Sólvangur 70 ára – til hamingju Hafnfirðingar!

Fréttir

Á þessum degi árið 1953 var hjúkrunarheimilið Sólvangur vígt á sólríkum útsýnisstað og í gullfallegu bæjarstæði ofan við Hörðuvelli með útsýni yfir Hamarskotslæk í átt til sjávar, hvar það stendur enn. Sólvangur hýsir í dag heildræna þjónustumiðstöð fyrir eldra fólk í Hafnarfirði,  71 hjúkrunarrými í tveimur húsum, 60 rými í nýju húsi sem opnað var formlega sumarið 2019 og 11 rými á 2. hæð gamla Sólvangs eftir að húsið gekk í gegnum endurnýjun lífdaga.

Heildræn þjónustumiðstöð fyrir eldra fólk í Hafnarfirði

Á þessum degi árið 1953 var hjúkrunarheimilið Sólvangur vígt á sólríkum útsýnisstað og í gullfallegu bæjarstæði ofan við Hörðuvelli með útsýni yfir Hamarskotslæk í átt til sjávar, hvar það stendur enn. Sólvangur hýsir í dag 71 hjúkrunarrými í tveimur húsum, 60 rými í nýju húsi sem opnað var formlega sumarið 2019 og 11 rými á 2. hæð gamla Sólvangs eftir að húsið gekk í gegnum endurnýjun lífdaga. Gamli Sólvangur hýsir í dag, til viðbótar við hjúkrunarrýmin ellefu, 14 dagdvalarrými, 12 sérhæfð dagþjálfunarrými fyrir fólk með heilabilun sem opnuð voru í október 2021 eftir gagngerar endurbætur á jarðhæð og Sóltún Heilsusetur þar sem eru 39 ný rými fyrir endurhæfingu aldraðra opnuð haustið 2022. Einnig hefur Sóltún Heima aðsetur á Sólvangi. Þjónustan sem opnuð var haustið 2022 felur í sér nýja nálgun í stuðningi við eldra fólk, sem njóta heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu og hefur það að markmiði, líkt og önnur fyrirbyggjandi þjónusta á Sólvangi, að aðstoða og efla eldra fólk til að dvelja lengur í sjálfstæðri búsetu við betri lífsgæði. Garðurinn við Sólvang hefur einnig verið glæsilega endurhannaður með þarfir aldraðra og heilabilaðra að leiðarljósi.

„Sólvangur á sérstakan stað í hugum og hjörtum okkar Hafnfirðinga enda margir sem eiga hlýjar og góðar minningar þaðan. Við erum ákaflega stolt af þeirri uppbyggingu og þróun í þjónustu sem átt hefur sér stað á Sólvangssvæðinu síðustu árin m.a. í samstarfi við ríkið og við Sóltún öldrunarþjónustu. Á Sólvangi er nú risin þjónustumiðstöð fyrir eldra fólk á besta stað í bænum sem mun vaxa og eflast áfram í takti við tíðarandann hverju sinni,“ segir Rósa Guðbjartsdóttur bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

„Við erum mjög stolt af þeirri fjölbreyttu þjónustu sem við höfum byggt upp á Sólvangi fyrir aldraða og erum einkar þakklát fyrir frábært samstarf við Hafnarfjarðarbæ sem hefur lagt mikinn metnað í að fegra umhverfi og húsnæði Sólvangs síðustu ár svo að skjólstæðingum okkar líði sem best hér og vonandi tekist að halda í þann góða anda sem hefur ávallt fylgt Sólvangi,“ segir Halla Thoroddsen forstjóri Sóltúns heilbrigðisþjónustu ehf.

Kaka og upplestur á Sólvangi í dag í tilefni dagsins. Bæjarstjóri færði starfsfólki og íbúum blóm og góðar kveðjur fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar. Frá vinstri: Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir forstöðumaður á Sólvangi, Halla Thoroddsen forstjóri Sóltúns, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Bryndís Guðbrandsdóttir forstöðumaður dag- og heimaþjónustu Sóltúns.

Saga Sólvangs

Forsaga stofnunar Sólvangs spannar aftur til ársins 1929 þegar fyrst komst til umræðu að vöntun væri á elliheimili. Árið 1935 var stofnað elliheimili og mötuneyti að Austurgötu 26 en fljótlega kom í ljós að húsið nægði ekki kröfum þess tíma og árið 1944 var því ákveðið reisa skildi nýtt elliheimili með sjúkra- og fæðingardeild. Um þær mundir var verið að leggja lokahönd á byggingu Bæjarbíós og var þá ákveðið að allur ágóði af hagnaði bíósins myndi renna í nýbyggingu elliheimilisins. Síðla árs 1946 hófst svo smíði elliheimilisins eftir teikningum Einars Erlendssonar byggingameistara, fyrir hönd húsameistara ríkisins.

