
Við erum Hafnarfjarðarbær
Hafnarfjörður er þriðji stærsti bær landsins, framsækið og fjölskylduvænt sveitarfélag sem býður upp á fjölbreytta þjónustu á rúmlega 70 starfsstöðvum um allan bæ. Þar af eru níu tómstundamiðstöðvar starfræktar innan húsnæðis grunnskóla bæjarins með stórum hópi starfsfólks sem starfar í faglegu, skapandi og skemmtilegu umhverfi með heilum hafsjó af tækifærum og hlunnindum. Mikil áhersla er lögð á faglegt og árangursríkt tómstundastarf á öllum aldursstigum. Í boði er uppbyggjandi, skapandi, skemmtilegt og gefandi starfsumhverfi þar sem starfsfólk, börn og ungmenni deila hugmyndum sínum, þekkingu og reynslu og skapa saman samfélag sem einkennist af fjölbreytileika, skapandi hugsun og gleði.
Frístundaheimili
Börn í 1.- 4. bekk geta stundað fjölbreytt starf á frístundaheimilum við sinn hverfisskóla frá því að skóladegi lýkur til kl. 17 alla virka daga, á skertum dögum og skipulagsdögum. Hlutverk frístundaheimilanna er að bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur. Starfið byggist á vali, hópastarfi, smiðjum og útiveru og boðið upp á síðdegishressingu á miðjum degi. Markmiðið er
að hvert barn fái að njóta sín og þroskast í umhverfi sem einkennist af hlýju, öryggi og virðingu.
Félagsmiðstöðvar
Í félagsmiðstöðvum bæjarins hafa börn og ungmenni aðstöðu til afþreyingar og samveru með jafnöldrum í öruggu umhverfi. Starfið, sem hugsað er fyrir öll í 5. – 10. bekk, hefur forvarnar-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri og þroska. Unnið er í klúbbum, ráðum, hópastarfi, opnu starfi og tímabundnum verkefnum með áherslu á fjölbreytileg viðfangsefni og að ná til þeirra sem m.a. þarfnast félagslegs stuðnings. Opið í frímínútum og hádegishléum þegar kostur gefst, auk þess sem börnin og ungmennin geta kíkt við og rætt við starfsfólk ef eitthvað liggur þeim á hjarta.
Ert þú fyrirmyndin sem við leitum að? Sækja um starf