Snyrtileikinn 2022 – Fríkirkjan fær heiðursverðlaunin

Fréttir

Fjöldi viðurkenninga fyrir snyrtileika var veittur við hátíðlega athöfn í Hafnarfirði í gær. Hafnarfjörður er fallegur bær og mikið um fallega garða og snyrtilegar lóðir og áberandi og sýnilegt hversu margir íbúar eru iðnir og áhugasamir um hafa fallegt og snyrtilegt fallegt í kringum sig. Margar ábendingar bárust frá bæjarbúum þegar kallað var eftir ábendingum um snyrtilega og fallega garða fyrr í sumar.

Fallegustu garðarnir, snyrtilegustu fyrirtækin og heiðursverðlaunin 2022

Fjöldi viðurkenninga fyrir snyrtileika var veittur við hátíðlega athöfn í Hafnarfirði í gær. Hafnarfjörður er fallegur bær og mikið um fallega garða og snyrtilegar lóðir og áberandi og sýnilegt hversu margir íbúar eru iðnir og áhugasamir um hafa fallegt og snyrtilegt fallegt í kringum sig. Margar ábendingar bárust frá bæjarbúum þegar kallað var eftir ábendingum um snyrtilega og fallega garða fyrr í sumar. Níu garðar fá viðurkenningu fyrir snyrtileika í ár og tvö fyrirtæki; Andrea á Vesturgötu 8 og HS veitur á Selhellu. Reisulega Fríkirkjan í Hafnarfirði fær heiðursverðlaun Snyrtileikans 2022.

 

Heiðursverðlaun Snyrtileikans 2022 fær Fríkirkjan í Hafnarfirði

Fulltrúar Fríkirkjunnar veita verðlaunum viðtöku úr hendi Guðbjargar Oddnýjar formanns umhverfis- og framkvæmdaráðs

Fallegustu og snyrtilegustu garðarnir 2022

Háabarð 2 – Þessi garður er mjög snyrtilegur og vel hirtur og vekur athygli þegar farið er um Háabarðið. Eigandinn hefur greinilega áhuga á garðrækt og ekki síður grænmetisræktun, því að í beðum voru ræktaðar kartöflur, grænkál og fleiri nytjajurtir.

Einihlíð 8 – Það er afar ánægjulegt að keyra inn Einihlíðina og sjá þennan glaðlega garð sem tekur vel á móti gestum götunnar. Fallegu tóbakshornin allsráðandi að sumri og hádegisblómin í fullum blóma. Í fallegu gróðurhúsi er mikið af fallegum plöntum og greinilega mikill áhugi á ræktun sem smitar frá sér og veitir innblástur og hvatningu.

Furuvellir 21 – Mjög fallegur garður á Völlunum, vel slegnar grasflatir og fjölbreytni í beðum bæði í runnum og fjölærum plöntum. Skemmtilega klippt tré. Vakti strax athygli þegar keyrt var inn Furuvellina.

Klettahraun 23 – Gott dæmi um garð sem hefur orðið glæsilegri með hverju árinu. Garðurinn blasir við þegar gengið er upp göngustíginn frá hraunsvæðinu við Mánastíg og að Klettahrauni. Mikið af grjóti til að taka upp hæðarmun. Falleg ásýnd þegar er horft er frá bílastæði að húsi. Náttúran og hið stórbrotna útsýni myndar skemmtilega umgjörð um þennan garð.

Móabarð 28 – Greinilega mikill og lifandi áhugi á plöntum og garðvinnu og búið að nostra við hvert smáatriði. Fjölbreytt úrval af fjölærum plöntum. Garðinum hefur verið mjög vel við haldið og hefur fengið áður viðurkenningu.

Einihlíð 5 – Hér er að finna falinn fjársjóð og bak við hús blasir við ævintýraveröld. Hver einasti hlutur á sínum stað, allir kantar vel klipptir og nostrað við hvert smáatriði. Það var upplifun að sjá hversu mikill og fjölbreyttur gróður var í þessum garði. Tjörnin svo falleg og gróðurinn speglast í vatninu.

