Stöðug þróun í aðstoð við fatlað fólk

Fréttir

Hafnarfjörður er fram­sækinn bær þegar kemur að þjónustu við fatlað fólk. Hugsað er út fyrir boxið og farnar nýjar leiðir til að bæta umhverfi og aðgengi. Marg­ víslegar áskoranir komu upp hjá starfsfólki í Covid og nýjungar litu dagsins ljós.

Hafnarfjörður er fram­sækinn bær þegar kemur að þjónustu við fatlað fólk. Hugsað er út fyrir boxið og farnar nýjar leiðir til að bæta umhverfi og aðgengi. Marg­víslegar áskoranir komu upp hjá starfsfólki í Covid og nýjungar litu dagsins ljós.

Hrönn Hilmarsdóttir, deildarstjóri þróunar og reksturs í málefnum fatlaðs fólks hjá Hafnarfjarðarbæ, hefur starfað hjá bænum frá árinu 2011. Hún segir það aðdáunarvert hversu mikil samstaða og jákvæðni sé í starfsmannahópum. „Við erum með forstöðumannahóp sem er í miklu samstarfi og þeir eru síðan með starfsmannahópa sem standa þétt saman. Starfsfólkið hefur gefið sig allt í starfið til að vernda það fólk sem það þjónustar. Þar sem hvert heimili er lítill vinnustaður myndast vinátta á milli starfsmanna sem skilar sér í starfið. Að vinna með fötluðu fólki á þeirra heimilum er skemmtilegt og fjölbreytt starf. Miklu máli skiptir einnig að samvinna og samskipti við aðstandendur sé góð,“ segir Hrönn og bætir því við að mjög vel hafi gengið að halda úti þjónustu í Covid. „Verkefnin hafa verið fjölbreytt og margs konar,“ segir hún.

HronnHilmarsdottir

Hrönn Hilmarsdóttir segir mikla framför og þróun hafa orðið í þjónustu við fatlað fólk í Hafnarfirði. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
Á tímabili var allt í samfélaginu meira og minna lokað og fatlað fólk gat ekki farið í vinnu eða aðrar daglegar athafnir. Fleira fólk þurfti til að manna heimilin þar sem allir voru heima allan daginn. Við brugðum því á það ráð að starfsfólk vinnustaða, hæfingarstöðva og annarrar dagþjónustu fór í breytt verkefni. Sumir sáu um að hringja í fólk sem bjó eitt til að taka stöðuna á líðan og þess háttar. Aðrir starfsmenn fóru inn á heimilin til að sinna fólkinu og svo framvegis. Þetta útheimti mikið skipulag og að starfsfólk væri tilbúið í breytt verkefni,“ upplýsir Hrönn.

Alþjóðlegar viðurkenningar

„Eðlilega hentaði ekki öllum íbúum að komast ekki út á meðal manna og að fá frekar litla tilbreytingu. Við urðum því að finna lausnir og nýjar leiðir. Sem dæmi þá settu Geitungarnir, sem er nýsköpunar- og atvinnuþjálfun fyrir fatlað fólk, á fót „litla kaffihúsið okkar“ þegar öll önnur kaffihús voru lokuð. Fatlað fólk gat pantað tíma í kaffihúsinu og þar með brotið upp hversdaginn og gert eitthvað skemmtilegt. Geitungarnir hlutu evrópska viðurkenningu fyrir starfsemina árið 2017 og Múrbrjótinn árið 2018. Sérstaða þeirra er hversu einstaklingsmiðuð þjónustan er. Allir þjónustunotendur eru með persónulega stundatöflu sem er sett upp eftir áhugasviði hvers og eins. Þannig er leitast við að notendur fái tækifæri til að auka við reynslu og þekkingu sína á víðtækum sviðum atvinnulífsins,“ segir Hrönn enn fremur. Hafnarfjarðarbær setti á fót nýjan búsetukjarna í lok sumars árið 2020 og annan árið 2021 og nú í mars 2022 fer af stað enn einn búsetukjarninn en með öðru sniði en áður hefur verið gert.“

