Spennandi sýningar og fjölbreyttar göngur

Fréttir

Það er margt í boði í Hafnarfirði í sumar og má þar nefna spennandi sýningar, sumarlestur og laugardagsopnun á bókasafninu og svo er í allt sumar boðið upp á menningar- og heilsugöngur. Aðgangur er ókeypis.

Það er margt í boði í Hafnarfirði í sumar og má þar nefna spennandi sýningar, sumarlestur og laugardagsopnun á bókasafninu og svo er í allt sumar boðið upp á menningar- og heilsugöngur. Aðgangur er ókeypis.

SpennandiSyningar

Vegglistaverk eftir listamanninn Juan prýðir gaflinn á húsinu við Strandgötu 4. Við gaflinn stendur starfsfólk á þjónustu- og þróunarsviði Hafnarfjarðar.FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Vegglistaverk eftir listamanninn Juan prýðir gaflinn á húsinu við Strandgötu 4 en þar má sjá ýmis verk sem margir kannast eflaust við þar sem um er að ræða klippimynd með völdum útilistaverkum í bænum.

Viðtal við Hólmar, Sigrúnu og Andra birtist í Fréttablaðinu 13. júlí 2022  

„Þetta er hugmynd sem var kastað á milli listamannsins og menningar- og ferðamálanefndar Hafnarfjarðar,“ segir Hólmar Hólm, kynningarfulltrúi Hafnarborgar. „Listamaðurinn hafði samband og spurði hvort það væri einhver staður í bænum sem væri á lausu fyrir vegglistaverk en Juan hefur verið að búa til listaverk í almannarýminu víða um land og vakið athygli fyrir það. Þegar farið var í að finna stað lá svo beint við að setja verkið á gaflinn við Strandgötu 4, sem stendur við hliðina á ráðhúsinu og Bæjarbíói, en ýmsar myndir hafa prýtt vegginn á síðustu árum.

Haf1Hólmar Hólm, kynningarfulltrúi Hafnarborgar, segir fjölbreyttar sýningar í gangi með forvitnilegum listamönnum. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Síðan kom upp sú hugmynd að nota útilistaverkin í eigu Hafnarfjarðar og búa til eins konar klippimynd úr þeim sem gladdi okkur í Hafnarborg þar sem við höfum umsjón með útilistaverkum bæjarins. Þá er þetta skapandi leið til þess að minna á þetta safn sem finna má í bænum og fólk getur skoðað á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Maður gleymir nefnilega stundum útilistaverkunum sem eru allt í kringum okkur – við göngum fram hjá þeim og þetta verður einhvern veginn bara hluti af umhverfinu. En þetta er áhugaverð safneign hérna í Hafnarfirði sem telur um 30 útilistaverk og er gaman að geta vakið athygli á listinni með nýjum leiðum.“

Haf2Glæsileg verk eru sýnd í Hafnarborg en þar er líka tónleikahald í hávegum haft.

Fjölbreyttar sýningar í Hafnarborg

Mikið er um tónleikahald yfir hásumarið í Hafnarborg og nú var hinni árlegu Sönghátíð að ljúka á dögunum. „En myndlistin umfaðmar alltaf allt hjá okkur,“ segir Hólmar Hólm og nú standa tvær sýningar yfir í safninu. Annars vegar er um að ræða yfirlitssýningu á verkum Gunnars Arnar Gunnarssonar í aðalsal Hafnarborgar. „Sýningin spannar nærri 40 ára feril listamannsins með verkum í mismunandi miðlum – þetta eru málverk, skúlptúrar, verk úr pappamassa, teikningar og fleira. Þá eru þetta mjög ólík tímabil sem hann gekk í gegnum. Gunnar var að mestu leyti sjálfmenntaður í myndlistinni og var til að mynda fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 1988 sem er mjög merkilegt í sjálfu sér. Það er því ánægjulegt að geta varpað ljósi á feril hans aftur þar sem hann hefur jafnvel gleymst eilítið á síðustu árum meðal yngra fólksins.“

