Skrásetti meðal annars heimili langömmu sinnar

Fréttir

Öll þekkjum við náttúrudýrðina í bæjarlandi Hafnarfjarðar. Á þessu svæði sem að miklu leyti er byggt á hrauni leynast fornminjar sem eru misjafnlega áberandi en allar merkilegar og tengdar sögu bæjarins. Byggðasafn Hafnarfjarðar hefur í mörg ár skráð og kortlagt fornminjar í bænum og þá er miðað við það sem er 100 ára og eldra.

Öll þekkjum við náttúrudýrðina í bæjarlandi Hafnarfjarðar. Á þessu svæði sem að miklu leyti er byggt á hrauni leynast fornminjar sem eru misjafnlega áberandi en allar merkilegar og tengdar sögu bæjarins. Byggðasafn Hafnarfjarðar hefur í mörg ár skráð og kortlagt fornminjar í bænum og þá er miðað við það sem er 100 ára og eldra. Bæjarblaðið Hafnfirðingur  ræddi við fornleifafræðinginn Atla Rúnarsson sem hefur sinnt þessari kortlagningu fyrir safnið síðan í ágúst í fyrra.

Atli2Bakgarður Herjólfsgötu 38 og 40 er stórmerkilegur. Mynd/OBÞ

Fyrir aftan Herjólfsgötu 38 og 40 stóð bærinn Eyrarhraun sem byggður var 1904 og brann til kaldra kola eftir íkveikju árið 2005, eftir að hafa staðið þar mannlaus í eitt ár. Eyrarhraun hafði mikið menningarsögulegt gildi og þar bjó um skeið Stefán Júlíusson, höfundur bókanna um Kára litla og Lappa og hann hefur einnig ritað sögu þurrabæjanna á þessu svæði. Í dag sést aðeins grunnur hússins þar sem það stóð en við hlið hans er niðurgrafin geymsla og skammt frá fallega hlaðinn túngarður og landamerki. 

Notast m.a. við dróna, þrívíddarlíkön og hitamyndavél

„Ég er að vinna að heildarskráningu fornleifa í sveitarfélaginu en það er einmitt hluti af aðalskipulagi bæjarins. Fornleifaskráning er í rauninni kortlagning fornminja og er mikilvægur hluti af verndun menningararfsins, enda getum við ekki verndað það sem við vitum ekki um. Fornleifaskráning er líka nauðsynleg í skipulagsmálum og samkvæmt lögum um menningarminjar verður fornleifaskráning að fara fram áður en deiliskipulög eru samþykkt,“ segir Atli. Áður en eiginleg fornleifaskráning á vettvangi á sér stað sé leitað heimilda um byggð á svæðinu sem verið er að skrá, t.d. sýslu- og sóknarlýsingar, gömul kort og örnefnaskrár. Svo sé farið á vettvang með GPS mælitæki og nákvæmar mælingar gerðar af minjunum.

„Svo er líka stanslaus tækniþróun í þessu eins og öllu öðru. Fólk hefur verið að prófa sig áfram með nákvæmum þrívíddarlíkönum sem eru gerð með dróna og með hitamyndavélum. En það er spurning hversu vel það myndi ganga í hrauninu hérna í Hafnarfirði, það væri samt áhugavert að prófa það.“

Atli3Fornminjar við Þorbjarnarstaði við Straumsvík.

Verður aðgengilegt á Kortavef bæjarins

Atli segir að Eyrarhraun sé aðeins eitt dæmi um fjölda minja sem fundist hafa í bæjarlandi Hafnarfjarðar. „Það var búið að skrá mikið áður en ég kom til starfa, en skráningarstaðlar voru uppfærðir 2012 og eru orðnir nákvæmari. Þess vegna voru margar af eldri skráningunum orðnar úreltar og því þurfti að skrá mikið upp á nýtt. Fyrri skráningarnar voru gerðar hér og þar í bænum í kringum deiliskipulög en við erum núna að fara mjög skipulega í verkefnið, skiptum bænum upp í tólf svæði og erum að vinna okkur í gegnum þau, ég er að leggja lokahönd á sjöunda svæðið sem er Setbergið. Skráðar minjar eru nú að verða í kringum 750 og flestar af þeim er að finna í eldri hluta bæjarins og á gömlu bújörðunum hér í kringum bæinn sem hafa að mestu fengið að standa óhreyfðar, eins og á Óttarsstöðum, Lónakoti og Þorbjarnarstöðum. Ég skrifa svo skýrslu um hvert svæði þar sem er smá sögulegt yfirlit yfir hvert svæði, elstu heimildir og þess háttar, og í þeim er skrá yfir fornminjarnar á svæðinu. Þetta eru rit sem getur verið gaman að fletta í gegnum og fólk fundið aðgengilegar upplýsingar um minjar í sínu nærumhverfi.“ Spurður segir Atli að allar skráningar muni á endanum verða birtar á Minjavefsjá Minjastofnunar Íslands og Kortavef Hafnarfjarðarbæjar. Skýrslurnar verði aðgengilegar á vef safnsins: www.byggdasafnid.is

Atli4

Geymsla sem var við bæinn Eyrarhraun, sem nefndur er í byrjun viðtalsins. Mynd/OBÞ

Heppinn að vinna við það sem brennandi áhugi er á

Elsta bújörð sem vitað er um í Hafnarfirði er Hvaleyri en þar fundust við framkvæmdir minjar frá landnámsöld, kolagröf, frá því í kringum árið 900. „Nýrri fornminjar eru t.d. fiskreitir og hleðslur hérna í bænum. Flestar minjarnar eru hlaðnar úr grjóti úr hrauninu enda nóg til af því,“ segir Atli. Spurður segir hann ekkert hafa svo sem komið á óvart í þessari vinnu, enda sé hann menntaður fornleifafræðingur og því heillandi námi fylgi mikil vettvangsvinna. „Mér finnst ég fyrst og fremst heppinn að fá að vinna við það sem ég hef brennandi áhuga á. Það er gefandi að geta ekki aðeins skrásett minjar og sögustaði bæjarins heldur líka gert þessar upplýsingar aðgengilegar fyrir alla sem áhuga hafa. Mér finnst ég líka tengjast þessu verkefni sérstökum böndum þar sem langamma mín, Elín Friðfinnsdóttir, ólst upp á bænum Óttarsstöðum, sem er einmitt einn af þeim stöðum sem ég hef skrásett.“

Spurður að lokum hvort líklegt sé að fleiri fornminjar gæti verið að finna í Hafnarfirði sem ekki hafi verið vitað um, segir Atli: “Við fornleifaskráningu finnst alltaf eitthvað “nýtt” en skráningin nær bara til þess sem sést á yfirborðinu og til eru heimildir um og er engan veginn tæmandi. Sumar minjar eru þannig í eðli sínu að það skiptir máli á hvaða árstíma maður mætir og það getur alltaf ýmislegt leynst undir sverði líka.“

Atli5Hleðslur sem þessar, sem gerðar eru úr hrauninu, eru algengar í Hafnarfirði. Mynd/OBÞ

Ábendingagátt