Nýtt búsetuform

„Hugmynd að nýju búsetuformi kviknaði hjá nokkrum foreldrum ungmenna með Downs heilkenni þegar þau voru að ræða saman um framtíð barna sinna. Þau báru hugmyndina undir bæjaryfirvöld sem tóku vel í hana. Árið 2019 var undirritaður samningur á milli Hafnarfjarðarbæjar og rekstrarfélags Vinabæjar um þjónustu fyrir íbúðakjarnann en bærinn greiðir það fjármagn sem þarf til rekstursins. Þroskahjálp byggði raðhúsið með sex íbúðum auk starfsmannaaðstöðu í miðju hússins. Íbúarnir leigja hverjir sína íbúð af Þroskahjálp. Rekstrarfélagið Vinabær er í eigu íbúanna sjálfra og munu þeir því taka fullan þátt og hafa bein áhrif á stefnur og áherslur í þjónustunni. Samningurinn á sér engin fordæmi hér á landi. Íbúarnir þekkjast vel, hafa verið vinir í mörg ár og eru tilbúnir að flytja að heiman í sitt eigið húsnæði. Sem dæmi þá hafa íbúarnir hafa haft sitt að segja um ráðningu starfsfólks. Forstöðumaður og deildarstjóri tóku ráðningarviðtölin og umsækjendur fengu tækifæri til að koma einhverju sérstöku á framfæri til íbúanna. Forstöðumaður, deildarstjóri og allir íbúarnir héldu fund saman þar sem farið var yfir allar starfsumsóknir, íbúunum voru sýndar myndir af umsækjendum og skilaboðum komið á framfæri. Íbúarnir höfðu svo lokaval um það hvaða starfsfólk yrði ráðið. Þetta er mjög spennandi verkefni sem gaman verður að fylgjast með,“ segir hún.

Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir

Nýjungar hafa litið dagsins ljós og má þar nefna að hæfingarstöðin í Bæjarhrauni sem þjónustar fatlað fólk með áherslu á óhefðbundnar tjáskiptaleiðir annars vegar og skynörvandi umhverfi hins vegar hefur tekið þátt í mikilli framþróun. „Sérkenni hæfingarstöðvarinnar er og hefur meðal annars verið einstaklingsmiðuð notkun á stýribúnaði fyrir tjáskiptatölvur. Áður en tjáskiptatölvur komu til var „tölvu-stýribúnaðurinn“ sérhannaður og smíðaður fyrir notendur og þurfti þá að leita í erlent samstarf til að slíkt væri framkvæmanlegt. Það þótti merkilegt fyrir rúmum 25 árum að stjórna tölvu með tunguhreyfingum og augnhreyfingum. Núna eru starfsmenn og notendur þjónustunnar í hæfingarstöðinni í miklu alþjóðlegu samstarfi.

Meðal annars við þróun á Bliss-tungumálinu sem er myndrænt viðurkennt tungumál sem byggir á merkingarfræði. Þeir sem nota Bliss-tungumálið nota oftast ekki hefðbundið talmál og/ eða nota það sem stuðning við talmál sem er óskýrt.

Talsvert er leitað til hæfingarstöðvarinnar til að fá kynningu á notkun Blisstungumálsins sem og „tölvutjáskiptabúnaðinum“ sem er mikill hátæknibúnaður og er meðal annars stjórnað með augneða höfuðhreyfingum. Nú er hæfingarstöðin að undirbúa annað erlent samstarfi, en stefnt er að því að fá sérfræðing Íslands/Hafnarfjarðar sem mun halda námskeið varðandi annars konar leið óhefðbundinna tjáskipta, það er Intensive Interaction. Um leið er tækifæri til að skapa úr okkar frábæra starfsmannahópi hafnfirskan sérfræðing sem gæti aukið þekkingu víðar en í Hafnarfirði. Tjáning er hluti af grundvallarmannréttindum allra, alls staðar,“ segir Hrönn

Viðtal við Hrönn birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 3. mars 2022.

Ábendingagátt