Lækjarhvammur 18 – Falleg aðkoma, einstaklega fjölbreytt og snyrtileg með miklu úrvali plantna. Lítil tjörn í bakgarði með miklu úrval af gróðri, allir kantar klipptir og skornir og gangstéttin sópuð. Mikill áhugi á garðrækt.

Brekkuhlíð 20 – Glæsilegur garður þar sem við blasir fagmennska og tilfinning fyrir formum og rýmum. Þessi litli garður er með ótrúlega fjölbreytt garðrými sem tengjast saman með tröppum sem gegna líka hlutverki setstæði eða búa til flatir fyrir potta eða pullur. Hér fær notagildi og fegurð notið sín og litla gróðurhúsið setur punktinn yfir i-ið

Skipalón 10-12 og 14 – Margar lóðir við Skipalónið eru mjög snyrtilegar og fallegar. Skipalón 5 hefur áður fengið viðurkenningu og núna er það klasinn frá 10-14 sem hlýtur viðurkenningu fyrir snyrtilegan bakgarð með vel sleginni grasflöt og fallegum trjá- og runnabeðum. Aðkoma frá bílastæði er mjög falleg og snyrtileg með fallegum sumarblómum í kerjum. Lítið leiksvæði með rólu. Þessi fjölbýlishúsalóð er til fyrirmyndar.

Myndir frá verðlaunaafhendingu

Snyrtilegustu fyrirtækin 2022

Andrea – Vesturgata 8

Eigendur Artwerk og Andreu hafa gert upp fallegt hús við Vesturgötu 8 á reit Byggðasafns Hafnarfjarðar. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til. Lóðin er ekki stór en verslunin og húsið til mikillar prýði á reitnum og rímar vel við það umhverfi sem það stendur við.

HS veitur – Selhellu

Það er sérstakt ánægjuefni að veita viðurkenningar fyrir frágang lóða á athafna- og iðnaðarsvæðum. Hér er um að ræða tiltölulega nýlegt hús á athafnasvæði og strax við byggingu hússins var farið í að móta lóðina. Hér má sjá gott samtal við umhverfið, grjót og náttúrutorf með starfmannaaðstöðu á myndarlegum palli sem snýr á móti sólu. Bílastæði fyrir rafmagnsbíla og stæði fyrir hjól.

Fjóluhlíð 5-17 og 6-18 er stjörnugatan 2022

Snyrtileg falleg gata í Setberginu með húsabyggð frá árunum 1998-2000. Þessi gata hefur verið falleg um árabil eins og svo margar götur í Setbergshlíðinni. Samstaða íbúa götunnar er mjög sýnileg sem endurspeglast í hreinum og snyrtilegum görðum og fallegum jólaljósum á aðventunni. Gróðurinn er fjölbreyttur og öll götumynd virkilega falleg þar sem gamla góða hekkið stendur vel fyrir sínu. Það er ekki sjálfgefið að íbúar standi svo vel saman og fá íbúar hrós fyrir samstöðuna og fyrir þá hvatningu sem þeir gefa öðrum.

Heiðursverðlaun Snyrtileikans 2022 fær Fríkirkjan í Hafnarfirði

Fríkirkjan í Hafnarfirði fær heiðursverðlaun Snyrtileikans 2022. Kirkjan er reisuleg, stendur hátt uppi og gnæfir yfir bæinn. Hún hefur margþættu hlutverki að gegna, er opin fyrir fjölbreyttri menningarstarfsemi ásamt því að vera griðarstaður þeirra sem þurfa á nærveru, kærleika, hlustun og skilningi að halda. Kirkjan er mikilvægur hlekkur samfélaginu í Hafnarfirði.