Hins vegar er um að ræða sýningu á nýjum og nýlegum verkum myndlistarmannsins Sigurðar Ámundasonar í Sverrissal. Sigurður vinnur yfirleitt með teikningar en einnig má sjá vídeóverk á sýningunni. „Það er alltaf skemmtilegt þegar listamenn sýna á sér nýjar hliðar. Hann er hér að vinna með myndmál sem við tengjum kannski helst við vörumerki þar sem hann býr til hálfgerð lógó úr stöfum og stafarunum. Þetta er eitthvað sem kemur kannski kunnuglega fyrir sjónir en við getum ekki beinlínis lesið neitt úr þessu. Sigurður notar meðal annars séríslensku stafina og vinnur með það hvernig við leitumst við að finna merkingu í einhverju sem er á mörkum þess að vera kunnuglegt og ókunnuglegt, persónulegt og ópersónulegt – og til þess er leikurinn gerður.“

Haf3
Sumarlestur fyrir börn er í gangi í Bókasafni Hafnarfjarðar. Sigrún Guðnadóttir, forstöðumaður bókasafnsins, segir að um sé að ræða dagskrá fyrir 6–12 ára börn á grunnskólaaldri og elstu börn í leikskólum.

Laugardagsopnun og „sumarlestur“ í Bókasafni Hafnarfjarðar

Í sumar er í fyrsta skipti opið á Bókasafni Hafnarfjarðar á laugardögum og er opið á milli klukkan 11–15 en bókasafnið er opið á laugardögum á öðrum árstímum. Í sumar er einnig boðið upp á „sumarlestur“ í bókasafninu og segir Sigrún Guðnadóttir, forstöðumaður bókasafnsins, að um sé að ræða dagskrá fyrir 6–12 ára börn á grunnskólaaldri og elstu börn í leikskólum. „Foreldrar skrá börnin sín í sumarlestur, börnin skrifa síðan umsókn um viðkomandi bók sem þau skila svo inn og er „lestrarhestur vikunnar“ dreginn út einu sinni í viku og fær hann bók í verðlaun. Lestrarbækurnar eru á íslensku, ensku og pólsku þar sem það býr mikið af pólskumælandi fólki í Hafnarfirði.“

Sigrún segir að bókasafnið sé í samstarfi við grunnskólana í bænum um að börnin fái þá lestrardagbók frá bókasafninu afhenta í skólanum á vorin áður en skólunum er slitið og að skólastjórar segi frá þessu verkefni á skólaslitum. „Þetta er okkar verkefni en við reynum að ná börnunum í skólunum líka; ekki bara þeim sem koma hingað á bókasafnið.“ Í lok sumars, þann 3. september, verður svo uppskeruhátíð sumarlesturs með spennandi dagskrá fyrir börn.

Bókasafn Hafnarfjarðar verður 100 ára í október, nánar tiltekið 18. október, og verður ýmislegt gert vegna þeirra tímamóta. „Það verður mikið um að vera 18. október. Það verður eitthvað um að vera hérna allan þann dag og á laugardeginum þar á undan, 15. október, verður líka eitthvert húllumhæ. Síðan eru afmælisviðburðir allt árið, svo sem leiksýning og tónleikar.“

Haf4
Það er alltaf mikið um að vera í Bókasafni Hafnarfjarðar en í október fagnar safnið aldarafmæli. Safnið er opið á laugardögum í sumar.

Menningar- og heilsugöngur

Hafnarfjarðarbær býður í sumar upp á fjölbreyttar göngur á miðvikudagskvöldum klukkan átta en stundum byrja göngurnar fyrr en það er þegar stílað er inn á börn. „Dagskráin er mjög fjölbreytt,“ segir Andri Ómarsson, verkefnastjóri menningar- og markaðsmála. Á meðal gangna sem liðnar eru má nefna „álfagöngu“ þar sem Silja Gunnarsdóttir, eigandi alfar.‌is, leiddi göngu um álfaslóðir og sagði sögu álfa, dverga og huldufólks á leiðinni. Í göngunni „Ha ha um Hafnarfjörð“ leiddi Einar Skúlason hjá Wappinu fólk um skemmtilegar slóðir í Suðurbæ Hafnarfjarðar og reytti af sér valda Hafnarfjarðarbrandara á leiðinni. Upplýsingar um fleiri göngur má finna á hafnarfjordur.is.

Andri segir að það sé misjafnt hvort gengið sé innanbæjar eða hvort farið sé út fyrir bæinn. „Einhverjar göngur eru innan bæjarmarkanna en það er farið út fyrir bæinn í nokkrum göngum.“ Seinasta gangan verður svo 31. ágúst: Sagan, safnið og gamli bærinn. Þá mun Björn Pétursson, bæjarminjavörður Hafnarfjarðar, leiða göngu um gamla bæinn.

Ábendingagátt