Skarðshlíðarskóli vinnur listaverkasamkeppni EPO

Fréttir

Fræðslustarf um sjálfbærni í tengslum við tækni, listir eða nýsköpun með vinningsverkið sem ber heitið Vinátta.

Fræðslustarf um sjálfbærni í tengslum við tækni, listir eða nýsköpun

Nemendur Skarðshlíðarskóla í Hafnarfirði eru meðal sigurvegara í listaverkasamkeppni Evrópsku einkaleyfastofunnar (European Patent Office, EPO) sem haldin var í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá undirritun evrópska einkaleyfasamningsins. Verðlaun til íslensku sigurvegaranna voru afhent við hátíðlega athöfn hjá Hugverkastofunni í morgun að viðstöddum nokkum nemendur, foreldrum og starfsfólki skólans. Þau voru þar í góðum félagsskap Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hans hátignar Willem-Alexander, konungs Hollands, Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og fleiri.

Verðlaunin afhent á 50 ára afmælishátíð Evrópska einkaleyfasamningsins

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar veitti fulltrúum nemendahópsins viðurkenningarskjal í húsakynnum Hugverkastofunnar í morgun. Verðlaunaafhendingin var send út í beinni útsendingu til höfuðstöðva EPO í Munchen þar sem hún var liður í viðamikilli afmælisdagskrá. Bein útsending var einnig frá Haag í Hollandi þar sem hans hátign Willem-Alexander, konungur Hollands, veitti sambærileg verðlaun og frá Pnom Penh þar sem iðnaðarráðherra Kambódíu veitti varðlaun. Fjórði nemendahópurinn var frá Munchen og fékk sín verðlaun afhent þar.  Ísland gerðist Ísland aðili að Evrópska einkaleyfasamningnum (EPC – European Patent Convention árið 2004. Aðildarríki samningsins eru alls 39 ríki í Evrópu og þau reka í sameiningu Evrópsku einkaleyfastofuna. Hugverkastofan á fulltrúa í fjölda nefnda og ráða á hennar vegum, m.a. fjármála-, laga- og tækninefndum sem og framkvæmdaráði. Forstjóri Hugverkastofunnar hefur verið varaformaður framkvæmdaráðsins frá árinu 2019 og var í árslok 2021 endurkjörin til næstu 3ja ára.

Vinningsverk Skarðshlíðarskóla heitir Vinátta

Vinningsverkið frá Skarðshlíðarskóla á Íslandi heitir Vinátta og var unnið í myndmennt veturinn 2019-2020 af öllum nemendum Skarðshlíðarskóla undir stjórn Hafdísar Baldursdóttur, myndmenntakennara. Hafdís lýsir verkinu svo: „Hver og einn nemandi gerði Origami kassa, botn og lok, límdi saman og vann svo mynd úr pappírsafgöngum sem límd var á lokið. Kassinn var gerður úr blaðsíðum úr gömlum landakortabókum sem átti að henda. Allir kassarnir voru svo límdir saman í eitt stórt listaverk.“  Hún segir að verkið hangi nú uppi á vegg í húsnæði skólans, skólanum til prýði og gestum og gangandi til ánægju. Alls sendu 3612 nemendur í 56 skólum frá 19 löndum inn listaverk í keppnina, en þema hennar var tækni, listir og nýsköpun. Auk viðurkenningarskjalsins hljóta vinningsskólarnir 3.000 evrur, jafnvirði um 450.000 króna, til að nota við fræðslustarf um sjálfbærni í tengslum við tækni, listir eða nýsköpun.

Ábendingagátt