Sjöundi Grænfáninn

Fréttir

Á árlegri sumarhátíð á leikskólanum Norðurbergi fékk leikskólinn afhentan Grænfánann í sjöunda skiptið fyrir viðurkenningu á umhverfisstefnu leikskólans. Fulltrúi frá Landvernd, Katrín Magnúsdóttir, afhenti Umhverfisráði barna fánann. 

Laugardaginn 4. júní, á sjálfri sjómannadagshelginni, var
líf og fjör í góða veðrinu í leikskólanum Norðurbergi. Árleg sumarhátíð var í
leikskólanum og að auki fékk leikskólinn afhentan Grænfánann í sjöunda skiptið fyrir
viðurkenningu á umhverfisstefnu leikskólans. Fulltrúi frá Landvernd, Katrín
Magnúsdóttir, afhenti Umhverfisráði barna fánann og gengu þau, ásamt gestum,
fylgtu liði að fánastöng leikskólans og hífðu fánann upp. Margt var um
manninn og naut hópurinn sín í veðurblíðunni enda margt í boði s.s.  tónlist, myndlist, vöfflur og gróðursetning.

Lágmarka notkun á plasti í daglegu lífi

Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar um allan heim sem tákn um góða umhverfismennt og umhverfisstefnu í skólum. Fánann fá
skólar í kjölfar verkefna sem eru ætluð til að efla vitund nemenda, kennara og
fjölskyldna um umhverfismál. Í vetur vann leikskólinn með þemað „Neysla/Plastneysla“. Markmið verkefnsins var að lágmarka alla
notkun á plasti í daglegu lífi og gera börn og fullorðna meðvitaðri um
skaðsemi þess fyrir umhverfið.  Allir aldurshópar unnu í margs konar verkefnum
yfir veturinn.  Starfsmenn elstu barnanna fóru í
samstarf við heimili barnanna með lítið heimaverkefni. Öll börnin fengu gefins
fjölnota innkaupapoka (þökk sé Sorpu) og fóru með hann heim ásamt lýsingu fyrir
foreldrana í hverju verkefnið fælist. Þau áttu að safna öllu plasti sem kæmi
inn á heimilið í þrjá daga og setja í pokann og koma með hann í leikskólann á
fjórða degi. Hópurinn hittist, fór yfir það sem kom í pokann og tróðu því í plexiglerkassa
öllum til sýnis. Herlegheitin voru vigtuð og komist að því að hver fjölskylda
skilar frá sér rúmlega 29 kg. af plasti á ári hverju! Í leikskólanum eru 137
fjölskyldur og þessar fjölskyldur láta því frá sér samanlagt u.þ.b. 4 tonn af plasti á
ári!  Mjög há tala og sérlega í ljósi þess að plast eyðist ekki í jarðvegi og
er veruleg ógnun við lífríkið og náttúruna.  Hluti af verkefni vetrarins var að
ræða hvað gæti komið í staðinn fyrir plast og hvort alltaf þyrfti að nota plast. Þeir sem unnu í verkefninu komust að því að margt væri hægt að gera til að
sporna við plastmagninu, nota t.d. fjölnota innkaupapoka, sleppa því að setja grænmeti og ávexti í plastpoka, valið vörur eftir
magni umbúða og með því að setja plastið í endurvinnslu og reyna að endurnýta
sem mest af því plasti sem kemur með neysluvörum. 

Ábendingagátt