
Frá árinu 2015 hefur starfsfólk í leikskólum Hafnarfjarðarbæjar fengið námsstyrki frá sveitarfélaginu til þess að stunda nám í leikskólakennarafræðum. Ýmsar leiðir eru í boði fyrir þau sem áhuga hafa á að verða leikskólakennarar, s.s. það að námið er styrkt af bænum og fólk heldur launum á meðan. Framtakið hefur frá upphafi haft það að markmiði að auka hlutfall fagmenntaðra í leikskólum bæjarins og þar með í hópi leikskólakennara auk þess að ýta undir frekari fagmenntun faglærðra.
Vertu með! Ég vil sækja um starf
Árlegir námsstyrkir í mislangan tíma – allt eftir námsleið
Sérstakir námsstyrkir eru veittir árlega og eru þeir í formi launaðs námsleyfis þannig að nemendur geti stundað nám með vinnu í leikskóla en einnig vegna greiðslu á skráningargjöldum og námsgagna. Styrkirnir eru veittir í mislangan tíma og fer það eftir þeirri námsleið sem valin er. Þeir sem stunda nám til M.Ed gráðu í leikskólakennarafræðum fá styrk til tveggja ára en þeir sem eru að fara í fullt M.Ed nám fá styrki til fimm ára. Einnig eru veittir styrkir til þeirra sem stunda nám við leikskólabrú Borgarholtsskóla. Fólk með stúdentspróf getur til að mynda byrjað á því að taka leikskólaliða í Borgarholtsskóla, farið þaðan í háskóla að sækja diplómunám og titilinn aðstoðarleikskólakennari á bachelor-stigi og eftir það er hægt að ljúka meistaragráðu. Þessu lýkur svo með leyfisbréfi til kennslu á öllum skólastigum.Nýverið var skipulag og vinnutími í leikskólum og grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar samræmt. Í Hafnarfirði í dag er starfsár kennara í leikskólum sambærilegt starfsári kennara í grunnskólum.
Mjög verðmætt þegar allir ganga í takt á starfsstað
Markmið leikskólakennaramenntunar er að undirbúa kennara til að starfa með börnum og fyrir samstarf við foreldra og aðra sem að uppeldis- og menntastarfi koma. Starfsfólk leikskóla þarf að þekkja þroskaferli barna og kunna að lesa í þarfir þeirra. Hlutverk kennara er að velja kennsluaðferðir, leikefni og búnað sem örvar sem best þroska barna og miðla þessari þekkingu til annars starfsfólks leikskóla. Því ekkert er dýrmætara en skólastarf þar sem allir ganga í takt; faglærðir og ófaglærðir, og búa að sama skilningi á námsþáttum leikskólans.