Skarðshlíðarskóli og Lækjarskóli fá styrk úr Sprotasjóði

Fréttir

Sprotasjóður styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá viðkomandi skólastiga. Á dögunum var úthlutað úr sjóðnum og hljóta alls 42 verkefni styrki að þessu sinni og er samstarfsverkefni Skarðshlíðarskóla og Lækjarskóla um altæka hönnun náms (UDL) eitt þeirra verkefna sem hlaut styrk. Áherslusvið sjóðsins að þessu sinni eru á lærdómssamfélög skóla og drengi og lestur.

Sprotasjóður styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá viðkomandi skólastiga. Á dögunum var úthlutað úr sjóðnum og hljóta alls 42 verkefni styrki að þessu sinni og er samstarfsverkefni Skarðshlíðarskóla og Lækjarskóla um altæka hönnun náms (UDL) eitt þeirra verkefna sem hlaut styrk.  Áherslusvið sjóðsins að þessu sinni eru á lærdómssamfélög skóla og drengi og lestur.

Altæk hönnun náms – upplýsingar um verkefnið 

Altæk hönnun náms, Universal design for learning, hér kallað UDL er aðferðafræði sem byggð er á rannsóknum David Rose (Boston Harvard, 1984). Aðferðin er þekkt í Bandaríkjunum og víðar og er meðal annars notuð í öllum ríkisskólum í Boston. Helstu markmið UDL eru að greina hindranir í námsumhverfinu og fella þær þannig að komið sé til móts við alla nemendur á þeirra forsendum. Litið er svo á að hindranirnar séu í umhverfinu en ekki hjá nemandanum. Aðferðafræðin nær til allra nemenda, styður við skóla án aðgreiningar og stuðlar að auknum jöfnuði. Ein af ástæðum þess að stjórnendur Skarðshlíðarskóla og Lækjarskóla tóku þá ákvörðun að innleiða UDL er sú að þeir vilja efla lærdómssamfélag skólanna, samfélag þar sem allir koma að borðinu. UDL gengur meðal annars út á að kennarar deili hugsjónum og gildum með faglegri ígrundun og samstarfi ásamt því að gera nemendur meðvitaða um eigið nám, auka ábyrgð þeirra á eigin námi og gera aðra í samfélaginu meðvitaða um það sem á sér stað innan skólanna og veita þeim möguleika á að hafa áhrif á það.

Markmiðið er að innleiða UDL aðferðarfræðina í skólasamfélögum Lækjarskóla og Skarðshlíðarskóla. Eftir á að marka nánar hvaða þættir í verkefni verða teknir fyrir þar sem ekki fékkst fullur styrkur í verkefni heldur einungis hluti. 

Meðal mögulegra aðgerða:

  • Kenna starfsfólki aðferðarfræði UDL
  • Efla fagmennsku kennara með auknum stuðningi þeirra við hvern annan með það að markmiði að bæta nám og líðan nemenda
  • Finna ljósbera í starfsmannahópnum sem eru tilbúnir að taka að sér að leiða verkefnið, prófa sig áfram og smita aðra með áhuga sínum og árangri
  • Vinna með kennurum að því að nota fjölbreyttari aðferðir við að ná hæfniviðmiðum og gefa nemendum aukið val um hvernig þeim er náð
  • Finna og greina hindranir í námsumhverfi nemenda
  • Virkja nemendur í að hafa áhrif á eigið nám
  • Gera nemendur meðvitaða um hvernig þeir læra og hvaða leiðir í námi hentar þeim best
  • Gera nemendur ábyrga fyrir námi sínu
  • Kynna og gera foreldra og aðra í skólasamfélaginu meðvitaða um út á hvað UDL gengur, hvaða aðferðir eru notaðar og árangurinn sem af aðferðunum hlýst.

Með UDL að leiðarljósi er stefnt að því að koma enn betur til móts við þarfir, þroska og getu nemenda sem vonandi leiðir af sér betri líðan og námsárangur. Rík áhersla er lögð á að virkja nemendur í eigin námi, að þeir séu meðvitaðir um eigin styrkleika, að þeir hafi áhrif á nám sitt og séu ábyrgir fyrir að koma því til skila á þann hátt er þeim þykir best. Foreldrar og aðrir í skólasamfélaginu eru teknir með inn í þetta umbótaverkefni á fjölbreyttan hátt, með samtali, upplýsingafundum og könnunum. Áætlaður tími fullrar innleiðingar er 5-7 ár. 

Ábendingagátt