þessu erum við svona að kinka kolli til Hafnfirðinganna okkar.“

 

Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa:

Jólablaðið má nálgast í á öllum okkar söfnum og sundlaugum. Líka í þjónustuveri. Já, það bíður eftir þér. 

 

Ábendingagátt