Söfnum og sáum birkifræi meðan fræ er að finna

Fréttir

Í haust er biðlað til landsmanna að safna birkifræi og dreifa á völdum, beitarfriðuðum svæðum í öllum landshlutum. Skógræktin og Landgræðslan hafa tekið höndum saman um þetta átak og óska eftir stuðningi landsmanna við að breiða birkiskóga landsins út. 

Í haust er biðlað til landsmanna að safna birkifræi og dreifa á völdum, beitarfriðuðum svæðum í öllum landshlutum. Skógræktin og Landgræðslan hafa tekið höndum saman um þetta átak og óska eftir stuðningi landsmanna við að breiða birkiskóga landsins út. Formlega hófst söfnunin á degi íslenskrar náttúru þann 16. september sl. en söfnunin stendur svo lengi sem fræ er að finna á birki nú í haust.  Bæði er hægt að skila fræjunum í sérstökum söfnunaröskjum  til Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslunnar eða fara sjálf í eigin söfnunar- og sáningarferð. 

Birki4Hafnfirskir skólar hafa ekki látið sitt eftir liggja í þessu mikilvæga verkefni. 

 

Birki33. bekkur í Víðistaðaskóla er í hópi þátttakenda í landsátakinu.  Fjöldi annarra leik- og grunnskóla í Hafnarfirði hefur einnig tekið þátt í þessu gefandi og mikilvæga verkefni. 

Sjá hér hvernig á að safna birkifræjum 

Hægt að nálgast söfnunaröskjur úr pappa í verslunum Bónus

Hægt er að nálgast söfnunaröskjur úr pappa í verslunum Bónuss og þar er einnig tekið við fræinu í sérstakar tunnur sem Terra setur upp.  Tunnur verða fjarlægðar 20. október úr Bónus en það breytir því ekki að áfram, meðan fræ er að finna, er tilvalið að fara í eigin söfnunar- og sáningarferð og setja niður fræ t.d. í hraunið milli Norðurbæjar og Víðistaðatúns bak við kirkjuna auk þess sem hraunbollar víðs vegar í bænum eru kjörnir staðir til sáningar. Einnig er kjörið að skella sér í gönguferð um Ástjörn og á Krýsuvíkur- og Helgafellssvæðinu og dreifa fræi á svæði þar sem gróður er snöggur, gróðurþekja rofin og birta nokkuð mikil á svo ljóselska tegund. 

Upplýsingar um hvernig á að tína fræi og dreifa því er að finna á vefnum birkiskogur.is.

Nauðsynlegt er að skrá hvar og hvenær fræið var tínt ef fræum er skilað inn. Þetta má skrifa á öskju átaksins eða á miða sem festur er á fræpoka, ef söfnunaraskjan er ekki notuð. Athugið að aldrei má láta birkifræ í plastpoka eða aðrar loftþéttar umbúðir. Bréf- eða taupokar henta vel í þetta eða litlir pappakassar eða pappaöskjur sem fólk útbýr sjálft.Fræi sem er skilað á söfnunarstöðvar verður dreift í haust undir leiðsögn starfsmanna Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.

Liður í því að útbreiða á ný birkiskóglendi

Átakið er liður í því að útbreiða á ný birkiskóglendi sem þakti a.m.k. fjórðung landsins við landnám. Á rýru landi er gjarnan kolefnislosun því þar er gamall jarðvegur enn að rotna. Þegar landið klæðist birkiskógi stöðvast þessi losun og binding hefst í staðinn. Birkið er frumherjategund sem sáir sér mikið út á eigin spýtur ef hún fær til þess frið. Birkið heldur því starfinu áfram ef vel tekst til að koma því af stað á nýjum svæðum. Landgræðslan og Skógræktin vilja með þessu átaki auka vitund og áhuga fólks á eflingu náttúrunnar og útbreiðslu birkis, víðis og annars gróðurs á landinu, enda er þátttaka almennings lykillinn að árangri í umhverfismálum. Að verkefninu vinna einnig Terra, Prentmet Oddi, Bónus, Lionshreyfingin, Skógræktarfélag Íslands og Landvernd.

Sjá vefinn www.birkiskogur.is – fyrir allar upplýsingar um verkefnið

Á Facebook er átakið að finna undir heitinu „ Söfnum og dreifum birkifræi “ og sömuleiðis er efni deilt á Instagram og myndböndum á Youtube. Meðal annars hafa verið útbúin myndbönd með leiðbeiningum um söfnun og sáningu birkifræs. Almenningur er hvattur til að deila þessu efni á samfélagsmiðlum en einnig að birta þar frásagnir og skemmtilegar myndir frá eigin söfnunar- og sáningarferðum.

Ábendingagátt