SSH 40 ára í dag

Fréttir

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SSH, eru 40 ára í dag. Samtökin voru stofnuð í Hlégarði, Mosfellshreppi, 4. apríl 1976. 

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SSH, eru 40 ára í dag. Samtökin voru stofnuð í Hlégarði, Mosfellshreppi, 4. apríl 1976. Stofnaðilar voru sveitarfélögin Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Seltjarnarnes, Mosfellshreppur, Bessastaðahreppur og Kjalarneshreppur.

Megintilgangur með stofnun SSH var að skapa vettvang fyrir samstarf um skipulag á höfuðborgarsvæðinu og strax á stofnfundi var rætt um stofnun þróunarstofu, (sem varð að veruleika sem Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins).  Yfirferð yfir gögn um starfsemi SSH sýnir að starfsemi samtakanna í 40 ár skiptist með mjög skýrum hætti í þrjú tímabil sem hvert um sig einkennist að mismunandi áherslum og verkefnavali:

Tímabilið 1976 – 1988
Meginþungi starfsins snerist um skipulagsmál og tengd viðfangsefni, umferðar- og samgöngumál, holræsamál, rekstur Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins og gerð fyrsta svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið. Fulltrúakjörin stjórn og sérstök stjórn yfir Skipulagsstofu. Þessu skeiði lauk í kjölfar staðfestingar á nýju svæðisskipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið 1985 – 2005 og í framhaldi þar af var ákveðið að loka Skipulagsstofu höfuðborgarstofu höfuðborgarsvæðisins.

Tímabilið 1988-2002
Þetta tímabil einkenndist af „hefðbundinni“ starfsemi landshlutasamtaka með 11-12 manna fulltrúakjörinni stjórn, hagsmunagæslu (umfjöllun og umsagnir um lagafrumvörp), breiðri flóru samstarfsverkefna, málþingum, ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins, höfuðborgargirðingu, stofnun Almenningsvagna bs., eyðing vargfugls, ferðaþjónustu fatlaðra, vatnsvernd og fleira.

Tímabilið 2002-
Gjörbreytt áhersla, framkvæmdastjórar í stjórn í stað fulltrúakjörinnar stjórnar, aukin og vaxandi áhersla á innri málefni sveitarfélaganna, sameiginleg mótun rekstrarverkefna, samræming, minnkandi áhersla á hagsmunagæslu út á við. Í dag er megináhersla lögð á eflingu samstarfs sveitarfélaganna. Nýtt svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið, endurskoðuð vatnsvernd mikil umfjöllun um rekstur byggðasamlaganna Sorpu bs. og Strætó bs. – rekstur skíðasvæðanna , sóknaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið, ferðaþjónusta fyrir fatlað fólk og fleira. 

Stjórnsýsluleg staða SSH

Samtök sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu eru ein af átta landshlutasamtökum sem starfa svæðisbundið og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum sveitarfélaga hvert á sínu svæði. Landshlutasamtök eru ekki stjórnvald í skilningi laga og sveitarfélagi er ekki skylt að vera aðili að landshlutasamtökum. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir árlega ákveðið framlag til reksturs landshlutasamtakanna. Sveitarfélögin greiða þar að auki tiltekið árgjald, mismunandi milli landshlutasamtaka.

Ábendingagátt