Snjómokstur gengur nokkuð vel

Fréttir

Mikið magn af snjó féll á höfuðborgarsvæðinu um helgina með tilheyrandi áhrifum á færð og ferðir um bæinn. Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar og verktakar unnu að snjómokstri frá kl. 04:30 bæði laugardag og sunnudag fram eftir degi og eru enn að. Líklegt er þó að gul veðurviðvörun sem í kortunum er muni hafa áhrif á færð. Okkar fólk er á vaktinni.

19 snjómoksturtæki á ferðinni í Hafnarfirði um helgina

Mikið magn af snjó féll á höfuðborgarsvæðinu um helgina með tilheyrandi áhrifum á færð og ferðir um bæinn. Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar og verktakar unnu að snjómokstri frá kl. 04:30 bæði laugardag og sunnudag fram eftir degi og eru enn að. Líklegt er þó að gul veðurviðvörun sem í kortunum er muni hafa fljótt aftur áhrif á færð. Okkar fólk er á vaktinni.

Mokað í takti við fyrirfram skilgreinda forgangsröðun

Mokað er í takti við forgang og alltaf lögð áhersla á að halda stofnleiðum og safnbrautum opnum. Vel gekk á moka til að byrja með á laugardaginn en um leið og bætti í vind þá þurftu tæki frá að hverfa úr hverfum bæjarins til að moka að nýju leiðir í forgangi 1. Mokstur gekk vel fyrir sig í gær sunnudag og það sem ekki kláraðist um helgina verður klárað í dag og á morgun. Strætóleiðir og stofngötur eru greiðfærar og unnið að hreinsun í húsagötum og á gönguleiðum. Mokstri á plönum hjá skólum og stofnunum bæjarins og helstu gönguleiðum er að mestu lokið og verður unnið að frekari hreinsun í dag og næstu daga eða eftir því sem veður leyfir.

Almennt um snjómokstur í Hafnarfirði

Nú þegar fyrsti snjórinn hefur fallið þennan veturinn er rétt að fara yfir framkvæmd og fyrirkomulag vegna snjómoksturs almennt í Hafnarfirði. Á veturna þegar snjóar mikið eða hálka myndast er reynt að bregðast við sem fyrst til að halda umferð gangandi. Þjónustumiðstöð Hafnarfjarðar sér um snjómokstur og hálkuvarnir og er með vaktir á tímabilinu 15. október–15. apríl og að jafnaði reynt að halda góðri þjónustu á götum og stígum frá kl. 7:30–22 (fer eftir forgangi) en veður stýrir þjónustutímanum. Verktakar eru kallaðir til þegar þarf á álagstíma. Götum er skipt upp í forgangsröðun – veður og aðstæður stýra svo hversu vel moksturinn gengur:

  • Forgangur 1 – aðalgötur, strætóleiðir og stofngötur
  • Forgangur 2 – leiðir að skólum, leikskólum, safngötur og milligötur
  • Forgangur 3 – húsagötur og botngötur

Upplýsingar um snjómokstur og forgangsleiðir – Snjór og hálka | Hafnarfjörður (hafnarfjordur.is)

Gul veðurviðvörun í dag og á morgun

Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að frá og með kl. 12 í dag til og með kl. 12 á morgun þriðjudaginn 20. desember spáir Veðurstofa Íslands gulri veðurviðvörun með norðaustan 13-20 m/s hvassviðri og talsverðum skafrenningi. Hvassast verður á Kjalarnesi, þar sem búast má við vindhviðum að 30 m/s. Skyggni gæti verið lélegt með köflum sem getur valdið ökumönnum erfiðleikum og líklegt að vindur hafi áhrif á færð á vegum og stígum – vedur.is | Viðvaranir | Veðurstofa Íslands

Sorphirða á eftir áætlun

Síðustu dagar hafa verið snjóþungir í Hafnarfirði með tilheyrandi áhrifum sorphirðu sem er nú orðin nokkrum dögum á eftir áætlun. Íbúar eru hvattir til að moka frá sorpgeymslum sínum til að greiða leið sorphirðufólks að gráu og bláu tunnunum þannig að hægt sé að tryggja að þær séu tæmdar á réttum tíma. Ef aðgengi að tunnunum er ekki greiðfært eru tunnurnar ekki tæmdar fyrr en við næstu losun.

Upplýsingar um sorphirðu eftir hverfum – Sorphirða | Hafnarfjörður (hafnarfjordur.is)

Ábendingagátt