Fyrsta kirkja Hafnfirðinga

Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði var stofnaður á Sumardaginn fyrsta árið 1913 og var aðalmarkmiðið með stofnun hans að reisa kirkju í Hafnarfirði sem þá var vaxandi kaupstaður en þá hafði engin kirkja verið í Hafnarfirði um aldir. Fram til þess tíma höfðu Hafnfirðingar átt kirkjusókn að Görðum á Álftanesi og þótti mörgum það löng leið að sækja kirkju. Sumarið 1913 var hafist handa við að reisa þessa fyrstu kirkju Hafnfirðinga og sóttist verkið svo vel að kirkjan var vígð 14. desember sama ár. Fyrsti prestur kirkjunnar var sr. Ólafur Ólafsson sem jafnframt þjónaði Fríkirkjunni í Reykjavík og fyrsti formaður safnaðarstjórnar var Jóhannes Reykdal verksmiðjueigandi hér í Hafnarfirði. Davíð Kristjánsson trésmíðameistari teiknaði kirkjuna og fyrirtækið Dvergur sá um framkvæmdir.

Kirkjan endurnýjuð 1998 og endurvígð sama ár

Árið 1931 fóru fram talsverðar endurbætur á kirkjunni. Turn kirkjunnar var stækkaður og kórinn byggður við og fékk núverandi mynd. Teikningar af kór og turni gerði Guðmundur Einarsson trésmíðameistari. Árið 1982 voru smíðaðar fjórar viðbyggingar við kirkjuna; skrúðhús, anddyri við bakdyr, biðherbergi og snyrting við forkirkju. Teikningar gerði Óli G.H. Þórðarson arkitekt. Umfangsmestu endurbæturnar á kirkjunni fóru svo fram sumarið og haustið 1998. Þá var kirkjan öll endurnýjuð að innan. Kirkjan var þá að nýju klædd með panel og skipt var um gólfefni svo fátt eitt sé nefnt. Umsjón með breytingunum höfðu Þorsteinn Gunnarsson arkitekt og verkfræðistofan Línuhönnun. Verktakar voru fyrirtækið Gamlhús. Kirkjan var endurvígð af biskup Íslands, hr. Karli Sigurbjörnssyni, 13. desember 1998.

Konur virkar í safnaðarstarfinu frá upphafi

Allt frá upphafi voru konur í Fríkirkjusöfnuðinum mjög virkar í safnaðarstarfinu en það liðu hins vegar tíu ár þar til Kvenfélag Fríkirkjunnar í Hafnarfirði var formlega stofnað þann 11. apríl árið 1923. Fyrsta formlega erindi sem barst inn á borð kvenfélagsins var beiðni frá safnaðarstjórn um að borga ,,ljósaleiðinguna” í kirkjunni (þ.e. uppsetningu á ljósum). Erindið var samþykkt samhljóða og allar götur síðan hefur kvenfélagið reynst safnaðarstarfinu ómetanlegur bakhjarl. Á síðari árum hefur kvenfélagið bæði stutt ýmsar framkvæmdir í kirkjunni og safnaðarheimilinu sem og verið helsti stuðningur við barnastarfið. Sögu Bræðrafélags Fríkirkjunnar má rekja aftur til ársins 1930, þegar nokkrir karlmenn í Fríkirkjusöfnuðinum stofnuðu til félagsins í því skyni að styðja og styrkja safnaðarlífið en meginmarkmið félagsins var að koma upp íbúðarhúsi handa presti safnaðarins. Það tókst með miklum myndugleik og þegar það hús var síðan selt árið 1945 var andvirði þess þannig að hægt var að greiða allar skuldir félagins og líka Fríkirkjunnar sjálfrar. Upp úr miðri tuttugustu öldinni lagðist starfsemi félagins niður en var endurvakið með formlegum endurstofnfundi 16. nóvember 2011 og hefur verið virkur félagsskapur síðan.

Hafnarfjarðarbær færir öllum þeim sem viðurkenningu fengu innilegar hamingjuóskir með miklum þökkum fyrir framlag til fegrunar og snyrtimennsku.

Hreinn bær öllum kær!

Ábendingagátt