Hátíðleg athöfn 23.10.1953 – meðal gesta voru forsetahjónin

Hið nýja elli-og hjúkrunarheimili vígt þann 25. október 1953 við hátíðlega athöfn og meðal gesta voru forsetahjónin herra Ásgeir Ásgeirsson og frú Dóra Þórhallsdóttir en þau höfðu þá fyrr um daginn heilsað upp á vistmenn á elliheimilinu við Austurgötu 26. Stórmerkur áfangi hafði náðst í menningarmálum með byggingu þessa húss í Hafnarfirði. Aðallega voru það hafnfirskir iðnaðarmenn sem komu að byggingunni á einn eða annan hátt. Bræðurnir Tryggvi og Ingólfur Stefánssynir voru byggingameistarar, Sigurður Flygenring teiknaði hitaskolp og vatnskerfi en allar lagnir sá Vélsmiðjan Klettur um. Valgarð Thoroddsen rafveitustjóri og Guðmundur Sveinsson rafvirkjameistari sáu um rafmagnsteikningar og lagnir. Uppsetning fullkomins útvarpskerfis og kallkerfis var í höndum Friðriks Jónssonar viðtækjameistara en allir málarar bæjarins sáu um málningarvinnu. Um húsgagnasmíði sáu helstu húsgagnavinnustofur bæjarins og rafmagnstæki útvegaði Rafha. Reykjalundur smíðaði rúmstæði og Benedikt Bergmann heildsali í Reykjavík útvegaði sjúkratæki og borðbúnað.

Óbreytt starfssemi til ársins 1960

Húsið var fjórar hæðir. Á neðstu hæðinni var eldhús, geymslur og í norðurendanum var þvottahús en í suðurendanum lítil sjúkradeild. Á annarri og þriðju hæð hússins var elliheimili og efsta hæðin var fyrir starfsfólk sem ekki svo löngu seinna var tekin til notkunar fyrir aldraða. Fæðingardeildin var einnig á annarri hæð en með sér inngangi og alveg aðskilin frá annarri starfsemi hússins. Kyndiklefi var í kjallara hússins. Starfsemi hjúkrunarheimilisins Sólvangs var nokkuð óbreytt fram til ársins 1960 en þá var tekin til starfa heilsuverndarstöð. Sama ár var sú nýung tekin upp að veita vistmönnum Sólvangs kennslu og tilsögn í föndurvinnu sem enn í dag er vel sótt. Vegna tapreksturs á fæðingardeild Sólvangs til nokkurra ára var árið 1976 ákveðið að hætta rekstri deildarinnar og flytja hana til Reykjavíkur. Var þá hafist handa við endurbætur á annarri hæð m.a. var skipt um einangrun, svalir yfirbyggðar líkt og hafði verið gert á þriðju hæð og aðstaða hjúkrunarfræðinga stórlega bætt. Árið 1978 var farið í að kanna möguleikann á reisa eina hæð ofan á húsið. Sú hugmynd hafði áður verið til umræðu en sem fyrr þótti það ekki ráðlegt. Var þá athugað hvort hægt væri að byggja yfir svalir til að fá auka rými var sú hugmynd framkvæmd og lokið í ársbyrjun 1979. Á 50 ára afmæli Elli-og hjúkrunarheimilisins Sólvangs var nafni þess formlega breytt í Hjúkrunarheimilið Sólvangur sem sameinaðist St. Jósefsspítala á 80 ára afmælisári hans undir formerkinu St. Jósefsspítali-Sólvangur. Svo þegar ákveðið var að selja St. Jósefsspítala árið 2011 og flytja starfsemina til Reykjavíkur var Sólvangur rekin sem sjálfstæð stofnun. Árið 2017 var hafist handa við að reisa nýbyggingu við vesturenda Sólvangs og reksturinn boðinn út. Í júlí 2019 var svo nýbyggingin vígð við hátíðlega athöfn og Sóltún öldrunarþjónusta tók við rekstri Hjúkrunarheimilisins Sólvangs sem hafði verið rekið af ríkinu frá 1991. Við tók endurgerð eldra húsnæðisins enda komið til ára sinna. Fyrsta hæðin var endurgerð fyrir dagdvalir, annarri hæð var breytt í 11 einbýli fyrir hjúkrunarheimilið og tekið í notkun í febrúar 2022 og haustið 2022 voru 3. og 4. hæð opnuð undir nýja endurhæfingarþjónustu fyrir aldraða, Sóltún Heilsusetur.

Eldri tilkynningar um uppbygginguna

Ábendingagátt