Snjómokstur og hálkuvarnir ganga vel en hægt fyrir sig

Fréttir

Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar og allir verktakar sem á samningi eru hjá sveitarfélaginu fóru af stað með snjómokstur og hálkuvarnir kl. 4 í nótt. Unnið er að mokstri í öllum hverfum bæjarins og gengur vinnan vel en hægt þar sem snjórinn er blautur og þungur.  Íbúar eru vinsamlega beðnir um að moka frá sorpgeymslum sínum.

Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar og allir verktakar sem á samningi eru hjá sveitarfélaginu fóru af stað með snjómokstur og hálkuvarnir kl. 4 í nótt. Unnið er að mokstri í öllum hverfum bæjarins og gengur vinnan vel en hægt þar sem snjórinn er blautur og þungur. Litlir skaflar eru víða á götum þannig að smærri bílar gætu átt í erfiðleikum með að komast leiðar sinnar í upphafi dags og eitthvað fram eftir degi. Íbúar eru vinsamlega beðnir um að moka frá sorpgeymslum og greiða leið sorphirðufólks að gráu og bláu tunnunum þannig að hægt sé að tryggja tæmingu.

Helstu ástæður fyrir því að ekki er hægt að losa sorpílát:

  • Ekki búið að moka frá sorpílátum
  • Ekki búið að moka og salta/sanda greiða leið út að götu
  • Sorpílát frosin föst við jörðina
  • Frosnar hurðar og ekki hægt að opna þær upp á gátt
  • Frosnir lásar að sorpgeymslum og -gerðum
  • Bílar fyrir sem hefta aðgengi starfsfólks og hirðubíls
  • Rangt flokkað í sorpílát
  • Sorpílát brotin eða vantar hjólabúnað

Mokað í takti við fyrirfram skilgreinda forgangsröðun

Mokað er í takti við forgang og alltaf lögð áhersla á að halda stofnleiðum og safnbrautum opnum. Strætóleiðir og stofngötur eru greiðfærar og unnið að hreinsun í húsagötum og á gönguleiðum. Mokstri á plönum hjá skólum og stofnunum bæjarins og helstu gönguleiðum er að mestu lokið og verður unnið að frekari hreinsun í dag og næstu daga eða eftir því sem veður leyfir.

Almennt um snjómokstur í Hafnarfirði

Á veturna þegar snjóar mikið eða hálka myndast er reynt að bregðast við sem fyrst til að halda umferð gangandi. Þjónustumiðstöð Hafnarfjarðar sér um snjómokstur og hálkuvarnir og er með vaktir á tímabilinu 15. október–15. apríl og að jafnaði reynt að halda góðri þjónustu á götum og stígum frá kl. 7:30–22 (fer eftir forgangi) en veður stýrir þjónustutímanum. Verktakar eru kallaðir til þegar þarf á álagstíma. Götum er skipt upp í forgangsröðun – veður og aðstæður stýra svo hversu vel moksturinn gengur:

  • Forgangur 1 – aðalgötur, strætóleiðir og stofngötur
  • Forgangur 2 – leiðir að skólum, leikskólum, safngötur og milligötur
  • Forgangur 3 – húsagötur og botngötur

Upplýsingar um snjómokstur og forgangsleiðir

Upplýsingar um sorphirðu

Ábendingagátt