Starfsstöðvar hafa virkjað sínar viðbragðsáætlanir

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hefur hækkað viðbúnaðarstig sveitarfélagsins til samræmis við neyðarstig almannavarna vegna smita á COVID-19 veirunni. Þrátt fyrir að ríkislögreglustjóri í samráði við sóttvarnalækni hafi fært stig almannavarna af hættustigi yfir á neyðarstig þá miðast viðbragðsáætlanir sveitarfélagsins við að halda úti skólastarfi með skerðingu og tryggja þá starfsemi og þjónustu sem þarf að haldast órofin á öllum stigum.   

Hafnarfjarðarbær hefur hækkað viðbúnaðarstig sveitarfélagsins til samræmis við neyðarstig almannavarna vegna smita á COVID-19 veirunni. Þrátt fyrir að ríkislögreglustjóri í samráði við sóttvarnalækni hafi fært stig almannavarna af hættustigi yfir á neyðarstig þá miðast viðbragðsáætlanir sveitarfélagsins við að halda úti skólastarfi og menningarstarfi með skerðingu og tryggja þá starfsemi og þjónustu sem þarf að haldast órofin á öllum stigum. Þetta nær þó ekki til þeirrar þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins sem sinnir fólki í viðkvæmri stöðu en ákveðin þjónusta fjölskyldu- og barnamálasviðs hefur þegar verið skert og einhverjum úrræðum lokað. Þrátt fyrir þessa skerðingu er áfram leitast við að veita nauðsynlega þjónustu á sviðinu.  Neyðarstjórn Hafnarfjarðarbæjar hefur verið starfandi frá því að almannavarnir lýstu yfir óvissustigi  27. janúar síðastliðinn. 

Viðbragðsáætlun á neyðarstigi fyrir Hafnarfjarðarhöfn og stoðsvið Hafnarfjarðarbæjar virkjuð í gær

Starfsstöðvar Hafnarfjarðarbæjar eru um 70 talsins. Hafa stjórnendur skóla og stofnana þegar virkjað sínar viðbragðsáætlanir síðustu daga og vikur og gripið til viðeigandi og samræmdra viðbragða í takt við tilmæli og leiðbeiningar landlæknis, sóttvarnalæknis og almannavarna. Viðbragðsáætlun aðgerða á neyðarstigi  fyrir Hafnarfjarðarhöfn og stoðsvið Hafnarfjarðarbæjar í Ráðhúsi Hafnarfjarðar og á Norðurhellu voru virkjaðar í gær. Með stoðsviðum er vísað til eftirfarandi sviða: Fjármálasvið, stjórnsýslusvið, þjónustu- og þróunarsvið, umhverfis- og skipulagssvið, skrifstofa mennta- og lýðheilsusviðs og skrifstofa fjölskyldu og barnamálasviðs.

Aðgerðir stoðsviða Hafnarfjarðarbæjar taka sérstaklega til eftirfarandi þjónustu:

  • Þjónusta í fyrsta forgangi hjá sveitarfélaginu: 1) neyðarstjórn, 2) sólarhringsstarfsstöðvar skv. neyðaráætlun, 3) heimaþjónusta skv. neyðaráætlun og 4) barnavernd skv. neyðaráætlun.
  • Önnur starfsemi sem tekið er tillit til við skilgreiningu verkefna: 1) fjárreiður skv. forgangsröðun, 2) launavinnsla skv. forgangsröðun, 3) upplýsingaþjónusta til almennings í gegnum þjónustuver og vef, 4) rekstur grunnkerfa, 5) greiðsla húsaleigubóta, 6) fjárhagsaðstoð og 7) afgreiðsla brýnna stjórnsýsluerinda, sbr. ákvæði stjórnsýslulaga.

 

Í takti við viðbragðsáætlanir sveitarfélagsins verður gripið til eftirfarandi aðgerða heilt yfir:

  • Skólastarf – skerðing. Starfsdagur verður haldinn í öllum leikskólum og grunnskólum Hafnarfjarðar mánudaginn 16. mars til að stjórnendur og starfsfólk geti skipulagt skólastarfið sem best á þessu tímabili sem takmörkunin nær til. Þetta þýðir að starfsfólk mætir til vinnu en nemendur verða heima. Foreldrar leik- og grunnskólabarna eru beðnir um fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu um helgina og á mánudaginn.
  • Skilgreining á hópum starfsfólks. Gert er ráð fyrir að hluti starfsfólks á stoðsviðum og hjá Hafnarfjarðarhöfn sem sinna þjónustu sem þarf að haldast órofin á öllum stigum sinni vinnu bæði í aðskildum rýmum innan starfsstöðva og í fjarvinnu til að lágmarka hættu á hópsmiti og koma í veg fyrir að heilar starfseiningar detti út á sama tíma.
  • Lágmörkun flæðis og funda milli starfsfólks sviða/deilda með áherslu á fjarfundi. Ferðir á milli starfseininga takmarkaðar við þær sem þykja nauðsynlegar. Starfsfólk er hvatt til fjarfunda og forgangsröðunar funda. 
  • Viðburðir og kynningarfundir. Boðun nýrra funda og viðburða á vegum sveitarfélagsins verður frestað meðan neyðarstig almannavarna ríkir. Skipulagsfundir sem á dagskrá eru verða í beinu streymi. 
  • Viðtöl og fundir með íbúum í ráðhúsi eða á Norðurhellu. Áhersla er lögð á afgreiðslu erinda með símtali eða tölvupósti. Ekki hefur verið lokað á nauðsynlega fundi og heimsóknir.
  • Afgreiðsla í þjónustuveri og þjónustumiðstöð. Íbúar og viðskiptavinir sem eiga erindi við þjónustuver og þjónustumiðstöð eru hvattir til að senda tölvupóst á hafnarfjordur@hafnarfjordur.is, nýta sér vefspjall á www.hafnarfjordur.is eða hringja í síma: 585-5500 til að takmarka heimsóknir sem ekki teljast mikilvægar. Upplýsingar um starfsemi er að finna á www.hafnarfjordur.is

Sameinumst öll um að lágmarka hættu á smiti og veikindum.

Ábendingagátt