Starfsánægjan hefur góð áhrif á börnin

Fréttir

Í fimm ár hefur starfsfólki í leikskólum Hafnarfjarðarbæjar staðið til boða námsstyrkir frá bænum til þess að stunda nám í leikskólakennarafræðum. Markmiðið með framtakinu er að auka hlutfall fagmenntaðra í leikskólum sveitarfélagsins og þar með í hópi leikskólakennara. 

Í fimm ár hefur starfsfólki í leikskólum Hafnarfjarðarbæjar staðið til boða námsstyrkir frá bænum til þess að stunda nám í leikskólakennarafræðum. Markmiðið með framtakinu er að auka hlutfall fagmenntaðra í leikskólum sveitarfélagsins og þar með í hópi leikskólakennara. 

Bæjarblaðið Hafnfirðingur hitti tvö af þeim 30 sem hafa tekið þessum möguleika fegins hendi þetta skólaár, þau Guðbjörgu Bjarkadóttur og Stephen James Midgley. Vinnustaður þeirra samhliða náminu er Skarðshlíðarleikskóli, en hann deilir húsnæði með grunnskóla, tónlistarskóla og íþróttahúsi og samstarf þessara starfseininga býður jafnt nemendum sem starfsfólki upp á fjölbreyttar leiðir til náms og sköpunar.

Frábært tækifæri að fá greitt fyrir að læra

Stephen er fæddur 1981 og mætti segja að hann sé kynslóð á undan Guðbjörgu, sem er fædd 1999. Fjölskylduhagir þeirra eru einnig ólíkir, en Stephen er giftur fjögurra barna faðir, en Guðbjörg er barnlaus og kláraði framhaldsskólanám 2018. „Ég var framkvæmdastjóri fyrirtækis áður en ég valdi þennan vettvang, einn á skrifstofu og með mannaforráð,“ segir Stephen, en það hafi átt betur við hann að vinna á leikskóla og hann hafði góða reynslu af börnum, með fjögur slík heima. „Ég hafði hugsað mér að læra til leikskólakennara en miklaði fyrir mér að fara í háskólanám og missa heimilistekjurnar. Ég var búinn að starfa á Tjarnarási í töluverðan tíma þegar skólastjórinn þar benti mér á þessa leið. Ég sótti um og finnst þetta frábært tækifæri – að fá greitt fyrir að læra og einnig þegar prófatíðin er og lotur í náminu. Þetta er líka kjörið tækifæri til að fjárfesta í sjálfum mér,“ segir Stephen og brosir. Hann hóf störf í Skarðshlíðarleikskóla núna í haust og líkar afar vel þar, eftir eitt ár á Tjarnarási. 

SKmynd2Stephen og Guðbjörg, seint í haust, fyrir utan skólann.

Stígur vel út fyrir þægindarammann

Guðbjörg hóf störf í Skarðshlíðarleikskóla fyrir ári sem almennur starfsmaður og var áður fjóra mánuði á Hamravöllum. „Ég hafði skráð mig í BA-nám í íslensku í HÍ, en hætti við eftir að ég sá kynningu á þeim möguleika að fá greitt fyrir að læra að verða leikskólakennari. Ég bara greip tækifærið því ég hafði vel hugsað mér að verða leikskólakennari. Það var líka hjartanu nær,“ segir hún og bætir aðspurð við að það mest heillandi við starfið séu börnin og gleðin og hvað börn eru yfirleitt áhugaverðir einstaklingar. „Allt frá því að ég var í 8. bekk í Hraunvallaskóla hef ég verið að þjálfa 6-10 ára börn í frjálsum og fannst það eiga vel við mig. Leikskólastarfið hjálpar manni heilmikið með að stíga út fyrir þægindarammann. Þegar ég átti í fyrsta sinn að vera með samveru fyrir krakkana hugsaði ég guð minn góður því ég hef alltaf átt erfitt með að standa fyrir framan hóp og tjá mig. Núna er ég farin að spila á gítar og syngja allskonar söngva, búa til leikrit og ýmislegt annað. Eitthvað sem mér hefði ekki dottið í hug að ég gæti gert. Börnin hjálpa manni líka svo mikið við þetta því þau dæma aldrei, heldur hvetja og styðja ef eitthvað er.“

Kmynd3Útisvæði Skarðshlíðarleikskóla.

Gleði, sköpun, hjálpsemi og hressleiki

Gaman er að geta þess að Stephen spilar líka á gítar, sem og þriðji starfsmaður Skarðshlíðarleikskóla sem er á sama samningi og viðmælendur okkar. „Þegar ég ræddi við vin minn um daginn minntist ég á í gamni við hann að einu leiðirnar fyrir mig til að fá borgað fyrir að gera það sem er skemmtilegt hefðu verið að vera tónlistarmaður, atvinnumaður í fótbolta eða leikskólakennari. Þetta var raunsæjasti valmöguleikinn. Starfsánægjan hefur líka góð áhrif á börnin. Það er svo margt sem þau læra hér sem er ekki endilega hluti af skipulögðu skólastarfi. Bara í því sem þau fást við daglega. Gleði, sköpun, hjálpsemi og hressleiki. Það er heldur ekki hægt að fela persónu sína fyrir börnunum, þau draga hana bara fram á sinn einlæga og opinskáa hátt og það er öllum hollt,“ segir Stephen að lokum.

Mynd4_1607506354674Frá opnun Skarðshlíðarleikskóla.

Ábendingagátt