Snjómoksturstækin tilbúin – Gul veðurviðvörun

Fréttir

Búist er við miklum snjó á höfuðborgarsvæðinu þegar kvölda tekur með tilheyrandi áhrifum á færð og ferðir um bæinn.

Snjómokstursvélar í viðbragðsstöðu

Búist er við fannfergi þegar líður á kvöld á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi áhrifum á færð og ferðir um bæinn. Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar og verktakar eru í viðbragðsstöðu. Mokað er í takti við forgang. Alltaf er lögð áhersla á að halda stofnleiðum og safnbrautum opnum.

Almennt um snjómokstur í Hafnarfirði

Nú þegar fyrsti snjórinn fellur þennan veturinn er rétt að fara yfir framkvæmd og fyrirkomulag vegna snjómoksturs almennt í Hafnarfirði. Á veturna þegar snjóar mikið eða hálka myndast er reynt að bregðast við sem fyrst til að halda umferð gangandi. Þjónustumiðstöð Hafnarfjarðar sér um snjómokstur og hálkuvarnir og er með vaktir á tímabilinu 15. október–15. apríl og að jafnaði reynt að halda góðri þjónustu á götum og stígum frá kl. 7:30–22 (fer eftir forgangi) en veður stýrir þjónustutímanum. Verktakar eru kallaðir til þegar þarf á álagstíma. Götum er skipt upp í forgangsröðun – veður og aðstæður stýra svo hversu vel moksturinn gengur:

  • Forgangur 1 – aðalgötur, strætóleiðir og stofngötur
  • Forgangur 2 – leiðir að skólum, leikskólum, safngötur og milligötur
  • Forgangur 3 – húsagötur og botngötur

Upplýsingar um snjómokstur og forgangsleiðir – Snjór og hálka | Hafnarfjörður (hafnarfjordur.is)

Íbúar geta aðstoðað við hálkuvarnir til að tryggja öryggi allra. Hægt er að fá sand í Þjónustumiðstöðinni, Norðurhellu 2. Það þarf að koma með sitt eigið ílát, til dæmis margnota poka, fötur eða bala, en á staðnum er sandur og skófla.

Gul veðurviðvörun í dag

Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að frá og með kl. 18 í dag og til hádegis á morgun telur Veðurstofa Íslands líkur á snjókomu eða slyddu, staðbundið talsverð eða mikil úrkoma með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum – vedur.is | Viðvaranir | Veðurstofa Íslands

 

Ábendingagátt